18.11.1946
Sameinað þing: 13. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 36 í D-deild Alþingistíðinda. (4635)

75. mál, bætt starfsskilyrði á Alþingi

Flm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. — Þessi þáltill., sem ég flyt hér, ásamt þrem öðrum, fjallar um tvö skyld atriði. Hið fyrra atriðið er um að skora á ríkisstj. að láta framkvæma nauðsynlegar breytingar á alþingishúsinu til að bæta starfsskilyrði þm. og einnig að breyta því fyrir blaðamenn, þannig að þeir gefi hafzt þar sæmilega við. — Svo vildi ég leyfa mér að tala um annað atriðið. Þegar núverandi húsakynni Alþ. risu, voru þau glæsileg og mikil viðbrigði fyrir þm. að flytja úr menntaskólanum hingað í hjarta borgarinnar. En síðan það var, hafa margar breyt. gerzt og miklar breyt. orðið á störfum Alþ. frá því, sem þá var. T.d. hefur þm. fjölgað og störfin orðið umfangsmeiri. Fram til ársins 1911 situr Alþ. eitt í þessu húsi. En það ár tók Háskóli Íslands til starfa, og hafði hann, svo sem kunnugt er, aðsetur hér um nálega 30 ára skeið, eða fram til ársins 1940, er hann fluttist í hin glæsilegu húsakynni sín. Er hann flutti, losnaði allmikið pláss hér í húsinu, og var að því töluverð bót, bæði fyrir þm. og ekki sízt flokkana, er fengu sín flokksher bergi til umráða. En þrátt fyrir þessa miklu bót, sem varð á starfsskilyrðum Alþ. 1940, er nú svo komið, að húsnæðið hér er orðið mikils til of naumt, og þarf ég ekki að nefna mörg dæmi því til sönnunar, hv. þm. er málið of kunnugt til þess. T.d. er það vel kunnugt, að ríkisstj. hefur ekkert sérstakt herbergi, sem hún getur haldið fundi í eða einstakir ráðherrar notað, ef þörf gerist. Þá hefur utanrmn. ekkert sérstakt herbergi, þar sem hún gæti haldið fundi og geymt gögn sín, og enn fremur má benda á það, að ekkert sérstakt herbergi er ætlað þingmönnum til viðræðna við menn, sem þurfa að hitta þá að máli, svo að hv. þm. verða daglega að eiga viðtöl við menn á hlaupum og leita sér hælis í einhverjum kimum í þessu skyni. Síðast en ekki sízt vil ég minna á það, að hér í húsinu er enginn lestrarsalur. þar sem þm. hafa aðgang að nauðsynlegum handbókum og geta sinnt ritstörfum í sambandi við þingstörf sín. Hér sjást engin erlend blöð á lestrarsalnum, sem kallaður er því nafni, en er enginn lestrarsalur. Öllum er ljóst, hversu þetta torveldar störf einstakra þm. og þingnefnda. Þm. þekkja þetta allir, og þarf ég því ekki að fara um það mörgum orðum, hve nauðsynlegt væri að bæta sem bráðast úr þessu.

Í grg. þessarar till. er sú hugmynd sett fram af okkur flm. hennar, og ræði ég hana hér ekki ýtarlega, að þegar lokið er byggingu nýs menntaskólahúss í Reykjavík, sem ekki verður nú í nánustu framtíð, verði gamla menntaskólahúsið tekið til afnota fyrir Alþ. og notað sem afdrep fyrir forseta lýðveldisins. Þótt þessi lausn geti ekki orðið á málinu fyrst um sinn, þar eð það tekur nokkur ár að reisa nýjan menntaskóla, er nauðsynlegt að taka þetta strax til athugunar og undirbúnings, ef að þessu ráði yrði horfið. Að nokkuð athuguðu máli tel ég þetta fyllilega geta komið til greina. Menntaskólahúsið er tengt Alþ. og einhverjum merkasta þættinum í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar. Þar hófu þeir menn upp raust sína, er þjóðin fylgdi fast á eftir í sjálfstæðisbaráttunni á seinni hluta 19. aldar. Ég tel því fyllilega geta komið til greina, að þetta elzta og sögufrægasta hús okkar verði tekið fyrir starfsemi Alþ., er nýr menntaskóli er reistur.

Það, sem ég hef nú rætt, varðar starfsemi og starfsskilyrði þm. hér í húsinu, en nú sný ég að öðrum þættinum, um bætta aðstöðu fyrir blaðamenn, sem starfa hér. Ég þarf ekki að lýsa aðstöðu þeirra. Öllum þm. er kunnugt, að þeir hafa allir afnot af einni lítilli áheyrendastúku, en engan aðgang að síma og ekkert vinnuherbergi. Þessi aðbúnaður torveldar mjög starfsemi þeirra, og ég staðhæfi, að þetta hefur bitnað að vissu leyti á Alþ. sjálfu í lélegri fréttaflutningi af þinginu en ella hefði verið. Í vel flestum þjóðþingum lýðræðisríkja er lögð mikil áherzla á það, að augu og eyru fólksins, blöð og útvarp, hafi sem bezt tækifæri til að fylgjast með því, sem gerist í þingunum. Ég hef sjálfur kynnzt þessu á nokkrum stöðum utan okkar lands og sannfærzt um, að þannig er þetta. Því er lagt til með þessari þál., að ríkisstj. hafi samráð við forseta og samtök blaðamanna um væntanlega breytingu í þessu efni. Ég er sjálfur félagi í Blaðamannafélagi Íslands, eins og fleiri hv. þingmenn, og mér er kunnugt um, að þetta mál hefur oft verið rætt meðal blaðamanna og þeir hafa hug á, að úr þessu fáist bætt, því að þeir finna bezt sjálfir, að á það brestur, að þeir geti sinnt starfi sínu hér sem skyldi. Blaðamennirnir og lesendur blaðanna finna vel, að fréttum frá Alþ. er ekki sýndur sá sómi er skyldi, og það er m.a. að kenna þeim skilyrðum, sem blaðamennirnir verða að vinna hér við. Ég sé svo ekki ástæðu til að orðlengja þetta. Ég vænti, að þetta mál mæti skilningi hjá hv. þm., þeir þekkja gerla þau erfiðu starfsskilyrði, sem þeir búa við sjálfir, auk blaðamannanna. Ég leyfi mér svo að óska þess, að þessari till. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr., ef umr. verður ekki frestað, og til hv. allshn.