26.02.1947
Sameinað þing: 32. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 53 í D-deild Alþingistíðinda. (4653)

181. mál, sumartími

Flm. (Sigurður Guðnason):

Herra forseti. — Þessi till. til þál. um breytingu á sumartíma þarf ekki langra skýringa. Undanfarið hefur verið óánægja, m.a. meðal verkamanna, þar eð þessi breyting á sumartíma með því að flýta klukkunni svo snemma væri nokkurs konar framlenging á skammdeginu. Þeim, sem fara kl. 7 í vinnu á morgnana í björtu, finnst óviðeigandi, að klukkunni sé flýtt svo snemma. Einnig er almenn óánægja meðal skólanemenda. Þeir fara í dimmu í skólann í skammdeginu, og þegar klukkunni er flýtt, halda þeir áfram að fara í myrkri í skólann. Ástæðan til, að þessi till. er flutt, er óánægja hjá verkamönnum og mörgum öðrum með þetta fyrirkomulag, og ég get ekki séð, að nokkur rök mæli með því, að klukkunni sé flýtt svo snemma. Ég vona, að hv. d. taki þessu máli vel.