13.11.1946
Sameinað þing: 11. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 69 í D-deild Alþingistíðinda. (4705)

53. mál, meðferð opinberra mála

Stefán Jóh. Stefánsson:

Þó ég játi það með hæstv. samgmrh., að það sé dálítið óvenjulegt að reynt sé að greiða fyrir framkomnu stjfrv. á þennan hátt, þá vil ég nú eindregið mæla með till. hv. flm., því að það er áreiðanlegt, að það hefur dregizt allt of lengi, að Alþ. hafi tekið til rækilegrar íhugunar það frv., sem samið var á sínum tíma af mþn. um meðferð opinberra mála. Og sannast að segja er það alveg víst og áreiðanlegt, að núgildandi löggjöf um það efni er næsta ófullkomin og úrelt, og málsmeðferð eftir núgildandi löggjöf er þunglamaleg. Það er dómur þeirra réttarfræðinga, sem hallast að nýtízku kenningum í þessum efnum, að löggjöfin sé með öllu óviðeigandi, því að það er svo gagnvart sakborningi, að það er aðeins til ákærandi, en aldrei verjandi, fyrr en allri rannsókn er lokið. Sakadómari er hvort tveggja í senn sækjandi málsins og á síðara stigi dómari. Það þykir nú ekki viðunandi lengur, og er þetta víðast orðið á annan veg, sem sé þann, að þegar í upphafi meðferðar opinbers máls eigi sakborningur þess kost að hafa sér við hlið verjanda til að fylgjast með málinu, og svo er hins vegar annar, sem hefur með höndum gæzlu þess opinbera, ákæruvaldið, opinber ákærandi eða fulltrúi hans. En dómarinn er þá hlutlaus og réttlátur dómari, sem á að framkvæma dómsathöfnina og gera sér grein fyrir því, sem fram kemur, bæði í ákæru- og varnarskyni. Ég vildi þess vegna mjög eindregið mæla með þeirri hugsun, sem felst í till. hv. 4. þm. Reykv., og þótt, eins og ég sagði áðan, það sé óvenjulegt, að mál komi fyrir Alþ. á þennan veg, sem gert er í till., þá er ekkert við það að athuga, því að það er oft talin sterkari aðstaða, að mál sé lagt fram af hálfu ríkisstj. en að það sé flutt af einstökum þm.

Nú skil ég vel afstöðu hæstv. samgmrh., sem um stundarsakir aðeins gegnir störfum dómsmrh. og hefur hvorki aðstöðu né til þess ætlazt, að hann setji sig inn í stærri málefni, sem varða dómsmrn. Ég tel því afstöðu hans eðlilega, að hann vilji ekki taka um það ákvarðanir af sinni hálfu, að frv. þetta verði borið fram sem stjfrv. af hálfu dómsmrh. En ég álít, að það megi eins vel samþykkja till. eins og hún liggur fyrir, þó að þess sé að vænta, að ákvörðun um framkvæmd hennar verði ekki tekin, fyrr en dómsmrh. er kominn heim og tekinn við störfum aftur, eða einhver reglulegur dómsmrh. er tekinn við þeim störfum innan ríkisstj. Ég vil því gera hvort tveggja í senn, mæla með samþykkt till. og eins hitt, að taka undir það með hæstv. samgmrh., að ég tel eðlilegt að draga ákvörðun um þetta, þangað til reglulegur dómsmrh. getur um þetta mál fjallað.