11.11.1946
Sameinað þing: 9. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 137 í D-deild Alþingistíðinda. (4835)

46. mál, gjaldeyrir til námsmanna erlendis

Flm. (Gísli Jónsson):

Ræða hv. 4. þm. Reykv. sannaði aðeins það, sem ég hef haldið fram, að viðskiptaráð hafi ekki úthlutað gjaldeyrinum með sanngirni. Ég veit um stúdent, sem í 2 ár hefur verið neitað um meiri yfirfærslur en 2000 dollara á ári til þess að stunda nám í Ameríku. Þessi stúdent þarf þó um 1000 dollara árlega í bækur og skólagjöld og hefur einskis námsstyrks notið frá ríkinu. Hér er um að ræða aðila, sem hefur skapað mikinn gjaldeyri með útflutningi, en viðskiptaráð hefur neitað að taka tillit til þess. Þetta getur að vísu verið einsdæmi, en ég er reiðubúinn, hvenær sem er, að leggja fram gögn þessu til sönnunar. Þessum stúdent hefur verið neitað um meira en 2000 dollara, þótt vitað væri, að hann þyrfti að stunda nám 16–18 tíma í sólarhring. Vil ég því, að stofnun eins og viðskiptaráði séu settar reglur um, hvernig úthluta beri gjaldeyrisleyfum. Ég veit, að ekki hafa verið veitt leyfi af sanngirni, og vildi ég, að þetta gæti lagazt.