17.04.1947
Sameinað þing: 43. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 91 í D-deild Alþingistíðinda. (4732)

53. mál, meðferð opinberra mála

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Mér virðist hæstv. dómsmrh. vera fremur skilningssljór á málið, og hlýtur því einhver annar maður að fara um málið en lögfræðingurinn í honum. Átti verðlagseftirlitið að kæra téð firma, þegar því barst þessi reikningur? Ég er á þeirri skoðun, að það gat ekki kært, því að kæran hlaut að byggjast á því, að umboðsmaður firmans í Ameríku heyrði undir íslenzk l., en fyrirtækið hélt því fram, að svo væri ekki. Verðlagseftirlitið gat því ekki annað gert en að prófa gögn varðandi málið, og hefði það verið hvatvísi að kæra, áður en rannsókn var gerð. Hins vegar tók rannsókn á því, hvort íslenzk l. næðu yfir umboðsmanninn fyrir vestan, langan tíma, vegna þess að verðlagseftirlitið þurfti að fá aðstoð frá Ameríku, en strax og þær upplýsingar komu og viðskiptaráð taldi þetta heyra undir íslenzk l., var hafizt handa. Og það vænti ég, að hæstv. dómsmrh. skilji, að það er það, sem hæstiréttur á við, þegar sektin er lækkuð, miðað við, að játning þessa fyrirtækis er gefin langfyrst.