16.05.1947
Sameinað þing: 53. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 124 í D-deild Alþingistíðinda. (4818)

252. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Herra forseti. Þegar núverandi ríkisstj. kom fyrir Alþ. 5. febrúar s.l., flutti hún hér stefnuyfirlýsingu sína, er samkomulag hafði tekizt um. Það má segja, að í þeirri yfirlýsingu hafi verið markaðir þrír megindrættir. Í fyrsta lagi verndun sjálfstæðis landsins, í öðru lagi trygging lífsöryggis og lífsafkomu almennings og í þriðja lagi áframhald nýsköpunarinnar.

Þegar þessi yfirlýsing hafði verið flutt af hálfu stjórnarinnar, stóð hv. 2. þm. Reykv. upp og lýsti yfir því, að hann og hans flokkur væri andvígur hinni nýju ríkisstj. og mundi síðar bera fram vantraust á hana. Að vísu var mönnum ekki vel skiljanleg þessi yfirlýsing á því stigi málsins, nema flokkur hv. 2. þm. Reykv. væri á þeirri skoðun, að stefnuyfirlýsing stjórnarinnar væri hættuleg fyrir hið íslenzka þjóðfélag. Ég vil nú ætla, að svo hafi ekki verið, heldur hafi það verið ætlun þessa flokks frá upphafi að berjast gegn stjórninni, hvað sem hún gerði og hvernig sem stefna hennar yrði, enda kom bað raunar greinilega í ljós með fyrr nefndri yfirlýsingu kommúnista. Og þetta hefur flokkur þeirra gert eftir mætti, þó að vopnin hafi æði oft snúizt í höndum hans. Þessi stjórn hefur aðeins setið í þrjá mánuði og að sjálfsögðu engu öðru sinnt á því tímabili en að undirbúa frv. í samræmi við stefnuskrá sína og taka þátt í þingstörfum, undirbúa málin og berjast fyrir þeim hér. Það verður ekki annað með sanngirni sagt en að stjórnin hafi á þessum þremur mánuðum lagt þau mál fyrir Alþ., sem algerlega eru í samræmi við þá stefnu, sem boðuð var í upphafi þessa stjórnarsamstarfs. Hitt er svo annað mál, að þessi mál eru ekki ennþá öll orðin að lögum, en þau eru ýmist langt á veg komin, komin fram eða alveg í þann veginn að koma fram. Stjórnin lagði sig fram um að afgreiða fjárl. þessa árs rekstrarhallalaus, eins og hún hafði lofað að gera í stefnuyfirlýsingu sinni, og þetta tókst eftir allharða baráttu. Þá hefur stjórnin lagt fram frv. um fjárhagsráð, sem er búið að vera í Nd. og liggur nú fyrir Ed. Það hefur verið rætt ýtarlega, m.a. við útvarpsumræðu, og þá var útvarp frá eldhúsdegi í tvö kvöld. Frv. um innkaupastofnun ríkisins er komið í gegnum Ed., og lagður hefur verið grundvöllur að ræktunarsjóðslöggjöf, sem ætlunin er að afgreiða á þessu þingi og komin er í gegnum aðra þd. Í Nd. eru á ferðinni frv. um framleiðsluráð landbúnaðarins, þjóðleikhús, og félagsheimili, og frv. um eignakönnun kemur fram allra næstu daga. Ég sé svo ekki, að stjórnin hafi gert annað en henni bar og hún gat á þessum stutta tíma, að búa út frv. og koma þeim hér áleiðis. En það var vitað fyrir, að borin mundi verða hér fram þessi vantrauststillaga, og það hefði verið gert, hvað sem þessi stjórn hefði gert og hvað sem hún hefði látið ógert, af því að þessi flokkur kommúnista er á móti henni án tillits til málefna. Það er aðeins til að tefja dýrmætan þingtíma að eyða mörgum orðum að þessari till. þeirra. Það hefur verið barizt hér á þinginu um málefni stjórnarinnar, og þau hafa verið rædd ýtarlega, og hér er því ekki þörf á löngu máli. Ástæðurnar fyrir vantrausti kommúnista eru kunnar. En ég verð að segja það, eftir að hafa hlustað á ræðu hv. 2. þm. Reykv. og ræður stjórnarandstæðinga yfirleitt að undanförnu, að því meira sem ég hef heyrt af þeim, hefur mér oftar og oftar komið í hug þessi alkunna vísa:

List er það líka og vinna

lítið að tæta upp í minna,

alltaf í þynnra að þynna

þynnkuna allra hinna.

Því að í þessum útþynning þeirra er ekkert nýtt að finna og því minna nýtt, sem lengra líður. Ég sé því ekki ástæðu til að orðlengja frekar um þær ástæður, sem liggja til grundvallar vantraustinu. Við höfum einnig synt fram á það í sambandi við önnur mál, að andstaða kommúnista er hvorki byggð á málefnum né rökum, heldur öðru. Ríkisstj. gerir sér það ljóst, að kommúnistar eru á móti henni, og hún tekur því, en þeir ættu að gæta að því, að mikill meiri hluti þjóðarinnar er á móti þeim.