05.05.1947
Sameinað þing: 50. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 106 í D-deild Alþingistíðinda. (4761)

171. mál, eftirlit með verksmiðjum og vélum

Hallgrímur Benediktsson:

Herra forseti. — Ég vil í sambandi við þetta mál láta þess getið eftir að hafa hlustað á umr., að ég get ekki annað séð en það sé happasælast að skipa n. einmitt frá þessum aðilum til að rannsaka þetta mál. Hv. þm. V-Húnv. minntist á í sambandi við brtt. hv. þm. Barð., að S.Í.S. væri ekki í Vinnuveitendafélagi Íslands, en eðlilegt væri, að það mætti koma hér til greina ásamt vinnuveitendafélaginu og alþýðusambandinu. En það er svo, að þetta eru þeir aðilar, sem hafa aðallega forgöngu í samningsmálum og kaupgjaldsmálum, og þó að allir atvinnurekendur séu ekki í Vinnuveitendafélagi Íslands, þá hygg ég samt, að viðhorf þeirra flestra sé á líkan veg og þeirra atvinnurekenda, sem eru í samvinnufélögunum. Ég harma mjög mikið, að samvinnufélögin hafa talið betra fyrir sig að standa fyrir utan þessi samtök vinnuveitendanna í landinu. En það, sem ég vildi. sérstaklega segja í þessu sambandi, er að lýsa afstöðu minni, að ég álít, að brtt. á þskj. 745 eigi fullan rétt á sér og eftir þeim undirtektum, sem málið hefur fengið, eigi að samþykkja hana, og ég tel óhikað, að farsælast sé að afgreiða málið á þann hátt, þó að ég hins vegar telji, að hv. þm. Barð. hafi haft um málið óþarflega sterk orð, því að eins og hæstv. samgmrh. tók fram, hefur þessi maður verið störfum hlaðinn, og því fremur álít ég, að þurfi að afgreiða málið eins og ráð er fyrir gert á þskj. 745, því að þá er málið eiginlega afgr. nákvæmlega eins og hv. flm. hefur flutt það, nema hann hefur tilnefnt Félag íslenzkra iðnrekenda sem annan aðila þessa máls, en eins og fram hefur verið tekið, þá er lagt til í till., að það sé félag íslenzkra atvinnurekenda.

Ég vildi aðeins lýsa afstöðu minni til málsins með þessum fáu orðum.