17.04.1947
Sameinað þing: 43. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 92 í D-deild Alþingistíðinda. (4733)

53. mál, meðferð opinberra mála

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Út af ræðu hv. þm. Ísaf. vildi ég segja það, að hann var ekki að svara mér, því að ég hef ekki borið neinar ásakanir á dómsmrn. í þessum svo kölluðu heildsalamálum. Hv. þm. Ísaf. færði sönnur á, að hv. 4. þm. Reykv. hefði sagt of mikið og ekki farið með rétt mál. Varðandi skilning á dómi hæstaréttar verður að ætla, að ég, sem snerti ekki þetta mál persónulega, en hef kynnt mér það stöðu minnar vegna, hafi ekki minni skilning á því en hv. 4. þm. Reykv., sem er einn af sakborningum. En það er eðlilegt, að hv. þm. kunni því illa að sitja á bekk ákærðra. En hæstiréttur hefur talið ástæðu til þess að bera kæru á hendur hv. þm. og samstarfsmönnum hans í verðlagseftirlitinu, og ég hef talið það skyldu mína að láta athugun fara fram á þessu máli. Ég vona, að ekkert refsivert komi fram við þessa athugun, þó að því verði ekki neitað, að verðlagseftirlitið hefur gert sig sekt um freklega vanrækslu, og verða menn að athuga, hvort þeir trúi betur hæstarétti eða hv. 4. þm. Reykv., sem stendur svo illa á fyrir, að hann situr sjálfur á bekk ákærðra.