28.02.1947
Sameinað þing: 33. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 55 í D-deild Alþingistíðinda. (4665)

181. mál, sumartími

Frsm. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. — Viðvíkjandi fyrirspurn hæstv. dómsmrh. vil ég taka það fram, að það kom til tals á fundi n., hvort ekki ætti einnig að breyta hausttímanum frá því, er reglugerðin ákveður, og heyrðist mér það á nm. yfirleitt, að þeir gengju út frá því, að klukkunni yrði seinkað mánuði seinna en verið hefur, ef þessi till. yrði samþ., og það leiddi af sjálfu sér, að reglugerðinni yrði breytt þannig, er hún yrði endurskoðuð. — Varðandi brtt. hv. 2. flm., er hann nú lagði hér fram, um að miða þetta við fyrsta sunnudag aprílmánaðar, þá er það frá mínu sjónarmiði ekkert atriði, hvort þetta er bundið við fyrsta dag mánaðarins eða fyrsta sunnudag hans, en ef það þykir heppilegra fyrir þá menn, sem hafa óskað eftir þessu, að breytingin verði gerð um helgi heldur en í miðri viku, mun ég geta fallizt á þessa brtt. og býst við, að aðrir nm. séu einnig sömu skoðunar.