13.11.1946
Sameinað þing: 11. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 67 í D-deild Alþingistíðinda. (4703)

53. mál, meðferð opinberra mála

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég get verið mjög stuttorður um þetta mál, og nægir að mestu leyti að vísa til grg. Svo sem tekið er fram þar, er enginn heilsteyptur lagabálkur til hér á landi um meðferð opinberra mála. Reglur, sem gilda um það efni, eru á við og dreif í l. og sumpart í gömlum tilskipunum, og ber brýna nauðsyn til þess að samræma þessi ákvæði og endurskoða. Þetta mun ríkisstj. og Alþ. hafa verið ljóst, enda var 1939 skipuð n. þriggja sérfróðra manna til þess að endurskoða þessi ákvæði, og skilaði hún löngu og ýtarlegu frv. um meðferð opinberra mála, sem var tvisvar flutt hér á Alþ., 1939 og 1940, en náði ekki fram að ganga.

Nú er það svo, að ég er persónulega allkunnugur einum flokki opinberra mála, verðlagsmálum og meðferð þeirri, sem þau hafa sætt hjá héraðsdómurum, og er þar skemmst af að segja, að hún hefur orðið viðskiptaráði og verðlagseftirlitinu til trafala, og hefur rekstur þessara mála gengið seint og slælega. Ég skal enga tilraun gera til þess að skera úr um, hvort þessi slælega meðferð á fremur rót sína að rekja til úreltra reglna eða vanrækslu embættismanna, en sannleikurinn er sá, að ástandið hefur verið þannig, að ekki er lengur við unandi. Í skjalasafni verðlagseftirlitsins eru nú kærur fyrir brot, sem eru orðin allt að tveggja ára gömul, en enginn dómur hefur verið upp kveðinn um þrátt fyrir ítrekuð tilmæli verðlagsstjóra og trúnaðarmanna hans. Hér er um að ræða atriði, sem telja verður til hneyksla, og verður ekki lengur við það unað, að ekki séu gerðar einhverjar ráðstafanir til úrbóta. Í grg. hef ég nefnt eitt dæmi, þar sem um það er að ræða, að nokkrir aðilar, hárgreiðslustofur, gerðu á vorinu 1945 nokkurs konar samtök um að hafa að engu gildandi verðlagsákvæði, en selja þjónustu sína dýrar en heimilað var. Leið hálfur mánuður, frá því að kæran var send sakadómara og þar til málið var tekið fyrir, en rannsókn málsins tók 11/2 mánuð. En jafnvel þótt rannsókn væri lokið, var enginn dómur kveðinn upp. Liðu svo liðugir 3 mánuðir, þar til málið var sent í dómsmrn., en það brást vel við og fyrirskipaði þegar í stað málshöfðun, en þrátt fyrir það er enn í dag, þó að meira en ár sé liðið, frá því málshöfðun var fyrirskipuð, enginn dómur upp kveðinn í málinu. Hér er um að ræða svo vítaverða málsmeðferð, að ekki má liggja í þagnargildi. Ég skal, eins og ég sagði áðan, engan dóm á það leggja, hvort það, að hér hefur þurft meira en 11/2 ár til þess að rannsaka og kveða upp dóm í verðlagsmáli, á rót sína að rekja til þess, að reglur, sem um þessi mál gilda, séu óeðlilega flóknar, eða til hins, að slælega sé á málum haldið. Ég bendi aðeins á þetta til þess að vekja athygli á því, að meðferð opinberra mála er nú þann veg farið, að ekki má lengur við svo búið standa og nauðsynlegt er að taka þau mál til rækilegrar meðferðar.

Ég er persónulega þeirrar skoðunar, að ein nauðsynlegasta aðgerðin til úrbóta sé að fela sérstökum embættismanni, opinberum ákæranda, alla ábyrgð á meðferð opinberra mála. En svo vill til, að hin stjórnskipaða nefnd sérfræðinganna frá 1939 var sömu skoðunar. Hún gerði ráð fyrir, að ákæruvaldið væri tekið úr höndum ráðh. og fengið í hendur opinberum ákæranda, og mörg önnur gagnleg ákvæði voru í þessu frv. Hef ég því hér lagt til að skora á ríkisstj. að hlutast til um, að frv. um meðferð opinberra mála verði aftur lagt fyrir Alþ., og má þá um leið endurskoða það að einhverju leyti, ef ástæða þætti til. Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða um málið frekar en gert er í grg.