21.02.1947
Efri deild: 78. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 292 í B-deild Alþingistíðinda. (458)

47. mál, sauðfjársjúkdómar

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Hv. frsm. gat þess réttilega, að við fyrri umr. málsins hefði komið upp nokkur óánægja út af auknum kostnaði ríkissjóðs í sambandi við þær breytingar, sem n. flytur á þskj. 407. Hv. frsm. orðaði það svo, að fjmrh. hefði spurt, hvaða kostnaður hlytist af því, ef viðhald á aukavarnarlinum yrði lagt á ríkissjóð. Það var nú ekki það, sem ég hafði sérstaklega við þetta að athuga, heldur var það sú brtt. hv. n., að hún vildi leggja viðhaldskostnað aðalvarnarlinanna á ríkissjóð. (PZ: Það gerði Nd. líka.) Ekki sýndist mér það á frv. — 8. gr. þess hljóðar þannig: „Girðingar á aðalvarnarlínum skulu lagðar á kostnað ríkissjóðs. Viðhald þeirra og eftirlit ber hlutaðeigandi fjárskiptafélögum eða sýslufélögum að annast, en ríkissjóði að kosta. Í girðingar á aukavarnarlínum leggur ríkissjóður til efni, en hlutaðeigandi fjárskiptafélög annast á sinn kostnað flutning efnisins frá hafnarstað, uppsetningu girðinganna og viðhald. Verði ágreiningur um skiptingu kostnaðar við aukavarnarlinur, sker landbrh. úr, að fengnum till. sauðfjársjúkdómanefndar. Varzla meðfram varnargirðingum skal ákveðin af sauðfjársjúkdómanefnd, en framkvæmd af aðliggjandi fjárskiptafélögum á kostnað ríkissjóðs. Reikninga um kostnað ríkissjóðs samkvæmt þessari grein úrskurðar sauðfjársjúkdómanefnd.“ (PZ: Já, þetta á ríkissjóður að kosta.) En er það þá það sama, að sýslufélög annist þetta, en ekki ríkissjóður? Ég er ekki alveg viss um það, ef fjárskiptafélög eða sýslufélög eiga að annast þetta, að sama útkoma verði á þessu og ef trúnaðarmenn ríkisins gerðu það einvörðungu. (PZ: Þetta var nú einmitt það. sem ég sagði.) Svo er það annað. Viðhaldskostnaði á aukavarnarlínum vill hv. n. koma yfir á ríkissjóð. en ég er á móti því, að hv. þd. íþyngi ríkissjóði frekar en orðið er eftir frv., eins og hv. Nd. gekk frá því. 8. gr. eykur þann mikla kostnað, sem lagður er á ríkið vegna sauðfjárveikivarnanna, bæði beint og óbeint. N. vill leggja í hendur aðila, sem að vísu getur ekki talizt óviðkomandi, en þó að eðlilegum hætti mun ekki hafa hag ríkissjóðs sérstaklega fyrir augum, framkvæmd á verki, sem ríkissjóður á að kosta. Og í öðru lagi vill n. leggja beint á herðar ríkissjóðs að kosta viðhald á aukavarnarlinum, sem ríkissjóður hefur hingað til ekki kostað. Ég skal ekki fjölyrða þetta frekar, en tel það ekki nema sanngjarnt, að fjárskipta- og sýslufélög beri kostnaðinn af aukavarnarlínunum. Álit hr. Sæmundar Friðrikssonar liggur hér fyrir prentað, og telur hann, að kostnaður við aukavarnarlínurnar nemi um 50 þús. kr. árlega. Nú tel ég, að þessi kostnaður aukist með ári hverju, eftir því sem girðingarnar eldast og ganga úr sér, og styður það enn það, að ég álít, að fullan varnað þurfi að hafa fyrir því, að ekki sé of langt gengið í því að auka kostnað ríkissjóðs í þessu efni.