20.02.1947
Sameinað þing: 30. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 31 í D-deild Alþingistíðinda. (4626)

114. mál, Laxá í Suður-Þingeyjarsýslu

Jónas Jónsson:

Mér þykir vænt um, að hv. allshn. hefur lokið þessu máli að sinni. En ég get þó ekki komizt hjá því að gera það að frekara umtalsefni. Hv. n. er nokkur vorkunn, þótt hún gangi ekki fram hjá áliti þess manns, sem fyrir nokkru hefur verið ráðinn ráðunautur ríkisstj. um laxamál. En ef svo er, sem ég vona, að hv. n. viti, að þessi maður hefur aldrei komið að Laxá og aldrei komið að því vatni, sem um er að ræða, og er ókunnugur öllu, sem að þessu lýtur, þá finnst mér það næstum ofrausn af hv. n. að taka jafnmikið tillit til þess, sem þessi maður segir, og hún hefur gert. Það er hneisa fyrir hinn unga sérfræðing, að hann skuli koma með annað eins álit og það, sem hér liggur fyrir. Og mér finnst, að hv. fyrri þm. Árn., jafnreyndur maður og hann er hvað snertir þessi mál, hann hefur sett þá laxalöggjöf, sem hér hefur verið gerð landinu til mikils gagns, slíkur maður hefði átt að vita, að ekki var hægt að gera svona mikið úr orðum þessa manns. Ég vil þá spyrja hv. frsm., hvers vegna n. birti ekki hér með álit þess manns, sem hefur um nær 20 ára skeið verið ráðunautur í laxamálum. Hann sendi n. skriflegt álit. Hann þekkir málið út og inn, en hinn maðurinn þekkir málið ekki neitt. Vegna framtíðarinnar vil ég benda á, að það veltur á miklu, að þetta sé gert í sambandi við fyrirhugaða virkjun þarna. Það er útilokað, að bændur á þessu svæði leggi i að gera þetta, enda er það raunverulega siðferðileg skylda rafvirkjunarinnar að gera þetta. Segjum svo, að ráðh. fengi nú tilmæli um stækkun virkjunarinnar þarna og hann gæfi út leyfi á þessu ári. Það er alveg undir hælinn lagt, hvort því fylgi nokkurt skilyrði varðandi þetta mál. Það er því undir góðsemi þess ráðh., sem með þessi mál fer, hvernig þessu reiðir af. Alls staðar erlendis, þar sem svona stendur á, er það venja, að virkjanir framkvæmi þetta verk, og er sá kostnaður talinn með virkjunarkostnaðinum. Ég mun snúa mér til þess ráðh., sem með þessi mál fer, og reyna að bæta úr yfirsjón þessa unga manns. Hv. þm. getur auðvitað afsakað sig og n. með þessu áliti sérfræðingsins. En ég vil spyrja hv. þm. að því, hvað þeir yfirleitt álíta um þann sérfræðing, sem getur haldið því fram, að vatnið í Laxá, nýkomið úr hinu gróðursæla Mývatni, sé óhæft fyrir hrygningu. Í þessu felst svo mikil vankunnátta í því, sem allir eiga að vita, að furðulegt getur talizt. Allir, sem nokkuð þekkja til þarna, vita, að svo góð sem Laxá er fyrir neðan fossana, þá er hún miklu álitlegri fyrir ofan þessa fossa. Maður gæti haldið, að þessi ungi sérfræðingur héldi, að laxinn fengi kvef, ef hann kæmi upp fyrir fossana, og þess vegna þurfi að rannsaka, hvort það vatn, sem komið er úr bezta veiðivatni landsins, sé skaðlegt laxinum, þegar hann kæmi upp fyrir fossana. En svo er það nú annað mál, hvort nokkuð fengist út úr þeim rannsóknum. Þessi ungi maður eyddi fyrir ríkissjóði 40 þús. kr. á s.l. ári við rannsóknir á Lagarfljóti. Ég hefði gaman af því að vita, hvort hv. frsm. n. veit, hvað sú rannsókn leiddi í ljós. Ég þykist vita, að sú rannsókn hafi ekkert leitt í ljós, sem ekki var vitað áður, enda hefur það áður verið rannsakað.

Ég sé ekki, að hægt sé að greiða atkv. með breyt. n., vegna þess að ég get ekki greitt atkv. með því, sem byggt er á svona mikilli vanþekkingu. Hins vegar óska ég, að hv. frsm. láti vita, hvers vegna n. stingur undir stól áliti manns, sem lengi hefur við þetta fengizt og vit hefur á þessu. Hann hefur staðið í sambandi við nýbyggingarráð allt árið sem leið, og form. þess hafði mikinn áhuga fyrir því, að þetta gæti gengið fyrir sig. Mér þykir það einkennilegt, ef ókunnugur maður er látinn stöðva málið til frambúðar.