13.11.1946
Sameinað þing: 11. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 74 í D-deild Alþingistíðinda. (4709)

53. mál, meðferð opinberra mála

Flm. (Gylfi Þ. Gíslason):

Í tilefni af ræðu hv. samgmrh. er mér ljúft að taka fram, að ég verð fúslega við þeim tilmælum hans, að þótt þessi þál. verði samþ., flytji ríkisstj. ekki frv. fyrr en hæstv. dómsmrh. er kominn aftur til landsins. Ég samdi þessa till., meðan hæstv. dómsmrh. var hér á landi, og gat ekkert vitað um það, hvort hún kæmi hér til umr. að honum fjarverandi. En ég get ekki fallizt á þau ummæli hæstv. samgmrh., að meðferð þessa máls sé óvenjuleg. Að gefnu tilefni skal ég taka það fram, að ég talaði oftar en einu sinni um málið við hæstv. dómsmrh. áður en ég flutti þál., og var það upphaflega tilætlun mín að bera fram um það fyrirspurn, en það var einmitt samkv. tilmælum hans, að af því varð ekki og ég bar fram þáltill. Ef hægt er því að segja, að málið sé lagt fyrir með óvenjulegum hætti að einhverju leyti, þá er það engu síður sök ráðh. en mín, en ég tel þó ekki um neina sök að ræða í þessu sambandi. Það er ekkert óvenjulegt við þessa aðferð, þegar um er að ræða frv., er samið var af stjórnskipaðri n. þá dagaði hér upp á sínum tíma. Hv. 2. þm. Eyf. hélt því fram í ræðu sinni, að eðlilegra hefði verið, að ég hefði flutt þetta mál í frv.-formi, en ég er honum ekki sammála um það. Það var undirbúið af ríkisstj. eða af hennar hálfu, og er þetta því eðlilegri leið en að einhverjir þingmenn færu að taka málið upp og bera það fram sem frv., enda var hv. dómsmrh. mér sammála um þetta. Hv. 5. landsk. tók undir það í sinni ræðu, að málið kæmi nokkuð óeðlilega fyrir þingið, en þar eð honum var kunnugt um till., áður en hún var lögð fram, hefði mér þótt vænna um, að hann hefði komið með þær ábendingar sínar fyrr en nú. Ég hefði vitanlega tekið það til greina, ef mér hefði verið bent á, að málsmeðferðin væri ómöguleg og gild rök færð fyrir því, þar eð ég vil að sjálfsögðu í öllu fylgja ríkjandi þingvenjum. En eins og ég hef áður sagt, taldi ég og tel ekkert óvenjulegt við till.

Mér er það vel ljóst, að ekki væri ráðin bót á öllum ágöllum í meðferð opinberra mála, þótt þessi þál. næði samþykki og síðan frv. það, er hún fjallar um. Það ríkir mikið ófremdarástand í þeim málum, rekstur þeirra gengur slælega. En ég tel mikla bót að samþykkt þessa frv., og bendi ég þá sérstaklega á kaflann um hinn opinbera ákæranda, sem vafalaust mun verða til þess að bæta meðferð mála og hraða rekstri þeirra, svo að þau ummæli hv. 2. þm. Eyf., að frv. hafi ekki í för með sér neina breyt. á því, sem aflaga fer, hafa ekki við nein rök að styðjast. Hitt er mér ljóst, að frv. er aðeins einn liður í bráðnauðsynlegum aðgerðum, sem framkvæma þarf. Frv. breytir t.d. ekki refsingum, og í því efni ríkir óviðunandi ástand. Í grg. þessarar þál. er minnzt á hið margumtalaða hárgreiðslukvennamál, og er í þessu sambandi vert að geta þess, að nú hefur heyrzt, að til standi að gera réttarsætt í því máli, þar sem ákærðar hárgreiðslukonur greiði aðeins 700 króna sekt og ólögmætur hagnaður sé ekki gerður upptækur. Annað dæmi: Um daginn var maður nokkur hér í bænum dæmdur í sjötta sinn fyrir brot á verðlagslöggjöfinni. Hann hlaut 500 kr. sekt, auk þess sem ólögmætur hagnaður var gerður upptækur. Þessar refsingar eru svo vægar, að ég tel síður en svo ástæðu til að þegja um það.

Hv. þm. V-Sk. taldi það vafasamt, að viðskiptaráð hefði heimild til að birta nöfn manna í sambandi við verðlagsbrot. Ég furða mig á þeim ummælum þessa ágæta lögfræðings, að opinber stofnun, sem kærir fyrir brot á lögum, sem hún á að hafa eftirlit með, að séu haldin, hafi ekki leyfi til að skýra frá gangi mála og dómsniðurstöðum. Varðandi sleifarlagið á rekstri verðlagsbrotamála deildi ég ekki á alla dómara. Þeir eiga hér ekki allir óskipt mál, enda tek ég það fram í grg. þessarar till. Og mér er ánægja að taka það fram um hv. þm. V-Sk, sem jafnframt er héraðsdómari, að í þessu sambandi hefur aldrei þurft undan honum að kvarta. Öll slík mál, sem hann hefur fengið til meðferðar, hafa verið rekin mjög röggsamlega, fljótt og vel.

Ég er þeirrar skoðunar, að hér sé um að ræða mikið nauðsynjamál, og ætla ég, að nægilegt tilefni hafi gefizt til að sýna og sanna, að breytinga er þörf. Sannleikurinn er sá, að þolinmæði viðskiptaráðs er á þrotum vegna seinagangs þessara mála. Mér er vel ljóst, að ekki er allt til lykta leitt, sem aflaga fer í meðferð opinberra mála, þótt frv. það verði samþ., er þessi þál. fjallar um. En ég tel það þýðingarmikinn áfanga til úrbóta, er vekja beri athygli á.