28.03.1947
Sameinað þing: 41. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 63 í D-deild Alþingistíðinda. (4688)

190. mál, togarakaup fyrir Stykkishólm

Pétur Ottsen:

Eins og hv. frsm. sagði, bar mjög bráðan að um afgreiðslu þessa máls í dag, og stafar það af breyttu viðhorfi til kaupanna og af því, að í ráði er að gefa þinghlé í dag eða á morgun. Ég vil taka það fram, að ég vil ekki leggja dóm á það, er segir í nál. um afstöðu Stykkishólmshrepps eða hlutafélags með meirihlutaþátttöku hreppsins til þess, hvort kaupa skuli eitt af þessum gömlu skipum eða annað nýtt. Hv. frsm. er fagmaður í þessum efnum og hefur því betri skilyrði til að segja um það. Við höfum hér, hv. 5. þm. Reykv. og ég, skrifað undir nál. með fyrirvara, og þessi fyrirvari miðar í aðalatriðum að þeim breyt., sem meiri hl. leggur til, sem sé að binda ábyrgðina því skilyrði, að hreppurinn einn eigi togarann, en ekki hlutafélag, sem hreppurinn væri þó langstærsti aðili í. Við lítum svo á, að það sé harla einkennilegt, að ríkið setji slíkt skilyrði fyrir stuðningi, að það útilokar, að ríkissjóður geti nokkurn tíma notið beinna tekna af fyrirtækinu, því að útgerð bæjarfélaga greiðir ekki skatta til ríkisins, eins og hlutafélög og einstaklingar gera.

Þetta urðum við að gera fyrirvara um, og vorum við ásáttir um að bera fram skrifl. brtt um, að þessi ákvæði till. verði látin standa eins og í upphaflegu till., en sjálfsagt er að breyta henni að öðru leyti til samræmis við það, að lánsvextirnir hafa fengizt lækkaðir um 11/2%, afborganir verða lægri, samningar allir betri og lægri upphæðin, sem ríkissjóður ábyrgist.

Ég les nú þessa skrifl. brtt. okkar, með leyfi hv. forseta, og afhendi honum síðan till. Hún hljóðar þannig:

Alþ. ályktar að heimila ríkisstj. að ábyrgjast fyrir hönd ríkissjóðs lán, allt að 850 þús. kr., sem tekið verður af Stykkishólmshreppi eða hlutafélagi búsettu þar, með þátttöku hreppsins vegna kaupa á togara gegn tryggingu, er ríkissjóður tekur gilda, enda verði lánið greitt með jöfnum afborgunum á næstu fimm árum, og verði vextir af láni þessu eigi hærri en 21/2% — tveir og hálfur af hundraði.“

Okkur flm. þessarar till. finnst það vera mjög varhugavert, eins og ég sagði áðan, að setja það skilyrði fyrir ábyrgð ríkissjóðs, að hreppurinn einn standi að lántökunni, og það því fremur, sem ríkissjóður hefur nú og alltaf ærna þörf fyrir að geta fengið sem mestar tekjur. Frá okkar sjónarmiði er ekkert sérstakt öryggi í því fyrir útgerð þessa skips, þó að hún væri í höndum sveitarfélagsins, fram yfir það, að hún væri í höndum hlutafélags með þátttöku hreppsins, sem stæði að rekstrinum. Má vera, að það væri einhver trygging í því fyrir rekstur slíks bæjarútgerðarfélags að þurfa ekki að gjalda tekju- og eignarskatt, en það er þá að athuga í sambandi við það, að með því að taka stefnu eftir slíku sjónarmiði skapast alveg nýtt viðhorf með þessari löggjöf. Ef útgerðin á þannig að færast úr höndum einstaklinga og félaga og verða skattfrjáls, þá skapast auðvitað það viðhorf að sjá ríkissjóði farborða þrátt fyrir þann tekjumissi, sem slíkt hefði í för með sér fyrir ríkið. Það er vitað mál, að togaraútgerð í höndum einstaklinga hefur gefið ríkinu drjúgar tekjur og gerir það áfram, ef reksturinn gengur sæmilega vel. Þetta viðhorf vildum við hv. 5. þm. Reykv. marka með fyrirvara okkar. Við viljum ekki, að tillgr. verði breytt að þessu leyti frá því, sem hún er nú á þskj. 500. Aðrar breyt., sem fjvn. leggur til, að gerðar verði, eru aðeins afleiðing af breyt. á þeirri upphæð, sem gert er ráð fyrir, að ríkið ábyrgist, og lægri vöxtum, og eru báðar þær breyt. til hagræðis í þessu sambandi.