26.02.1947
Sameinað þing: 31. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 42 í D-deild Alþingistíðinda. (4640)

75. mál, bætt starfsskilyrði á Alþingi

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Það er vissulega þörf till., sem hér er talað um, en hún er um það, að taka til athugunar betri aðbúnað þingsins, þm. og þeirra, sem starfa við þingið. Það er réttilega tekið fram, að það þarf betri starfsskilyrði þm. þeirra, sem vinna í þinghúsinu, og blaðamanna.

En þannig er högum háttað, ef við lítum yfir þetta hús, sem Alþ. hefur starfað í, síðan það var byggt, 1881, þá eru takmarkaðir möguleikar til þess að bæta aðbúnað þm., starfsliðs Alþ. og blaðamanna. Eins og þm. er kunnugt, hefur Alþ. allt þetta hús til umráða að undanskildum þrem skrifstofum, sem forseti lýðveldisins hefur til umráða, og lítilli íbúð, sem umsjónarmaður hefur í húsinu. Ég held þess vegna, að þetta þinghús, sem er skemmtileg bygging og á sér sögulegar minningar, verði aldrei betrumbætt þannig, að starfsskilyrði fáist nægilega góð fyrir þm., starfslið þingsins og aðra. Það hefur legið í augum uppi fyrir alla, sem hafa kynnt sér starfshætti löggjafarþinga annars staðar, hve mikið skortir á, að sæmilega sé að þingi og stjórn búið, hvað starfsskilyrði snertir. Hér vantar algerlega herbergi fyrir ráðh., sem eru í hverju þinghúsi, sem vill fullnægja vinnuskilyrðum. Hér vantar herbergi fyrir forseta Alþ., en venja er, að þeir hafi sérstakt herbergi. Hér vantar herbergi fyrir nefndafundi og fleira. Auk þess er aðbúnaður fyrir starfslið Alþ., skrifstofu og starfsmenn alls ekki eins og vera ætti, og mikið skortir á, að blaðamenn, sem við þingið eru og þar eiga að vera og þurfa að vera, geti notið sín. Ég býst þess vegna við, að örðugt sé að bæta úr þessum ágöllum, eins og þinghúsið er nú. Þó að forseti Íslands flytti héðan með sínar skrifstofur, mundi það hvergi nærri vera nóg til þess að fá þann aðbúnað að þm., starfsmönnum og blaðamönnum, sem vera ætti. Ég held, að það þurfi að athuga, hvort á að reyna að breyta alþingishúsinu eða stækka það, ef það er hægt án tjóns fyrir útlitið. Með öðru móti verða starfsskilyrðin ekki bætt, svo að gagni megi koma. Ég tel sjálfsagt, að þetta komi til athugunar, svo og það, hvort reisa mætti viðbótarbyggingu á lóð þeirri, sem ríkið á við alþingislóðina, og að sú bygging gæti verið í sambandi við alþingishúsið.

Ég hef átt kost á að skoða nýjasta þinghús á Norðurlöndum, sem er þinghúsið í Helsingfors, en það þinghús er hið ákjósanlegasta. T.d. geta hverjir 4 þm., sem samkomulag gera um það, haft herbergi fyrir sig til afnota, og þar er fullkominn lessalur og samkomusalur fyrir þm. Að þessu þarf að keppa, þegar möguleikar leyfa.

Þó að ég væri á sínum tíma flm. þessarar till. og sé henni mjög samþykkur, vildi ég minna á eitt, sem kom fram hjá hv. 2. þm. Reykv., og það er spurningin um það, hvort nota ætti menntaskólann sem útibú frá Alþ. Ég er einn af þeim gömlu nemendum menntaskólans, sem vilja, að menntaskólinn sé á þessum stað, sem hann stendur nú. Þess vegna vildi ég reyna að auka og bæta við menntaskólann á þeim stað, sem hann er. Af þessari ástæðu er ég ekki með því, að Alþ. geri menntaskólann að útibúi fyrir sig. Ég hefði fyrir mitt leyti kosið því húsi önnur örlög, þau, að þarna mætti standa Menntaskóli Íslands. Ég vildi þess vegna ekki mæla með því að hnigið væri að því að hugsa um menntaskólann sem útibú fyrir Alþ. Ég vildi heldur, að tekið væri til athugunar, hvort reisa mætti hér í sambandi við þetta hús annað hús, sem tengt væri við alþingishúsið, eða taka til athugunar að reisa nýtt alþingishús, t.d. á svæðinu, sem hugsað er fyrir opinberar byggingar, milli Bankastrætis og menntaskólans. Ég skal ekki segja, hvort hægt er að hækka þetta hús. Upphaflega var húsið hugsað hærra og með háum tröppum, og var útlit þess hugsað allt öðruvísi en það varð. Halldór Kiljan Laxness líkti því við járnbrautarstöð, eins og þær gerast í sveit á Norðurlöndum. Ég skal játa það, að húsið er nokkuð kollhúfulegt — það var danskur húsameistari, sem teiknaði það, en síðan var teikningunni breytt — og að það hefur verið skemmt með því að breyta teikningunni, sérstaklega með því að fella niður tröppurnar, sem áttu að vera upp í húsið, og hefði það orðið miklu glæsilegra, ef fylgt hefði verið teikningu hins danska húsameistara. Ég skal ekki segja, hvort hægt er að stækka þetta hús, t.d. hækka það og auka með því salarkynni Alþ.

Þó að það sé rétt, að verulegar traditionir eru bundnar við þetta hús, frá því það var reist og til þessa dags, þá er það ekki fullnægjandi fyrir Alþingi Íslendinga. Spurningin er því: Á að auka salarkynni Alþ. með því annaðhvort að stækka húsið eða byggja á lóðinni, sem að því liggur, eða á að reisa nýtt og veglegt alþingishús fyrir Alþingi Íslendinga? Þetta álít ég, að eigi að taka til athugunar svo fljótt sem unnt er og úr bætt, eftir því sem möguleikar leyfa, því að ekki er vansalaust, að svo sé búið að Alþ. og starfsliði þess, að hreinustu vandkvæði séu á því að veita mönnum viðtal og hreinustu vandkvæði á að bera saman ráð sín vegna plássleysis, og að stjórnin skuli ekki hafa nokkurt rúm til þess að koma saman og ráða ráðum sínum í sambandi við setu Alþ. Allt þetta skortir, og ég er mjög samþykkur því, að athugun fari fram á því, hvernig megi bæta úr þeim augsýnilegu göllum, sem eru á þessu.

Hitt vil ég taka fram, að ég er ekki þess sinnis, að gera ætti menntaskólann að útibúi Alþ.