13.12.1946
Sameinað þing: 18. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 23 í D-deild Alþingistíðinda. (4598)

100. mál, einkaleyfasafn

Flm. (Pétur Ottesen):

Ég hef leyft mér að bera fram þáltill. um að skora á ríkisstj. að láta athuga, hvaða kostnað það hefði í för með sér að koma á fót erlendu einkaleyfasafni, og að niðurstöður verði fljótt lagðar fyrir þingið. Það er ekki efi á, að þýðingarmikið er að hafa glöggar gætur á, hverjar tæknibreytingar koma fram. Það er vitað mál, að það er mjög þýðingarmikið fyrir atvinnuvegina að geta tileinkað sér tæknibreytingar, sem fram koma. Svo er með flestar nýjungar, að þeir, sem finna þær upp, fá einkaleyfi hjá viðkomandi ríkisstj. Sú leið er næst fyrir Íslendinga að kynna sér einkaleyfi, sem eru veitt í nágrannalöndum okkar. Hér á landi voru sett l. um þetta árið 1923, og síðan hafa verið veitt 128 einkaleyfi, og hafa útlendingar fengið flest leyfin, en Íslendingar 18–19 leyfi. Vegna hinna stóru tækniframkvæmda er mjög mikilsvert, að komið yrði hér upp einkaleyfasafni. Slík söfn eru fyrirferðarmikil í nágrannalöndum okkar og hafa þar mikinn kostnað í för með sér. Ég vildi því beina málinu inn á þá braut, að hér yrðu tekin þau einkaleyfi, sem þýðingu hafa fyrir íslenzkt atvinnulíf. Mér þykir svo ekki ástæða til að fjölyrða um þetta meira, en til frekari athugunar vildi ég mælast til, að málinu verði vísað til allshn., sem væntanlega gefst tækifæri til að kynna sér og afgreiða þetta mál fljótt og senda það til frekari afgreiðslu hér.