11.03.1947
Sameinað þing: 35. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 62 í D-deild Alþingistíðinda. (4684)

190. mál, togarakaup fyrir Stykkishólm

Skúli Guðmundsson:

Þm. Barð. drap á það í ræðu sinni, að Viðey hefði nýlega verið klössuð, sem kallað er. Rétt mun það vera, að skipið var lagfært 1945 fyrir um 1 millj. kr. En nú er svo ráð fyrir gert, að skip skuli klössuð á 4 ára fresti. Eftir tvö ár á því Viðey að fara aftur í klössun og má gera ráð fyrir, að viðgerðarkostnaður fari vaxandi, svo að það getur kostað mikla upphæð að lagfæra skipið þá. Þm. sagði, að skipið væri byggt 1925, en það mun vera byggt 1921. (GJ: Það var ekki notað fyrr en 1925.) Þm. sagði, að tilboðið um dieseltogara hefði ekki legið fyrir, þegar um þessi kaup var rætt. Vegna þess finnst mér rétt, að nú sé athugað vandlega, hvort ekki muni heppilegra að kaupa nýtt skip en þennan gamla togara. Þá tel ég nauðsynlegt að athuga, hvort rétt sé að kaupa frekar togara en báta. Mér hefur verið sagt, að það séu ekki fyrir hendi lendingarskilyrði fyrir togara nú í Stykkishólmi, þó að það geti orðið fljótlega. Út af ræðu 2. þm. Reykv., varðandi Landsbankann, má benda á, að það voru lánaðir út úr honum tugir millj. í tíð fyrrv. ríkisstj., en eins og kunnugt er, eru takmörk fyrir því, hvað bankinn getur fest mikið fé.