13.11.1946
Sameinað þing: 11. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 71 í D-deild Alþingistíðinda. (4707)

53. mál, meðferð opinberra mála

Gísli Sveinsson:

Herra forseti. — Það er góðra gjalda vert, að hv. þm. reyna að ýta fram mikilvægum málum, sem seinkað hefur. Af sama toga er spunnið, að þessi till. er flutt hér á Alþ. Hún er flutt af því, að í fyrsta lagi er hv. þm. nýlega orðinn prófessor í laga- og hagfræðideild háskólans, en áhugi hans er auðvitað góður. Í öðru lagi kemur ljóslega fram í grg., að hér er um atriði að ræða, sem sært hefur hv. þm. sem nm. í viðskiptaráði. Ég ætla ekki að dæma um réttmæti rökstuðnings þessarar till. Grg. er út í hött, en getur haft þýðingu sem skýring um nefndarstörf. Hv. þm. mun sjá, að engin bót verður á þessu ráðin, þó að þessi lagabálkur sé samþ. Það verður sami gangur á, þó að hann telji, að sleifarlag sé á dómstólunum nú, því að sleifarlagið er ekki að kenna fyrirkomulaginu, heldur málsmeðferðinni, svo sem að málin eru illa undirbúin eða annað slíkt. Um lagabálk þann, sem lá fyrir Alþingi um meðferð opinberra mála og n. hafði til meðferðar undir forustu Einars Arnórssonar, og fleiri góðir menn voru í þeirri n., þar á meðal sakadómari, sem mjög er deilt á í grg., er það að segja, að ekki er allt komið undir till. og lagasamþykktum. Veigamikil ástæða, sem réð afgreiðslu þessa máls, var sú, að það þótti hlýða, að það gengi til umsagnar héraðsdómaranna og allra, sem hlut áttu að máli. Má segja, að sú leið hafi orðið löng, því að þegar sent var til héraðsdómaranna, voru þeir misjafnlega upplagðir að svara, enda ekki til þess skyldugir og margir ánægðir með frv. Algengt er, þegar ekki berast umsagnir, að krefjast umsagnar eða láta þar við sitja, og er ekki að vænta nýrra umsagna héraðsdómaranna. Aðalröksemd allshn. var, að kostnaður mundi aukast við þetta. Þó gætu menn efazt um, að mikið hefði verið fengizt um, þó að kostnaður hefði aukizt nokkuð. Ég vil, að þetta mál verði tekið góðum og öruggum höndum og eitthvað gert í því, því að þörf er á þessari löggjöf.

Að því er snertir skiptin milli verðlagsmála og dómstóla, þá hafa þau fáu verðlagsmál, sem komið hafa til mín, verið afgr. undireins, þó ef til vill ekki eins og verðlagsráð hefur ætlazt til. Þetta hafa verið lítilfjörleg og vafasöm mál og afgr. vægilega og meira að segja hefur orðið að vísa máli frá vegna þess, að skort hefur rökstuðning til dóms. Náttúrlega hafa komið stærri mál fyrir aðra dómstóla og fengið afgreiðslu. Nú eiga dæmdir menn á hættu að fá nöfn sín birt. Þetta getur verið álitamál stundum, en svo virðist sem viðskiptaráð hafi tekið sér vald til þess, þó að þetta sé verk dómstóla. Ef eitthvert ráð hefur refsivald, þótt ekki sé nema að birta nöfn, þá er það mjög athugavert, hvort það eigi að líðast. Ýmis þessara mála hafa verið mikilsverð, en sum svo hégómleg, að engum hefur sæmt að hafa þau handa á milli. Fyrsta málið kórónaði allt, þar sem kaupfélagsstjórinn á Hornafirði varð fyrir barðinu á verðlagseftirlitinu fyrir tóma vitleysu. Síðan hafa komið fyrir mál, sem hefði mátt taka hart á. Það er ekki eingöngu um að ræða mál kvenfólks, þar sem dómarinn hefur kannske ekki haft hjarta til hinna róttækustu aðfara. Sem sagt, þetta mál ætti að athuga betur.