17.04.1947
Sameinað þing: 43. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 83 í D-deild Alþingistíðinda. (4724)

53. mál, meðferð opinberra mála

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég hef því miður ekki átt kost á að fylgjast með umr. um mál þetta. Út af brtt. hv. n. sýnist mér þörf á að hafa tvær umr. um málið, því að í þáltill. er ætlazt til, að um fjárframlög úr ríkissjóði sé að ræða, a.m.k. get ég ekki skýrt hana á annan veg, þar eð segir í henni að ríkisstj. „sé heimilt að kveðja sér til aðstoðar sérfróða menn í þessum efnum, ef nauðsyn krefur.“ Það er ástæðulaust að taka þetta fram, nema tilætlunin sé, að útgjöld verði við það úr ríkissjóði, og þá skilst mér, að óhjákvæmilegt sé, að tvær umr. færu fram um málið, og kemur mér í hug, hvort ekki væri eðlilegt, að brtt. þessi væri flutt sem sérstök þáltill. og hv. frsm. léti sér þessa meðferð lynda, því að það er allt annað, hvort réttarfarið er endurskoðað í heild, svo sem ráð er fyrir gert í brtt. allshn., eða hins vegar, að lagt sé til eins og í upphaflegu þáltill., að ríkisstj. leggi fram á Alþ. frv., sem liggur fyrir tilbúið og flm. þáltill. hefði getað flutt sjálfur, og þurfti hann ekki að skora á ríkisstj. um leið. Annars verð ég að segja það, að efni till. er aðallega ásökun á fyrrverandi sakadómara í Reykjavík, fremur en það varði endurskoðun á réttarfarinu í heild. Ég efast ekki um það, að það sé rétt, sem hv. tillögumaður segir um þau tilfelli, sem hann tilfærir hér, en þar er um að ræða ákærur og ásakanir á sakadómara, og menn geta gert sig seka um vanrækslu í starfi án tillits til þess, hvaða löggjöf gildir á hverjum tíma. Þess vegna skiptir sá rökstuðningur ekki miklu máli í þessu sambandi — ekki frekar en hitt, að hæstiréttur hefur, svo sem kunnugt er, t.d. sett ofan í við verðlagseftirlitið fyrir að hafa dregið óhæfilega lengi að kæra brot, sem því var kunnugt um. Sú áminning gerir það út af fyrir sig ekki nauðsynlegt, að það þurfi að setja ný l. um verðlagseftirlit, þótt ástæða kynni að vera fyrir því að öðru leyti, heldur gæti þessi áminning hæstaréttar gefið til kynna, að athuga þurfi frekar, hverjir innan núverandi verðlagseftirlits bæru ábyrgð á þeirri vanrækslu, sem hæstiréttur þannig bendir á, að hafi átt sér stað.

En þó að það sé nú þannig, að þessi upphaflega þáltill. sé að formi og efni ákaflega einkennileg og rökstuðningurinn fyrir henni eigi að verulegu leyti við annað en það, sem þáltill. fjallar um, þá er það mála sannast, að brýn nauðsyn sé á því að endurskoða löggjöfina um meðferð opinberra mála hér á landi, og eins og fram hefur komið, var undirbúningur frv. frá 1939 alls ekki eins fullkominn og fróðir menn töldu þörf á. Þess vegna náði frv. ekki fram að ganga, og menn verða að gera sér ljóst, að þörf er á margvíslegri endurskoðun í þessum efnum. Og eitt er það, sem menn hafa fest sig við, en það er, að þörf sé á opinberum saksóknara, og þyrfti þá að búa vel um embætti hans og gera áætlanir um starf hans og verksvið, og þarf þá að gæta þess, sem menn hafa stundum viljað gleyma að nokkru, að sumar af þeim ákvörðunum, sem hinn opinberi saksóknari þarf að gera, eru pólitískar í eðli sínu, og þess vegna hæpið að leggja á herðar ópólitískum starfsmanni að standa undir þeim málum. Ég hygg, að víðast hvar sé nú ákæruvaldið á einhvern hátt tengt hinu pólitíska valdi, þó að það sé ekki í alla staði heppilegt að hafa það jafntengt því og verið hefur hér á landi.

Réttarfarsreglur hér eru ákaflega úreltar í einu og öllu. Á sama hátt er það, að um starf dómara er engan veginn svo búið, að hæfi í réttarfarsríki, þar sem sami maður er látinn fara með rannsóknir mála að öllu og síðan látinn kveða upp dóma yfir árangri rannsókna sinna, þannig að hann í raun og veru kemur fram sem ákærandi, og síðan á hann á síðasta stigi málsins að breyta sér í hlutlausan dómara. Ég segi ekki, að þetta hafi oft komið að sök, þó að stundum hafi það orðið. En þessi umbúnaður dómsvaldsins er með öllu ótækur. Nú tíðkast hér að elta menn með málssóknum stig af stigi innan dómsstiganna, þar sem það er svo víða annars staðar, þar sem réttarfarið er þroskaðra en hjá okkur, að ef maður er sýknaður í fyrsta skipti, þá er ekki hægt að áfrýja sýknunardóminum, vegna þess að þá þykir svo mikill vafi á sekt mannsins, að ekki taki því að halda málinu áfram. Ég tel, að við endurskoðun réttarfarslaganna eigi það að koma mjög til álita. hvort heimilt ætti að vera að áfrýja sýknudómi. Í sambandi við það, sem ég sagði áðan, kemur það til álita, að hve miklu leyti eigi að halda sömu dómaskipun og nú er. Ég held, að það komi fram í nál., að það sé minni ástæða nú að búa tryggilega um lægsta dómstigið en áður var, vegna þess að fleiri dómarar eru nú í hæstarétti en áður. Ég hygg hér um algerðan misskilning að ræða, því að það er sízt ástæða til þess að búa lakar um lægsta dómstigið, þó að það séu fimm dómarar í hæstarétti í stað þriggja. Það sem mestu máli skiptir er að fá aðskilið starf saksóknara frá dómsvaldinu, þannig að það sé tryggt, að það sé hlutlaus dómari, sem dóminn kveður upp að lokum, og það gæti því mjög vel komið til greina að færa saman dómsvaldið í þessum efnum, þannig að hver sýslumaður eða lögreglustjóri úti um land hefði ekki dómsvald, heldur væru fáeinir dómstólar settir upp eftir atvikum. sem ferðuðust um landið og gætu kveðið upp dóma sína, svipað því og t.d. er í Englandi og svipað því, sem að nokkru leyti er ráðgert nú í frv., sem liggur fyrir hér á Alþ. Allt þetta, og miklu fleira, eru atriði, sem athuga þarf á miklu víðtækari grundvelli en gert er ráð fyrir í gamla frv., sem talað er um í þáltill. Menn verða að gera sér grein fyrir því, að ef á að vinna þetta verk eins og nauðsyn er á, þá þarf til þess töluverðan tíma og kostnað. Verkið, sem unnið var til undirbúnings frv. frá 1939 — þótt það sé góðra gjalda vert og geti komið að gagni í því, sem síðar verður gert —, er ekki þannig gert, að það komi í raun og veru að gagni sem lokaniðurstaða nú um breyt. á þessum l. Ég hygg, að koma þurfi til greina fjárveitingarheimild, ef á að undirbúa frv. um þetta atriði.

Ég vildi benda á, hvort ekki væri eðlilegt að hafa tvær umr. um málið vegna þess kostnaðar, sem af því kann að leiða.