21.02.1947
Efri deild: 78. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 293 í B-deild Alþingistíðinda. (459)

47. mál, sauðfjársjúkdómar

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Ég hygg, að þetta sé á misskilningi byggt hjá hæstv. fjmrh. Eins og 8. gr. frv. hljóðar nú, þegar hún kemur frá Nd., þá er það tvímælalaust, að kostnaðurinn við viðhald á aðalvarnarlínunum hvílir á ríkissjóði, en hlutaðeigandi fjárskipta- eða sýslufélög skulu annast framkvæmdina. Ég hygg, að allir geti verið sammála um það, að þegar einhverjum þriðja aðila er skotið inn til þess að annast einhverja framkvæmd, sem svo annar aðili á að borga, að þá er það venjan, að minna er hugsað um, hvað framkvæmdin kosti mikið fé, heldur en þegar annar aðilinn sjálfur sér um framkvæmdina. Hér er um að ræða kostnað á viðhaldi, sem nemur 250 þús. krónum, og segja mætti mér það. að með því að láta fjárskiptafélög, hvert á sínu svæði, eða sýslunefndir, eins og hv. Nd. vill, sjá um þetta viðhald, þá kæmi út dálítið meiri upphæð en 250 þús. kr., sem þessi kostnaður næmi, en þessu nam viðhaldskostnaðurinn á síðasta ári. Með því, að framkvæmdastjórn sauðfjársjúkdómanefndar sjái um þetta viðhald, álít ég, að fengist á því ódýrari framkvæmd, en á þann veg, sem gert er ráð fyrir í frv. Þess vegna álít ég, að eitthvað af þeim 50 þús. kr., sem viðhald aukavarðlinanna hefur kostað, fengist upp með breyt.. sem við viljum hér gera láta. Samkvæmt minni reynslu í lífinu hygg ég þetta mundu reynast betur. Annað vil ég benda hv. ráðh. á. Hann hyggur, að viðhaldskostnaðurinn aukist með aldri og fjölgun girðinganna. Vitanlega er það rétt. að með aldrinum þurfa girðingarnar meira viðhald, en hér kemur inn í eitt atriði, sem ekki má gleyma. Yfirleitt stefnum við að fjárskiptum á mæðiveikisvæðinu. T.d. vil ég hér benda á það, að varðlínan, sem var í fyrra utan um Reykdælahrepp í S-Þingeyjarsýslu, er nú horfin. Alls staðar í kringum hana er komið heilbrigt fé. Varðlínunni með Skjálfandafljóti verður kannske haldið við í sumar, meðan vissa fæst um það, hvort fé, sem flutt var hinum megin við hana, reynist heilbrigt, en reynist svo, hverfur hún einnig. Eftir því sem fjárskipti verða víðar um landið, fækkar varðlínunum. Vitanlega geta komið varðlínur í staðinn sums staðar, en það fer eftir því, hve fjárskiptasvæðin verða stór, en slá má því föstu, að eftir því sem fjárskipti aukast, verður varzlan minni, svo að ég held, að ekki sé ástæða til þess að ætla, að hún af þessum ástæðum verði meiri, en undanfarið ár. Hvort viðhaldskostnaður verður meiri vegna hækkaðs kaupgjalds eða ekki, fer eftir því, hvernig ríkisstj. tekst að halda niðri vísitölu og kaupgjaldi í landinu.

Það, sem við viljum breyta, er það, að ríkissjóður kosti það viðhald, sem á s.l. ári nam 50 þús. kr. Hvort tveggja er, að við álítum. að girðingarnar yrðu öruggari með þessu móti, að sýslufélög eiga erfitt með að greiða þetta, þar eð þau hafa jafnan ekki gilda gjaldstofna til að grípa, þar eð ríkið hefur svipt þau þeim flestum, og að við teljum það ódýrara, að ríkið sjái um þetta að öllu leyti en sýslufélögin eða fjárskiptafélögin geri það að nokkru leyti.