18.11.1946
Sameinað þing: 13. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 38 í D-deild Alþingistíðinda. (4636)

75. mál, bætt starfsskilyrði á Alþingi

Skúli Guðmundsson:

Ég vil leyfa mér að segja nokkur orð um þessa till. áður en henni verður vísað til n. Ég vil minna á í þessu sambandi, að í l. frá 1933 er heimild fyrir ríkisstj. til að byggja þingmannabústað eða kaupa hús, sem gert verði að þingmannabústað. Í sömu l. var einnig sett heimild fyrir ríkisstj. til að leysa þetta mál til bráðabirgða með því að taka húsnæði á leigu í þessu skyni, ef það þætti tiltækilegra. Til þess mun hafa verið ætlazt, að þessi bústaður yrði fyrir þá þm. fyrst og fremst, sem búsettir eru utan Reykjavíkur. Þeim fer nú að vísu stöðugt fækkandi, en nokkrir eru þó enn þá, sem ekki eru búsettir hér. Af 52 þm. nú munu 33 eiga heima í Reykjavík og Hafnarfirði, en 19 utan þessara kaupstaða, og það hefur verið allmiklum erfiðleikum bundið fyrir þessa utanbæjarþm. að útvega sér sæmilegt húsnæði hér um þingtímann, og fleiri erfiðleikar verða á vegi þeirra, sem sitja hér á þingi, en eiga hér ekki heima. Hin löngu þing síðari ára valda því ekki sízt, að utanbæjarþm., sem þurfa einnig að sinna störfum sínum heima, eiga æ erfiðara um vik. Nú, ég vil þó ekki gera ráð fyrir því, að á allra næstu árum fari svo, að allir alþm. séu búsettir í Reykjavík. Ég held því, þegar um bætt starfsskilyrði þm. er rætt, að fyrst væri bezt að snúa sér að því að ýta á eftir framkvæmd l. frá 1933, er ég nefndi áðan. Umbótamenn á þessu sviði, eftir ræðu foringja þeirra að dæma, virðast setja markið æði hátt. Hann taldi, að starfsskilyrðin hér væru ekki eins og þau ættu að vera. Ég bendi þó á það, að fyrir fáeinum árum jókst húsnæði Alþ. að miklum mun, er það fékk allt þetta ágæta hús til umráða. Hver flokkur fékk sérstakt herbergi í húsinu sjálfu, og það var mikil umbót. Hv. þm. N-Ísf. taldi ríkisstj. vanta hér herbergi, og jafnvel skildist mér, að hver ráðh. þyrfti sérstakt herbergi fyrir fundarhöld og viðtöl. Nú, þá þyrfti utanrmn., sem hann virðist gera hærra undir höfði en öðrum n., sérstakt herbergi, og einstakir þm. viðtalsherbergi. Það er rétt, að þetta væri allt mjög æskilegt, en ef fullnægja ætti þessum kröfum, sem hann talaði um, þyrftu herbergin að vera jafnmörg þm., eða 52. En þá sýnist mér allt benda til þess, að byggja þyrfti nýtt þinghús margfalt stærra en þetta, ef gera ætti allar þessar umbætur, sem hv. þm. var að telja hér upp. Ég held nú, að starfsskilyrðin mundu batna mjög, ef l. frá 1933 yrðu framkvæmd og komið upp þingmannabústað hér í grenndinni. Þar mundu utanbæjarþm. halda til og þar mætti hafa lestrarsal og skrifstofuherbergi til afnota fyrir þm. Ég geri hins vegar ekki ráð fyrir því, þótt byggt væri nýtt þinghús með fleiri sérstökum herbergjum fyrir þm. en nú eru til, að mikil breyt. yrði á starfsháttum þeirra þm., sem búsettir eru í Reykjavík. Þeir mundu áfram dveljast á heimilum sínum eða skrifstofum og sinna þar viðtölum og öðru varðandi þingstörfin og önnur störf, er þeir hefðu á hendi.

Ég vil því beina því til þeirrar n., er fær mál þetta til meðferðar, að hverfa helzt að því að ýta á eftir framkvæmd l. frá 1933. Ég tel heppilegast í alla staði að taka þann kostinn til úrbóta í þeim efnum, sem hv. flm. ræddi hér áðan.

Ekki lízt mér á það, að gera menntaskólann að nokkurs konar þingseli. Mér lízt illa á það og tel það sízt til bóta.

Þótt það sé rétt, að ytri skilyrði til þingstarfa þurfi að vera góð, þá er það ekki nóg. Fleira kemur til greina, er gæta þarf, það vil ég benda á að síðustu. Það er ekki skemmtileg staðreynd, að forsetar þingsins skuli daglega þurfa að bíða eftir því drykklanga stund, er fundir hafa verið boðaðir með réttum og venjulegum hætti, að nógu margir þm. komi til þess að unnt sé að setja fund. Í dag þurfti t.d. að bíða í 10 mínútur, og er það ekkert nýtt. Ég er í vafa um, að þetta breytist með nýju húsi, en þetta þarf ekki síður að komast í lag en margt annað.