01.11.1946
Sameinað þing: 6. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 50 í D-deild Alþingistíðinda. (4646)

11. mál, alþjóðaflug

Forsrh. (Ólafur Thors):

Eins og segir í aths. við till., voru saman komnir á ráðstefnu þeirri, sem gekk frá þessum samningum, fulltrúar frá 54 þjóðum. Markmið ráðstefnunnar var að ganga frá tilhögun milliríkjaflugs. Fram til þess tíma var ekki til slíkt fyrirkomulag á alheimsmælikvarða. Málum þessum var þannig skipað, að gerður hafði verið milliríkjasamningur eftir fyrri heimsstyrjöldina — Parísarsamningurinn frá 1919 — og höfðu ýmis ríki Evrópu gerzt aðilar að honum. Amerísku lýðveldin höfðu hins vegar gert samning sín á milli — Havanasamninginn frá 1928 —, sem að mestu leyti var byggður á Parísarsamningnum, en of fá þeirra höfðu staðfest hann, til þess að hann bæri tilætlaðan árangur. Engin alþjóðastofnun var því til, sem tryggt gæti heilbrigða þróun á sviði flugmála. Þegar tekið var tillit til hinna stórkostlegu framfara, sem átt höfðu sér stað í flugmálum, þótti þetta ástand algerlega óviðunandi. Hins vegar komu fram afar mismunandi sjónarmið á ráðstefnunni um það, hvernig starfssviði og valdsviði alþjóðastofnunarinnar skyldi hagað. Lengst gengu till. sumra brezku samveldislandanna þess efnis, að komið skyldi á fót alþjóðafyrirtæki, sem beinlínis ræki allan flugrekstur heimsins. En flestir fulltrúarnir á ráðstefnunni voru fylgjandi þeirri stefnu að láta stofnunina hafa fremur lítil völd, og skyldi hún aðallega vera miðstöð þessara mála, hvað snerti eftirlit og upplýsingar. Síðara sjónarmiðið var lagt til grundvallar þeim samningum, sem gengið var frá á ráðstefnunni. Skal þeim samningum nú lýst að nokkru, en þar eð þeir samningar, sem hér skipta máli, fylgja till. í íslenzkri þýðingu, þykir ekki ástæða til að hafa langt mál um þetta efni. Þýðingarmesti samningurinn er samþykktin um alþjóðaflugmál. Í inngangi hennar er bent á, að hún hafi verið gerð í þeim tilgangi, að alþjóðaflugmál megi þróast á öruggan og skipulegan hátt og til milliríkjaloftflutninga megi stofna á grundvelli jafnræðisaðstöðu og reka á heilbrigðum fjárhagsgrundvelli. Samþykktin skiptist í fjóra aðalhluta. Fyrsti hlutinn hefur m.a. ákvæði um full og óskoruð yfirráð hvers ríkis yfir loftrýminu ofan landsvæðis síns (1. gr.), um það, að samþykktin nái ekki til ríkisflugfara (3. gr.), um það, að flugför, sem eigi eru í áætlunarferðum, megi fljúga yfir landsvæði samningaríkjanna og taka þar farþega, flutning eða póst eftir nánari fyrirmælum, sem hvert ríki setur fyrir sitt leyti (5. gr.). Um áætlunarbundinn flugrekstur milli landa gildir það hins vegar, að hann má eigi reka nema leyfi viðkomandi ríkis komi til (6. gr.), en um allan milliríkjaflugrekstur, hvort sem hann er áætlunarbundinn eða ekki, gildir það, að hvert ríki um sig hefur rétt til að neita flugförum annars samningsríkis um leyfi til flugferða innan landsvæðis síns. Enn fremur eru ákvæði um loftferðareglur og flughafnir, þjóðerni flugfara (III. kafli) og ýmsar ráðstafanir til að auðvelda loftsiglingar (22.–28. gr.), svo og skilyrði, sem flugför verða að fullnægja varðandi skjöl og annan útbúnað (29.–36. gr.), og loks um það, að samningsríkin skuldbindi sig til að vinna saman að því að ná sem fyllstu samræmi í skipulagi og framkvæmd flugrekstrar til þess að auðvelda og bæta loftsiglingar (37. gr.). Í því skyni gekk ráðstefnan frá löngum bálki tekniskra reglugerða, sem mælt var með, að notaðar yrðu.

Annar hluti samþykktarinnar hefur ákvæði um Alþjóðaflugmálastofnunina. Markmið þeirrar stofnunar á að vera að stuðla að þróun millilandaflugs. Á þingi stofnunarinnar, sem saman á að koma árlega, eiga sæti fulltrúar allra samningsríkjanna, og í ráði hennar eiga sæti fulltrúar tuttugu og eins ríkis. Enn fremur eru í öðrum hluta samþykktarinnar ákvæði um loftsiglingan., skipaða 12 mönnum, er ráðið kýs. Hlutverk hennar er að gera till. til breyt. á tekniskum reglum í samræmi við þróun og eflingu loftsiglinga (56. og 57. gr.). Enn fremur eru ákvæði um fjármál, og var þar gert ráð fyrir, að ráðið legði fyrir þing stofnunarinnar árlega fjárhagsáætlun. Útgjöldum stofnunarinnar skal skipt meðal samningsríkjanna, enda verður þar um nauðsynlegan kostnað að ræða og honum skipt, eins og venja er til um alþjóðastofnanir, með tilliti til íbúafjölda og annarra aðstæðna.

Þriðji hluti samþykktarinnar er um alþjóðaloftflutninga og hefur að geyma ákvæði um alls konar skýrslur svo og flughafnir og hjálpartæki til loftsiglinga og samvinnu við flugrekstur.

Fjórði hlutinn felur í sér ýmis lokaákvæði um afnám ósamrýmanlegra samninga. Er þar m.a. ákveðið, að þau samningsríki, sem aðilar eru að Parísarsamningnum frá 1919 eða Havanasamningnum frá 1928, skuli segja þeim upp (80. gr.). Enn fremur eru ákvæði um það, að skrásetja skuli alla flugsamninga og þar með reynt að koma í veg fyrir leynisamninga á þessu sviði. Loks eru svo ákvæði um lausn ágreiningsmála, staðfestingu samþykktarinnar, og um það, að segja megi samþykktinni upp með eins árs fyrirvara, þremur árum eftir að hún gengur í gildi.

Samþykktin gengur í gildi, þegar hún hefur verið staðfest af 26 ríkjum. Á flugmálaþinginu í Montreal í maí-júní s.l. kom það í ljós, að hvergi væri nein fyrirstaða á því að staðfesta samþykktina, og var einróma samþykkt, að æskilegt væri, að það yrði gert sem fyrst. Hins vegar þótti eigi gerlegt að láta samþykktina koma til framkvæmda öðruvísi en á fyrir fram ákveðnum tíma. Var því gert ráð fyrir að stöðva móttöku staðfestingarskjalanna, þegar þau fara að nálgast töluna 26, þannig að stofndagur Alþjóðaflugmálastofnunarinnar gæti orðið hinn fyrsti marz 1947. Þangað til gildir því samningur sá, sem staðfestur var fyrir Íslands hönd 4. júní 1945, þ.e.bráðabirgðasamkomulagið um millilandaflug.

Samkomulag varð um það á ráðstefnunni að setja ekki ákvæði í aðalsamninginn, sem leyfðu svo nefndar „frjálsar flugferðir“. Voru í þess stað gerðir tveir sérsamningar um þau atriði. Sá fyrri nefnist Alþjóðasamningur um viðkomuréttindi flugfara. Í fyrstu grein hans segir, að öll samningsríkin veiti hvert öðru eftirtalin flugréttindi í áætlunarbundnum milliríkjaflugrekstri:

1. Réttindi til að fljúga yfir landsvæði þeirra án lendingar.

2. Réttindi til viðkomu án viðskipta.

Þessum samningi má segja upp með eins árs fyrirvara.

Síðari samningurinn, sem nefndur er Alþjóðasamningur um loftflutninga, hefur víðtækari ákvæði en hinn fyrri og veitir réttindi til viðskiptaviðkomu, þ.e. réttindi til að taka og skila farþegum, pósti og vörum. Þau íslenzk stjórnarvöld, sem um þessi mál fjalla, mæla eindregið með því, að fyrri samningurinn verði staðfestur sem fyrst af Íslands hálfu ásamt samþykktinni um alþjóðaflugmál. Hins vegar hafa þau lagt til, að síðari samningurinn verði ekki staðfestur. Er það í samræmi við stefnu annarra þjóða, þar eð samningur þessi var einungis staðfestur af fáum þjóðum, og hafa sumar þeirra þegar sagt honum upp.

Þar sem samningar þeir, sem þáltill. ræðir um, skapa nauðsynlegan grundvöll heilbrigðrar þróunar á sviði loftsiglinga og eru orðaðir af fulltrúum yfirgnæfandi meiri hluta ríkja heimsins, þykir mér ekki ástæða til lengra máls þeim til skýringar, en legg til, að málinu verði vísað til hv. allshn.