26.02.1947
Sameinað þing: 31. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 40 í D-deild Alþingistíðinda. (4638)

75. mál, bætt starfsskilyrði á Alþingi

Frsm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Allshn. hefur haft þetta mál alllengi til athugunar og rætt það nokkuð ýtarlega. N. hefur orðið sammála um það, að nauðsyn beri til þess, að framkvæmdar verði verulegar umbætur á húsakynnum Alþ., umbætur, sem hníga að því að bæta starfsskilyrði alþm. og annarra þeirra, er þar vinna, og þá fyrst og fremst blaðamanna, sem nú hafa mjög erfiðar aðstæður við störf sín hér í húsakynnum Alþ. N. hefur orðið sammála um að leggja til, að tillgr. verði samþ. óbreytt, með þeim viðauka, sem felst í vatill. á þskj. 120, sem flutt er af hv. 1. þm. Eyf. Ég geri ráð fyrir, að hv. flm. þessarar brtt. muni ræða hana hér, en vil samt fyrir hönd n. minnast lítillega á efni hennar. Hún fjallar um að skora á ríkisstj. að hagnýta sér þá heimild, sem fyrir hendi er í l. til þess að reisa þingmannabústað. En Alþ. hefur tvívegis óskað, að ríkisstj. vildi hefjast handa um byggingu þingmannabústaðar. Það er í fyrsta lagi 1. gr. l. nr. 9 frá 1943, heimild til að reisa hús eða kaupa hús fyrir þingmannabústað. Enn fremur er 2. gr. l. nr. 59 frá 1945, er heimilar lántöku í þessu skyni. Öllum hv. þm. eru kunnir þeir örðugleikar, sem utanbæjarþm. eiga við að búa í húsnæðismálum hér í bænum um þingtímann. Allmargir þeirra hafa á undanförnum árum orðið að búa á Hótel Borg við tiltölulega léleg skilyrði, þó að þetta sé langbezta gistihúsið hér í bænum. Það getur samt sem áður ekki boðið þm. upp á nema lítil herbergi, og þar er tiltölulega erfitt að sinna þeim störfum, sem þm. þurfa að fást við um þingtímann. Þá eru það og mjög misjöfn herbergi, sem þm. hafa orðið að bjargast við úti um bæinn. Og yfirleitt eru starfsskilyrði þeirra þm., sem ekki eiga heima í Reykjavík, mjög erfið um þingtímann. Þess vegna hafa tvívegis verið gerðar samþykktir um það á Alþ. að heimila ríkisstj. að kaupa eða byggja hús, sem gæti verið bústaður fyrir þm., og hins vegar um lántöku í þessu skyni. Og þessa brtt. hv. 1. þm. Eyf. leggur n. til, að hæstv. Alþ. samþykki.

Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þessa brtt. Það var gerð töluverð grein fyrir efni hennar við fyrri hluta umr., og þetta mál er öllum hv. þm. svo ljóst, að það er óþarfi að skýra það frekar. Sú nauðsyn, sem á því er, að starfsskilyrði þm. og blaðamanna verði bætt í Alþ., er svo auðsæ, að ég þarf ekki að draga upp af því gleggri mynd, því að hún blasir við öllum þeim, sem kynna sér aðstæðurnar í þessum efnum. — Ég leyfi mér að vænta þess, að þáltill. þessi verði samþ. með þeirri vatill., sem ég hef gert grein fyrir.