05.05.1947
Sameinað þing: 50. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 102 í D-deild Alþingistíðinda. (4756)

171. mál, eftirlit með verksmiðjum og vélum

Frsm. (Sigfús Sigurhjartarson):

Herra forseti. Mér þóttu mjög athyglisverðar þær upplýsingar, sem hv. þm. Barð. hefur nú gefið um störf þess manns, sem hefur einkum með höndum framkvæmd l. um eftirlit með verksmiðjum og vélum. Ég hef enga ástæðu til að véfengja þessar upplýsingar hv. þm. Ég veit, að hann er þessum málum kunnugur. En séu upplýsingarnar réttar, sýnist mér, að ríkisstj. bæri fremur að setja rannsókn á störf þessa manns en að fá honum það starf að undirbúa endurskoðun þessara l. Ég vil ekki fyrir hönd allshn. taka á mig að leggja til að stöðva málið, því að mér sýnist einsætt, að hæstv. ríkisstj. geti gert og henni í raun og veru beri að gera ráðstafanir til þess, að hann geti haft samráð við verkalýðssamtökin og samtök vinnuveitenda um þessa endurskoðun. Og ég vildi beina þeirri fyrirspurn til hæstv. félmrh., sem ég geri ráð fyrir, að fjalli um þessi mál, eða hæstv. samgmrh. — það er víst hvorugur þeirra viðstaddur hér —, en ég geri ráð fyrir, að ef þeir hæstv. ráðh. væru viðstaddir, vildu þeir láta í ljós álit sitt um það, hvernig þeir hygðust að framkvæma þáltill., ef samþ. væri, þannig að svo gæti farið, að hv. þm. Barð. gæti fallizt á, að þáltill. væri samþ. eins og allshn. leggur til á þskj. 735. Ég vil spyrja hæstv. ráðh., hvort honum finnist ekki eðlilegast að framkvæma till. á þann hátt að hafa samvinnu milli verkamanna og verksmiðjueigenda um endurskoðunina. Ég spyr um þetta í tilefni af því, að hv. þm. Barð. fannst till. ekki nógu vel úr garði gerð, þar sem ekki væri ákveðin nefndarskipun til að framkvæma endurskoðunina. N. leit svo á, að nefndarskipun væri óþörf, því að hæstv. stjórn mundi leita álits þeirra aðila, sem framkvæmd þessara l. varðar mestu.