20.02.1947
Sameinað þing: 30. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 32 í D-deild Alþingistíðinda. (4627)

114. mál, Laxá í Suður-Þingeyjarsýslu

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson):

Ég vil vona, að það sé óþarfa ótti hjá hv. flm. þessa máls, að þótt málið yrði afgr. á þennan hátt, sem n. leggur til þá yrði það til tjóns fyrir málið í framtíðinni eða af því yrði mikil töf, því að n. afgreiddi málið ekki með því hugarfari að setja stein í götu þess á nokkurn hátt. En hitt verður hv. flm. að virða nm. til vorkunnar, að þeir töldu sig ekki hafa þá kunnugleika á ánni, að þeir treystu sér til að dæma um hrygningarskilyrði fyrir laxinn fyrir ofan þessi gljúfur. Af afspurn höfðum við glögga lýsingu á Laxá upp að þessum gljúfrum og hrygningarstöðum í ánni á þeirri leið. En um það var ekki hér að ræða. Það, sem máli skiptir, er, hvernig áin er fyrir ofan þessi gljúfur. Virkjunin, sem sett hefur verið í Laxá, breytir á engan hátt laxagöngum til þessa hluta árinnar. Hún hefur ekki verið laxgeng nema upp að þessum fossum. Svo framarlega sem skilyrði eru fyrir laxinn fyrir ofan fossana, þá vill maður stuðla að því að koma þessu í framkvæmd. En ef skilyrðin eru ekki fyrir hendi, er gagnslaust að leggja út í þetta. Það er engan veginn víst, þótt hrygningarstaðir séu fyrir neðan gljúfrin, að þá hljóti þeir einnig að vera fyrir ofan þau. Ágæti vatnsins efast maður ekki um, en hvort þarna er malarbotn og skilyrði fyrir laxinn að tímgast, það þarf að athuga, og á því veltur, hvort leggja skuli út í þessa framkvæmd eða ekki.

Það er ekki rétt af hv. flm. að áfellast þennan unga mann mjög mikið. Ég held hann hafi sagt á fundi hjá n., að hann hefði ekki kunnugleika til þess að geta borið um þetta atriði, en það vildi hann fá að athuga, áður en hann segði nokkuð um, hvort leggja skyldi út í þetta verk eða ekki. Og þetta finnst mér skiljanlegt af hálfu þessa manns. Mér finnst því ekki rétt að áfellast þennan mann. Í þessu áliti segir hann ekki annað en það, að það þurfi að vera fyrir hendi álit um þetta mál, áður en ákvörðun er tekin. Á þessu byggði n. till. sína. Varðandi það atriði í ræðu hv. flm., hvers vegna ekki hefði verið birt álit Ólafs Sigurðssonar á Hellulandi, þá stafar það af því, að það upplýsir ekkert í þessu máli, sem máli skiptir, ekki neitt. Hann víkur ekki að því, sem máli skiptir, fyrir ofan þessi gljúfur, hvort þar eru hrygningarstaðir fyrir laxinn eða ekki. Á því atriði byggist þó framkvæmd þessa verks. Það var ekki af neinni „partísku“ af hálfu n., að þetta bréf var ekki birt. Ólafur lýsir þarna góðum stangarveiðistöðum, en ekki því, sem máli skiptir í þessu sambandi. Varðandi áframhaldandi virkjun þarna, þá er það að segja, að ekki er komið að því máli enn, þar sem enn hefur ekki verið gengið frá því til fullnustu. Ég vona því, að það þurfi ekki að skaða framkvæmd verksins síðar meir. Ég vona, að sá hæstv. ráðh., sem þessi mál heyra undir, sjái líka um það, þar sem þetta hefur þegar komið til orða, ef viss skilyrði væru fyrir hendi, og þar sem bezta veiðiá landsins á í hlut. Í sambandi við virkjanir hefur verið talað um þetta víðar. Ég vona því, að sá hæstv. ráðh., sem hér á hlut að máli, sjái um, að slíkar framkvæmdir sem bygging fiskivega í veiðiám landsins verði ekki hindraðar á nokkurn hátt. Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta mál. Þetta er síður en svo kappsmál af hálfu n., en hún taldi bezt að afgreiða málið á þennan hátt. Ég vona, að sú afgreiðsla þurfi á engan hátt að verða málinu til hindrunar. Og varðandi fjárhagsatriðið þá verð ég að segja, að það væri skemmtilegra, að einhverjar upplýsingar lægju fyrir um það, hvað svona fiskivegur mundi kosta. Vona ég svo, að hv. flm. geti við þessa afgreiðslu unað. Ég hef ekki trú á því, að hún þurfi að hindra málið síðar meir.