26.02.1947
Sameinað þing: 31. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 48 í D-deild Alþingistíðinda. (4643)

75. mál, bætt starfsskilyrði á Alþingi

Frsm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Ég vil aðeins þakka góðar undirtektir, sem þessi till. og brtt. allshn. hafa hlotið hjá þeim hv. þm., sem til máls hafa tekið. Ég vil láta í ljós þá skoðun, að ef þessi till. verður samþ. með vatill. sinni, þá sé ríkisstj. falið að láta fara fram í samráði við forseta þingsins athugun á því, hvernig úr verði bætt starfsskilyrðum þm. og annarra þeirra, sem í alþingishúsinu vinna. Þetta tel ég, að felist í till., eins og hún þá verður orðuð.

Ég er að verulegu leyti sammála hæstv. forsrh. um það, að sú umbót fáist ekki í þessu efni, sem að er stefnt, með öðru en nýbyggingu að meira eða minna leyti. Það má að vísu segja, að það séu möguleikar á því að bæta starfsskilyrði blaðamanna þeirra, sem starfa í alþingishúsinu, án nýbyggingar. Það er mín skoðun. En starfsskilyrði þm. er ekki hægt að bæta til mikilla muna né heldur starfsskilyrði þingsins yfirleitt án þess að kosta til nýbyggingar. Í sambandi við það atriði, nýbyggingu, vil ég svo aðeins drepa á það, að mér sýnist, að með byggingu þingmannabústaðar í nágrenni þingsins væri hægt að komast langt í þessu efni. Í þingmannabústað í nágrenni Alþ. mætti hafa lestrarsal, bókasöfn og veitingasali. Enn fremur kynnu að verða möguleikar á því að afla skrifstofu þingsins þar nokkurs húsnæðis, en þetta er bundið því skilyrði, að slíkt hús væri í námunda við þinghúsið. Það er gert ráð fyrir því, að í nágrenni þinghússins verði nokkur hús rifin niður, hús, sem eru hér á baklóð þingsins, og við það ætti að skapast nokkuð aukið lóðarrými til afnota fyrir þingið sjálft. Ég þarf ekki að fara út í þetta nánar, en ég hygg, að það sé skynsamlegra að reikna með þessari leið en hinu, að það verði byggt við sjálft þinghúsið.

Ég er sammála hv. 2. þm. Reykv. um það, að það sé mjög mikið fyrir það gefandi að halda þeirri tradition, sem alltaf hlýtur að vera tengd við gömul hús. Við Íslendingar eigum lítið af gömlum, sögufrægum byggingum og megum ekki við því að flytja okkur úr þeim og taka þær til nýrra nota að neinu leyti, svo fremi að nokkrir möguleikar séu á því að bjargast við þau. Þess vegna hygg ég, að það sé mjög hæpin leið að reikna með í framtíðinni að byggja nýtt þinghús og þar með bæta úr því, sem á skortir í þessum efnum.

Ég skal ekki fara langt út í að ræða það, sem hæstv. forsrh. og hv. 2. þm. Reykv. hafa nú rætt nokkuð um, hvort við eigum að stefna að því, að Alþ. fái gamla menntaskólahúsið til afnota, en vil segja það sem mína skoðun, að ef menntaskólinn verður fluttur úr því gamla húsi - sögufræga húsi —, þá sýnist ekkert því til fyrirstöðu, að Alþ. eða forseti lýðveldisins taki það til sinna nota. Ég skal ekki leggja fullnaðardóm á það út af fyrir sig, hvort það sé skynsamlegt, að skólinn sé fluttur úr þessum húsakynnum, en ef hann verður fluttur, þá liggur beint við að Alþ., sem var í nánum tengslum við þetta hús um áratuga skeið, taki það til sinna nota og forsetinn fengi þar húsnæði.

Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta mál. Ég vænti þess, að það sé ljóst orðið af þeim umr., sem hér hafa farið fram, og meðferð þessarar till., að Alþ. er nú alvara með það, að snúizt verði að einhverjum framkvæmdum í þessu máli. Hv. 1. þm. Eyf. hefur bent á það, að hér hafi um nokkurt árabil verið fyrir hendi ákveðinn þingvilji, fyrirmæli til ríkisstj. um það að hefja ákveðnar framkvæmdir í þessum efnum, en þessi þingvilji hafi ekki verið framkvæmdur. Nú kemur fram að nýju greinilegur vilji Alþ. í þá átt, að umbætur verði hafnar. Ég vænti þess, að niðurstaðan verði nú sú, að það verði hafizt handa, að starfsskilyrði, ekki aðeins þm. og starfsmanna Alþ. verði bætt, heldur og þeirra blaðamanna, sem hér sinna sínum störfum. Það er tæplega vansalaust, að þjóðin búi þannig að þessum mönnum eins og verið hefur undanfarin ár. Það er óþarfi fyrir alþm. að vera svo lítilláta og fara svo hóglega í sakirnar að þora ekki að viðurkenna fyrir sjálfum sér og þjóðinni, að eins og búið er að löggjafarsamkomunni nú í þessu efni, þá verður ekki sagt, að það sé sæmandi fyrir þjóðina. Um þjóð, sem þannig býr að löggjafarsamkomunni, að þar er mjög erfitt um starfsskilyrði, verður ekki sagt, að hún meti lýðræðið og þingræðið mikils. Ég hygg, að síðan Íslendingar stofnuðu lýðveldið, þá sé sjálfsvitund þjóðarinnar heldur vaxandi og virðing hennar fyrir hinni aldagömlu stofnun hennar, Alþ., raunverulega vaxandi, þó að stundum blási nokkuð á móti og megi þar mistókum Alþ. ef til vill um kenna. Ég hygg, að einmitt í þessu ljósi beri nú Alþ. og ríkisstj. að snúast að framkvæmdum í þessum efnum, en ekki láta sitja við viðurkenningar einar og orðin tóm.