16.05.1947
Sameinað þing: 53. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 125 í D-deild Alþingistíðinda. (4819)

252. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. — Þegar núverandi ríkisstj. tók við völdum, þá kom það mjög greinilega í ljós, að hún átti litlu fylgi að fagna meðal almennings í landinu. Og henni var ekki aðeins tekið fálega af almenningi, heldur kom það einnig mjög glöggt fram hér á Alþ.,þm. gerðu sér ekki stórmiklar vonir um hana, og mér er nær að halda, að margir þm. hafi talið þessa stjórnarmyndun eins og hvert annað neyðarúrræði, sem þurft hefði að grípa til, vegna þess að ekki hafði náðst samkomulag um annað betra, og hugsað sem svo, að þó að þessi ríkisstj. væri léleg, yrðu menn þó að hafa hana heldur en ekkert.

Þessari stjórn var tekið á allt annan veg en fyrrv. ríkisstj. Fyrrv. ríkisstj. var tekið með fögnuði allra fjöldasamtaka almennings í landinu, verkamanna, sjómanna og útvegsmanna, og þessi samtök lýstu yfir eindregnu fylgi sínu við stefnu hennar. Sú stjórn átti því miklu fylgi að fagna, er hún var mynduð, en við síðustu stjórnarmyndun var þessu á allt annan veg farið. En það sýndi sig þá jafnframt, að þeir menn og þau öfl, sem voru í andstöðu við fyrrv. stjórn og veittust harðast gegn stefnu hennar, urðu þegar aðalmálsvarar núverandi ríkisstj. Vísir, dagblað heildsalanna, skipaði sér þegar fremst í þá fylkingu, og Tíminn, sem alltaf barðist gegn fyrrv. ríkisstj., stillti sér strax sem stuðningsblað þessarar stjórnar. Eins og flestum er kunnugt, sem fylgdust með síðustu stjórnarmyndun, studdu hana og styðja flest þau öfl, sem eru á móti nýsköpun atvinnulífsins og vinnufriði milli verkamanna og vinnuveitenda og samkomulagi þar á milli. Það var verzlunarstéttin og heildsalarnir auk þeirra, sem standa að Sambandi íslenzkra samvinnufélaga, sem stóðu fremst í flokki um það að koma saman núverandi ríkisstj., og þessi öfl voru dyggilega studd af bankavaldinu, sem reyndist fyrrv. ríkisstj. erfiðast viðfangs. En margir voru þó þeirrar skoðunar, þótt þeir vissu, hvernig þessi stjórn var til komin, að rétt væri að láta reynsluna dæma hana, sjá, hvort hún snerist ekki gegn allþýðu manna í landinu, eins og flest rök mæltu þegar með í upphafi. Nú hefur fengizt nokkur reynslutími, þótt hann sé raunar ekki ýkja langur. Hann er þó nægilega langur til þess, að sjá megi, að ríkisstj. hefur í öllum aðalatriðum farið þá götu, sem við sósíalistar og allur almenningur hlaut að búast við strax við tilkomu hennar. Í tíð fyrrv. stjórnar, og reyndar allajafnan áður, hafði það iðulega heyrzt úr öllum áttum, að ekki væri þörf á að kaupa dýru verði það samkomulag, sem fyrrv. stjórn skapaði á milli verkafólks og framleiðenda. Vísir taldi það ganga glæpi næst að kaupa ný framleiðslutæki, áður en lagt væri til atlögu við vinnandi fólk í landinu og kaupið lækkað. Slíkar raddir heyrðust víðar, en fengu ekki að ráða, heldur var þá haldið þeirri meginstefnu að viðhalda samkomulagi verkafólks og framleiðenda. En þegar þessi stjórn tók við, kom fljótt í ljós, að þær raddir, sem alltaf höfðu heyrzt og klifað á því, að aðalvandamál þjóðfélagsins yrði að leysa á kostnað fólksins, voru að verða ráðandi, og nú átti að leysa aðkallandi vandamál á þann hátt að láta alþýðu manna bera byrðarnar, fara hægar og gætilegar í nýsköpunina, eyða ekki miklu fé í kaup á nýjum framleiðslutækjum og mæta hinum þjóðfélagslegu erfiðleikum með því að láta almenning halda uppi þeim aðgerðum, sem ráðizt væri í til að leysa vandann. Í þessu sýnir sig bezt skilningsleysi ýmissa manna á því, hvað hægt er að gera á hverjum tíma. Þessir menn, sem halda, að hægt sé að framkvæma aðgerðir í dýrtíðarmálunum og leysa þau á kostnað almennings, þeir vita ekki um mátt fólksins, þeir hafa lagt til atlögu og stofnað til átaka, en eftir er að reyna, hve samtök alþýðunnar eru sterk og hvernig það gefst að reyna að brjóta þau samtök á bak aftur. Þessi leið hefur verið reynd áður. Ennþá er mönnum í fersku minni, er sömu flokkar og nú eru í stjórnaraðstöðu, samþykktu gerðardómslögin og hvernig þau málalok urðu. Þá var því einnig haldið fram, að hægt væri að leysa vandamálin í fullkomnum fjandskap við samtök alþýðunnar. Og nú er aftur hið sama fyrir dyrum, tilraun til að leysa þessi vandamál einhliða á kostnað hins vinnandi fólks. Þetta er kannske mesti munurinn á stefnu fyrrv. og núverandi ríkisstj. Hin fyrri viðurkenndi þá staðreynd, að alþýðusamtökin og samtök framleiðenda til sjávarins eru svo sterk, að meiri háttar aðgerðir í fjármálum og atvinnumálum verða ekki gerðar né þess háttar vandamál leyst nema með samkomulagi milli þessara höfuðstétta, þetta verður ekki gert með fjandskap og skilningsleysi í garð vinnandi fólks í landinu.

Ríkisstj. hefur vikið sér undan að gera það, sem þurfti, að breyta verzlunarfyrirkomulaginu og koma í veg fyrir okur og brask, en þegar athugað er, hverjir að núverandi ríkisstj. standa, þá er þetta skiljanlegt. Í stað nauðsynlegra aðgerða, þá fer hún aðra leið og leggur 45 millj. kr. skatt á almenning. Og hvað sem því líður, að sérfræðingar ríkisstj. segja, að þetta hækki ekki vísitöluna, hlýtur þetta þó að snerta almenning að verulegu leyti. Verkalýðssamtökin, sem bjuggust við því, að þessi ríkisstj. mundi ekki hafa samkomulag við þau, hafa svarað þessari tollahækkun hiklaust. Þau munu sýna stjórninni, að hún hefur ekki getu til að koma með svona álag og hafa samtök með sér að víkja sér undan byrðinni. Af þessu leiðir svo, að kaupgjald hlýtur að hækka, en útvegsmenn, sem stóðu að samkomulaginu í tíð fyrrv. ríkisstj., skilja, að þeim er það höfuðnauðsyn, að samkomulag sé á milli verkafólksins og framleiðenda, enda hafa þeir ekki óskað eftir þeim ófriði, sem nú liggur fyrir. Það er ljóst, að núverandi ríkisstj. ætlar ekki aðeins að ráðast á kjör verkafólks og leysa málin á kostnað þess, heldur mun þegar á eftir komið að hagsmunum útvegsmanna. Fyrir skömmu birtist sú yfirlýsing frá einum af ráðherrunum um verðábyrgðina á bátafiskinum, sem samþ. var í vetur að ósk sjómanna, að ekki kæmi til mála að framlengja slík lagaákvæði. Það er því vitað, að eftir árásina á landverkamenn þá er það í vændum, að sjómenn fái ekki að halda skaplegum launum. Nú ætlar hæstv. ríkisstj. að efna til verkfalla, þar sem hún hefur ekki útgjöld af þeim, en útvegsmenn og atvinnurekendur munu líða tjónið af þeim verkföllum, enda mun hún fá litlar þakkir fyrir að stofna aðalvertíð okkar í hættu.

Í þessu sambandi er fróðlegt að athuga, hvaða ástæður knýja hæstv. ríkisstj. til að skaða lífskjör verkafólksins og hvaða örðugleikar réttlæta þessar aðfarir. Nú er það langt liðið á þetta ár, að það ætti að vera tiltölulega auðvelt að sjá fyrir afkomu þjóðarinnar, þar sem vitað er nokkuð um verð á vörum okkur. Þótt ekki hafi verið skýrt frá samningum, þá hefur svo mikið verið um þá talað, að ég held að mér leyfist að drepa örlítið á þá. Það liggur fyrir, að nálega öll framleiðsla hraðfrystihúsanna er seld og að síldarlýsið er selt, og það hefur verið um það talað, að verðið á þessum vörum er nú á annarri þessari tegund 30% hærra en nokkru sinni áður og á hinni 50% hærra en áður, en þetta eru aðalþættir útflutnings okkar. Í samningum um ísvarða fiskinn er verðið það sama og í fyrra, en reynslan um sölu á þessari tegund er mun hagstæðari en árið áður, og mun því ísfisksmarkaðurinn verða hagstæðari en í fyrra og jafnmikið magn ísfisks gefa meira í aðra hönd. Nú eiga Bretar erfitt með að afla sér nægilegs fisks, vegna þess að verkföll eru þar tíð, og þó fyrst og fremst vegna þess, að veiðar þeirra hafa gengið illa. Af þessu leiðir því, að markaður okkar verður öruggari. Einnig munu Bretar auka fiskneyzlu sína, vegna þess að aðrar vörur hækka mikið. Matvöruverð fer þar því hækkandi á sama tíma sem fiskverðinu er haldið föstu, svo að fyrir útflutning ísfisks fáum við hærra verð en áður. Það er einnig vitað, að fyrir saltfisk fáum við hærra verð en áður og fyrir síldarmjöl fáum við frá 25% til 50% hærra verð. Útdráttur úr þessu er sá, að nú sést, að verð á afurðum okkar verður 30–50% hærra en á s.l. ári og það, sem af er vertíðinni, hefur fært okkur meiri afla en í fyrra. Ég geri ekki ráð fyrir, að nokkrir haldi, að við fáum minni síld en í fyrra, en margir gera sér vonir um miklu meiri síldarafla en þá var. Það er því ekki hátt áætlað, að við fáum fyrir útfluttar sjávarafurðir 50–60% hærra en í fyrra. Þá var útflutningurinn um 300 millj. kr., en mun nú ekki verða undir 450 milli. kr. Ég vil benda á, að hér er ekki um neinn spádóm að ræða, heldur eru þetta staðreyndir, þar sem sölur hafa farið fram, svo að fyrir liggur, að útflutningstekjurnar hljóta að verða mun meiri nú en verið hefur, ef ekki koma fyrir sérstök óhöpp. Þá liggja þessi mál þannig fyrir, að þeir 6–7 þús. menn, sem starfa við síldarvertíð, og þeir 7–8 þús., sem starfa að vetrarvertíð, og annað fólk, sem vinnur við fiskverkun, mun nú skila hærri fjárhæð í þjóðarbúið en það hefur getað nokkurn tíma áður. Og þessar stéttir láta ekki óvinveitta ríkisstj. leggja á sig ósanngjarnar byrðar, því að engin rök hníga að því að hefja árás á hið vinnandi fólk og skerða lífskjör þess. Mér er kunnugt um það, að það eru ýmis vandamál og erfið verkefni í atvinnulífi okkar, sem ekki verða leyst nema með samkomulagi. Það hefur t.d. verið kvartað um erfiðleika á sölu saltfisks vegna þess, hvað við erum síðbúnir í því efni, og má því búast við, að það verði að bíða til hausts. Enn fremur hefur reynzt örðugt að selja aðrar fiskafurðir okkar nema í sambandi við lýsi. Nú standa málin þannig, að tvær stórar viðskiptaþjóðir okkar, Sovét-Rússland og Bretland, vilja ekki kaupa saltfisk, og verður því að leita markaða fyrir hann á meginlandinu, en þjóðir þar eru mjög áfjáðar í þessa vöru eins og aðrar vörur okkar, en hins vegar eiga allar þjóðirnar á meginlandinu erfitt með fjárhag. Þær vilja kaupa háu verði, ef þær mega borga með sínum eigin gjaldeyri. Á þennan hátt tókst að selja nokkurn hluta. Þannig tókst að selja ufsann frá togurunum á hærra verði en nokkurn tíma áður, eða á þriðju kr. kg, vegna þess að þá tókst að fá aðila til að kaupa inn vörur í staðinn. En það er þetta, sem hefur verið hindrunin, t.d. í Grikklandi, Tékkóslóvakíu og Póllandi, að þjóðirnar hafa átt örðugt með að greiða í pundum og dollurum. Það er því nauðsynlegt að fá samninga við þessar þjóðir, og verðum við þá að kaupa af þeim framleiðsluvörur þeirra, sem við höfum nóg not fyrir. En aðalástæðan fyrir því, að þetta hefur ekki tekizt, er það innkaupafyrirkomulag, sem hér ríkir. Heildsalastéttin hefur ekki viljað skipta við þessar þjóðir, heldur hefur hún heimtað pund og dollara til að verzla í Englandi og Bandaríkjunum. Það er kunnugt, að flest stærri fyrirtæki hér hafa haft umboðsmenn bæði í Bretlandi og Bandaríkjunum, og hafa þeir fengið drjúg umboðslaun, og allir vita, að þau hafa verið drýgsti peningur innflytjenda hér, og hafa þeir ekki einu sinni þurft að skila þeim gjaldeyri hingað heim. Þetta hefur valdið því, að heildsalastéttin hefur keppzt eftir að fá að halda þessum samböndum og fá að njóta þessarar þóknunar óáreitt. Það færi því þarna spónn úr aski innflytjenda, ef tekin yrðu upp viðskipti við meginlandið, en það er höfuðnauðsyn fyrir okkur, hvort sem heildsölum líkar það betur eða verr. Af þessu mundi svo leiða, að við fengjum hærra verð fyrir fiskinn en við fáum nú í Bretlandi og Bandaríkjunum, en þyrftum hins vegar að kaupa eitthvað dýrari vörur. Þetta þyrfti að byggjast á samkomulagi allra aðila, en ríkisstj., sem styðst við verzlunarstéttina, er þessu andvíg, en er engan veginn fær um að leysa þetta vandamál.

Eins og ég hef bent á, þá er viðhorfið þannig nú, að síður en svo er ástæða til að hefja árás á verkalýðinn. En þeir, sem voru í andstöðu við fyrrv. ríkisstj., ættu nú að geta lært af mistökum sínum og afglöpum. Ef þeir litu nú á tækifærin, sem skapazt hafa, og hvaða tæki það eru, sem gefa okkur gjaldeyrinn, og ef þeir teldu nýju bátana og skipin, hvað þeir eiga mikinn hlut af þessu, þá mundu þeir sjá, að einmitt sú stefna, að vinna að því að nota hinar erlendu inneignir landsmanna til þess að kaupa ný og afkastamikil atvinnutæki, er sú stefna, sem gerir nú kleift að halda uppi góðum lífskjörum í þessu landi, svo að hægt er að líta björtum augum á framtíðina. Ég hef að vísu ekki tölur í höndum, en er þess fullviss, að áberandi meiri hluti af öllum útflutningstekjum okkar nú stafar frá nýsköpunartækjunum. Og það veit ég, að þeir, sem vildu helzt óska þess, að hægt væri að halda uppi á sem heppilegastan hátt árásarpólitík á hinn vinnandi almenning í landinu og brjóta á bak aftur samtök hans, þeir hefðu kannske heldur viljað, að útflutningstekjurnar hefðu nú orðið með gömlum og úreltum tækjum 150–200 millj. í stað 450 millj. kr., eins og allar ástæður eru til að búast við. Nei, sú stefna, sem fyrrv. ríkisstj. markaði í atvinnumálum þjóðarinnar, og það samkomulag, sem starf hennar hvíldi á, samkomulag um vinnufrið í landinu milli verkafólks, sjómanna og útvegsmanna, það var höfuðnauðsyn fyrir það þjóðfélagsástand, sem er í okkar landi. Og af stríði við verkalýðssamtökin getur nú ekki annað en illt hlotizt. Mín skoðun er sú, að það sé höfuðnauðsyn, að látið verði af þeirri stefnu, sem núverandi ríkisstj. hefur tekið í atvinnumálum þjóðarinnar og afstöðu til vinnandi almennings. Við afgreiðslu þeirrar vantrauststill., sem liggur fyrir, er nauðsynlegt, að komi skýrt fram, hverjir það eru, sem ætla að framlengja líf þessarar stjórnar og þar með á beinan eða óbeinan hátt veita brautargengi þeim stefnuatriðum, sem hún sannarlega hefur sýnt, að hún hefur í hyggju, og hverjir það eru hins vegar, sem óska eftir nýrri stefnu. Ábyrgð þeirra, sem ætla að styðja núverandi stjórn, verður mikil, því að þeir koma kannske á kaldan klaka þeirri uppbyggingu atvinnulífsins hjá þjóðinni, sem lagður hefur verið grundvöllur að á undanförnum árum, og eiga á hættu að koma í veg fyrir, að þjóðin fái þær miklu tekjur á þessu ári, sem líkur eru til, að hún geti aflað — koma í veg fyrir það með því að stuðla að vinnuófriði.

En hver sem afgreiðsla till., sem fyrir liggur, verður, þá er rétt, að þjóðin fái að sjá, hvaða afgreiðslu hún hlýtur, og mun vinnandi fólk í landinu haga sinni afstöðu eftir því.