11.11.1946
Sameinað þing: 9. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 136 í D-deild Alþingistíðinda. (4834)

46. mál, gjaldeyrir til námsmanna erlendis

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég vil taka undir það með hæstv. fjmrh., að mér fundust ummæli hv. þm. Barð. í garð viðskiptaráðs ekki sanngjörn eða á rökum reist. — Ég er þessu máli, sem hér er til umr., lítils háttar kunnugur, þar sem ég á sæti í viðskiptaráði, að vísu ekki, þegar það fjallar um veitingu gjaldeyrisleyfa, heldur verðlagsmál, en engu að síður er mér kunnugt um, hvernig þessum málum er varið. Vil ég eindregið mótmæla því, að starf viðskiptaráðs mótist af handahófsafgreiðslu í þessum efnum. Gilda sérstakar reglur um yfirfærslu til námsmanna erlendis, og hafa þær verið settar samkv. mjög rækilega rökst. till. frá upplýsingaskrifstofu stúdenta. Um námsfólk í Bandaríkjunum gildir, að það fær yfirfærslu á 2000 dollurum árlega, nema um sé að ræða sérstaklega hátt skólagjald eða námskostnað, og er þá tekið sérstakt tillit til þess. Upplýsingaskrifstofa stúdenta hefur talið, að 2000 dollarar ættu að nægja, nema um sé að ræða einstöku skóla, þar sem námskostnaður er sérlega hár,. og er þá tekið tillit til þess, eins og ég áður gat um. — Um námsfólk á Norðurlöndum gildir sú regla, að það fær yfirfærslu á 8000 krónum á ári. En Norðurlandamyntin, sænska krónan, er þó til af mjög skornum skammti og er dýrmætur gjaldeyrir. Fá norskir námsmenn í Svíþjóð yfirfærðar 200 sænskar krónur á mánuði, en íslenzkir námsmenn næstum 400 sænskar kr., og tel ég, að þeir megi vel við una. Íslenzkir námsmenn í Bretlandi fá árlega yfirfærðar 10–12 þús. kr.

Ég ferðaðist fyrir skömmu um mörg lönd Evrópu, m.a. um Norðurlönd, og hitti hvarvetna íslenzka stúdenta, og varð ég ekki var við, að þeir kvörtuðu um gjaldeyrisskort, en þeir töldu námsstyrki nauma, og væri ekki úr vegi að athuga möguleika til úrbóta í því efni. Yrði vafalaust vel þegið, að hv. flm. þessarar þál., sem er form. fjvn., tæki það mál til athugunar.

Eins og ég gat um áðan, fá íslenzkir námsmenn í Ameríku árlega yfirfærða 2000 dollara, og sé það borið saman við kaup starfsfólksins við sendisveitina í Washington og konsúlatið í New York, þá er ekki ósanngjarnt að ætlast til þess, að námsmönnunum nægi þessi 2000 dollara yfirfærsla. Í þessu sambandi má enn fremur geta þess, að flestir námsmenn, er stundað hafa nám í Ameríku á stríðsárunum, hafa komið heim með bifreiðar. Viðskiptaráði er skylt að veita innflutningsleyfi fyrir bifreiðunum, ef viðkomandi maður hefur dvalizt úti í þrjú ár og átt bifreiðina í 15 mánuði. Þessi bifreiðakaup námsmannanna virðast vissulega ekki benda til gjaldeyrisskorts.

Ég vil taka það skýrt fram, að mér finnst sjálfsagt, að námsmönnum sé veittur nægur gjaldeyrir til þess að standa straum af námskostnaði sínum. Ég held, að viðskiptaráð hafi ekki vanrækt skyldu sína í því efni, en hitt er það, að gjaldeyrisástandið þolir nú ekki, að veittar séu meiri yfirfærslur en brýnasta nauðsyn krefur. Ég tek að síðustu undir það, sem hv. 1. þm. N-M. sagði, að athuga bæri, hvort námsstyrkir væru notaðir til þess, sem ætlazt er til, og mér finnst, að meiri nauðsyn sé á að auka námsstyrkina en yfirfærslurnar.