13.11.1946
Sameinað þing: 11. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 70 í D-deild Alþingistíðinda. (4706)

53. mál, meðferð opinberra mála

Garðar Þorsteinsson:

Ég get tekið undir það, að hér sé um nokkuð óvenjulega aðferð að ræða til þess að fá fram stjfrv. í þinginu. Ég tel að það hefði verið eðlilegra að þessi hv. þm. (GÞG), sem á nú innangengt hjá hæstv. dómsmrh., hefði snúið sér til hans beint og óskað eftir því við hann, að þetta frv. yrði flutt, og hefði hann þá getað tekið ákvörðun í stað þess, að Alþ. fari að gera líka ályktun, og það því fremur sem flokksbróðir hans, hv. 5. landsk., var einn af þeim mönnum, sem samdi þetta frv., sem um er að ræða, og sjálfsagt hefur haft sérstaka aðstöðu til þess að ýta undir það, að málið kæmi fram, ef viðkomandi ráðh. teldi rétt, að það kæmi inn á þingið. En ég er ekki sammála hv. 4. þm. Reykv. um það, að tilgangurinn með þessari till. sé sá, að reyna að setja inn í löggjöfina ákvæði, sem annars staðar gilda í meðferð opinberra mála. Það er sérstaklega greinilegt af grg., hver er hinn eiginlegi tilgangur. Hann er sá, eftir því sem ég skil grg., í fyrsta lagi að hraða dómsuppsögn og rannsókn mála, fá dóm fljótt upp kveðinn. Í öðru lagi má skilja það á grg., að hann telji, að ef þetta frv. um meðferð opinberra mála verði samþ., þá mundi refsing þyngjast, eins og sést af því, að hann telur, að viðskiptaráð hafi orðið að taka refsivaldið í sínar hendur, af því að dómarnir hafi verið svo vægir. Hann mundi ekki minnast á þetta, ef hann teldi ekki til úrbóta, að frv. um meðferð opinberra mála yrði samþ. En hv. þm. gætir ekki að því, að þó að frv. um meðferð opinberra mála yrði samþ., þá liggur rannsóknarrétturinn og dómsvaldið hjá sömu mönnum, sakadómaranum í Reykjavík og sýslumönnum úti á landi og bæjarfógetum, eftir sem áður, svoleiðis að breyt., sem verður í sambandi við hinn opinbera ákæranda, er aðeins sú, að ákæruvaldið flyzt frá dómsmrh. til hins opinbera ákæranda, en hinn opinberi ákærandi hefur ekki eftir frv. sjálfu meiri íhlutunarrétt um meðferð mála hjá t.d. bæjarfógetum og sýslumönnum en dómsmrn. hefur nú, svoleiðis að þessu yrði ekki neitt breytt.

Það má deila um það, eins og hv. flm. sagði, hvort sé réttara að hafa ákæruvaldið hjá opinberum ákæranda eða dómsmrh., eins og það má deila um það, hvort kviðdómur skuli dæma í vissum tegundum opinberra mála eða ekki, því að þá er skipaður í hverju opinberu máli bæði sækjandi og verjandi, en þeir hafa ekki sem slíkir nein ráð á því að flýta málinu. Meðferð málsins og dómsuppkvaðning liggur eftir sem áður í höndum sömu manna, svoleiðis að á því yrði engin breyt., og viðskiptaráð stendur jafnmagnþrota gagnvart slíku sleifarlagi eftir sem áður. Ég held því, að þessi ætlan hv. flm. nái ekki marki, auk þess sem grg. er samfelldur reiðilestur yfir dómurum og sleifarlagi á rannsókn mála og yfir því, hvað gangi seint að kveða upp dóma, en það er auðvitað fyrst og fremst dómsmrn. að áfellast það.

Hv. þm. segir svo á einum stað í grg., með leyfi hæstv. forseta: „Yfirleitt hefur tekið óhæfilega langan tíma að kveða upp dómana, auk þess sem þeir hafa venjulega verið svo vægir, að um sáralitla refsingu hefur verið að ræða,“ og hann bætir við: „og varð því viðskiptaráð að taka upp þá reglu að skýra opinberlega frá því, hverjir hlytu slíka dóma. Mun birting á nöfnum hinna seku oft og einatt hafa verið þyngri refsing en sú, sem dómarinn hafði ákveðið.“

Mér kemur það spánskt fyrir, ef það er virkilega svo, að einstaka stofnanir, eins og t.d. viðskiptaráð, eiga að taka í sínar hendur refsivaldið, ef þær eru óánægðar með dómana. Ef dómarnir að áliti viðskiptaráðs eru of vægir, þá eigi að auka refsinguna um allan helming með því að birta nöfn mannanna. Það má deila um það, hvort rétt sé að birta nöfn sakborninga. Það er stundum gert og stundum ekki, en ég hélt ekki, að það væri litið þannig á, að opinber stofnun, sem væri ákærandi, gæti tekið til sín hluta af refsivaldinu með því að birta nöfn manna. Það er þess vegna að þessu leyti hreinn misskilningur hjá hv. flm., ef hann telur, að það yrði einhver breyt. að þessu leyti, þó að frv. um meðferð opinberra mála væri samþ., vegna þess að dómarar eiga að dæma eftir l. Það þyrfti þá að breyta refsiákvæðunum, ef ætti að þyngja dómana, og ég er hræddur um, að viðskiptaráð eftir sem áður tæki í sínar hendur hluta af refsivaldinu með því að birta nöfn manna og það jafnt þó að þetta frv. yrði samþ., vegna þess að á meðan refsiákvæðin eru ekki þyngd, þá eru dómarnir í samræmi við þau.

Ég vildi mælast til, að málinu verði vísað til n., og vænti þess, að hún afgreiði það með rökst. dagskrá.