05.12.1946
Sameinað þing: 15. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 113 í D-deild Alþingistíðinda. (4795)

97. mál, Fljótaárvirkjun

Flm. (Áki Jakobsson):

Herra forseti. Ég flyt hér á þskj. 167 till. til þál. um að heimila ríkisstj. að veita Fljótaárvirkjuninni eða Siglufjarðarkaupstað bráðabirgðalán til að standast rekstrarhalla Fljótaárvirkjunarinnar fram til næstu áramóta. Með till. eru prentuð sem fskj. skjöl, sem skýra þetta mál að nokkru leyti fyrir hv. þm. Í fyrsta lagi bréf bæjarstjórans á Siglufirði, sem ritað er til samgmrn. Þá er enn fremur álitsgerð verkfræðinganna Finnboga Rúts Þorvaldssonar og Árna Daníelssonar um ásigkomulag virkjunarinnar þarna. Og loks er rökstutt álit rafmagnseftirlits ríkisins til samgmrn.

Það kom fyrst til mála að veita þetta lán án þess að fá heimild Alþ. fyrir því, vegna þess að nauðsyn væri á að hraða því, þar sem sakir standa svo, að tekjuhalli er allmikill á þessu mannvirki. En tekjum rafveitunnar hefur verið varið til þess að borga stofnlán, sem ríkissjóður er í ábyrga fyrir. Hins vegar er gengið svo nærri tekjum rafveitunnar, að hún á erfitt með að borga vinnulaun til fasts starfsfólks og sérstaklega verkamanna, sem unnið hafa að því að lagfæra þrýstivatnsstífluna, vegna þess að hún hefur verið sett, eftir því sem verkfræðingar telja, á óheppilegum stað, og telja þeir, að þess vegna sé hún ekki örugg. Sé ég ekki ástæðu til að orðlengja þetta mikið. Hér fylgja með till. allmiklar upplýsingar, eins og hv. þm. sjá.

Leyfi ég mér að leggja til við hæstv. forseta, að þessari umr. verði frestað og málinu vísað til hv. fjvn. til frekari athugunar, til þess að síður þurfi að verða deilur um málið. Það hefur oft verið gert við svona mál, þó að um fyrri umr. sé að ræða af tveimur umr., að vísa málinu þannig til n.