23.05.1947
Sameinað þing: 58. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 114 í D-deild Alþingistíðinda. (4798)

97. mál, Fljótaárvirkjun

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Þetta mál, var flutt snemma á þinginu, en vegna upplýsinga, sem n. varð að afla sér, gat hún ekki gengið frá því, fyrr en þær lágu fyrir. Það er nú ljóst af þeim upplýsingum, sem fyrir liggja, að allur kostnaður við virkjunina er nú orðinn rúmlega 14 millj. kr. samkv. skýrslum verkfræðinga, en þá e, með talið gamla rafmagnsstöðin og bæjarkerfið, sem metið er á 850–900 þús. kr., og ýmislegt fleira, t.d. 1250 þús. kr., sem farið hafa í vaxtagreiðslur og annan lánskostnað og miðlunarkostnað. Siglufjarðarkaupstaður hefur alls tekið 12,1 millj. kr. lán til að greiða virkjunarkostnaðinn, og var ríkissjóður ábyrgur fyrir 111/2 millj. kr. af þeirri upphæð, og eru það 25 ára lán með 4–4 1/2% vöxtum. Ríkisábyrgðin nemur því 82% af heildarkostnaðinum, og er þá reiknað með gamla bæjarkerfinu, en auk þess eru ógreiddar skuldir, 182 þús. kr. til verksala og 92 þús. kr. skuld við sendiráð Íslands í Washington, eða samtals 274 þús. kr. skuld, sem ríkissjóður er talinn standa í ábyrgð fyrir, og má því segja, að ábyrgðarheimildin sé fullnotuð. Með l. nr. 35 frá 1943 var ríkisstj. heimilað að ábyrgjast fyrir hönd ríkissjóðs 6 millj. kr. lán til Fljótaárvirkjunarinnar upp í stofnkostnað, og með þál. frá 1944 var þessi ábyrgð hækkuð um tvær millj. og enn um 5 millj. kr. með þál. frá því í marz 1945, en það eru samtals 13 millj. kr. Þegar þessi ábyrgð var veitt, var jafnframt sett það skilyrði, að ábyrgðarupphæðin færi eigi fram úr 85% af heildarkostnaði eða stofnkostnaði orkuversins sjálfs með háspennulínum og spennubreyti, og var þá ekki reiknað með dreifingu rafmagnsins um bæinn. En með raforkul. frá 1946 er hins vegar heimilað að miða ríkisábyrgðina við 8.5% af heildarkostnaði, þar með talið bæjarkerfið, og sú ábyrgð hefur verið veitt í þessu tilfelli.

Það hefur einnig upplýstst af þeim skjölum, sem fyrir liggja, að byggingu orkuversins er enn eigi lokið. Í fyrsta lagi er enn eftir að kaupa og setja upp aðra samstæðu til þess að fullnota orkuna með vatnsmiðlun, og er ekki gert ráð fyrir, að það verði gert fyrr en 1949 eða 1950, og í öðru lagi er eftir að ganga frá ýmsum endurbótum á vatnspípu og stíflu. Það hafa komið í ljós svo mikil mistök í byggingu orkuversins, að aðalvatnspípan frá stíflunni að orkuverinu þarf stórkostlega aðgerð og helzt þyrfti að flytja hana yfir um ána. Ekki er enn vitað, hve miklu þarf að kosta til að koma þessu í lag, en Siglufjarðarbær gerði kröfu á hendur verksala, tvær millj. kr., til greiðslu kostnaðar við þetta verk. Verksali var í gerðardómi sýknaður af kröfunni og fékk öllum varakröfum og þrautavarakröfum hrundið, en ganga má út frá, að tvær millj. kr. hafi verið það minnsta, sem Siglufjarðarbær telur hægt að komast af með til að ljúka þessum framkvæmdum.

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um þann viðbótarstofnkostnað, sem kann að verða og kemur þá til með að heyra undir ákvæði raforkul. um 85% ríkisábyrgð af heildarkostnaði. Hér liggur aðeins fyrir, hvort Alþ. vill heimila fjmrh. að lána Siglufjarðarkaupstað hálfa millj. til að standast rekstrarhalla þann, sem er á virkjuninni. N. hefur reynt að komast að raun um, hvort þetta væri þá nægilegt fé, ef til kæmi, og eftir því sem henni hefur verið tjáð, er rekstrarhalli orkuversins og bæjarrafveitunnar, sem ekki hafa aðskilinn fjárhag, áætlaður 450 þús. kr. árið 1946, 276 þús. 1947, 161 þús. árið 1948, og 39 þús. 1949, en það eru samtals 926 þús. kr. Vextir og afborganir af nýju láni vegna rekstrarhalla til ársins 1949, ef orkuverið á ekki að stöðvast, er áætlað 286 þús. kr., og verður þetta þá samtals 1.212 þús. kr. Vegna þess að þetta er til eftirbreytni um raforkumál héraðanna, þá upplýsti n. þetta. Í rakorkul. er svo ákveðið, að héraðsrafveitur ríkisins skuli fá lán, þegar gert er ráð fyrir halla fyrstu árin, og í fjárl. nú er gert ráð fyrir að greiða töluverða upphæð, og á að endurgreiða hana á vissum tíma. Það þykir nauðsynlegt að hjálpa yfir þessa örðugleika. Í þessu sambandi vildi ég leyfa mér að benda á, að ef þessi braut er farin, þá er fullkomin nauðsyn á því að eftirlit sé haft með, að annars vegar verði rekstrartap ekki meira en nauðsyn krefur og hins vegar, að féð verði ekki notað nema til greiðslu á hallanum. Þá er það upplýst, að meginástæðan fyrir því, að sóknaraðili hefur tapað fyrir gerðardómi, er vondur frágangur á samningum, og virðist sem ríkisstj. hafi ekki skeytt að hafa umboðsmenn frá sinni hálfu. Samningurinn, sem hv. þm. geta kynnt sér, ber það með sér, að hann er ekki undirritaður af neinum aðila frá ríkisstj., og er hin mesta vangá að hér skuli deiluatriði fara aðeins um eitt dómstig, þegar dæma á um milljónaatriði eins og í þessu máli. Þetta er athugandi fyrir hæstv. ríkisstj., ef hún ætlar að ábyrgjast 85% af stofnkostnaðinum. Þegar rætt var um þál. 1945, þá bar ég fram brtt. þess efnis, að settir yrðu eftirlitsmenn. Þetta var drepið, og nú fær ríkið að taka á sig óþarfa byrði vegna vanrækslu.

N. hefur lagt til, að í stað þess að lána 500 þús. kr. sé till. breytt í, að ríkisstj. sé heimilað að ábyrgjast allt að 1 millj. kr. lán, enda sé trygging fyrir því, að rafmagnseftirlitið athugi, hvernig lánið er notað, og að ekki sé greitt meira en 85% af hallanum við mannvirkið. Þá vil ég líka leyfa mér að benda á, að n. ætlast til, að ríkisstj. hafi aðskilnað á milli orkuvers annars vegar og rafveitu Siglufjarðar hins vegar. Nál. hefur verið undirritað af öllum nm. fyrirvaralaust, en hv. þm. Siglf. hefur borið fram brtt., því að hann telur, að fjárins sé þörf strax og þurfi því að bregða við fljótt. Það er ljóst, að það er eitt af verkefnum fjárhagsráðs að taka til athugunar, hvernig reisa eigi svo fjárfrek fyrirtæki, þar sem ríkið ábyrgist 85% af tilkostnaðinum.