13.12.1946
Sameinað þing: 18. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 139 í D-deild Alþingistíðinda. (4838)

46. mál, gjaldeyrir til námsmanna erlendis

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hv. allshn. þá vinnu, sem hún hefur lagt í þetta mál, sem ekki er tilefnislaus. Ég vil í sambandi við þetta geta þess, að ég hafði persónulega leitað til viðskiptaráðs, nokkru áður en málið kom hingað, til þess að fá leiðréttingu þessara mála í sambandi við ákveðið nám og fékk neitun um þá yfirfærslu. Þegar málinu var hreyft hér á Alþ., upplýsti hv. 4. þm. Reykv., að það hefði verið föst venja að yfirfæra þá upphæð, sem nefnd er hér á nál. á þskj. 196. Þá óskaði ég aftur að fá um þetta leiðréttingu og fékk þá nokkra bót, og síðast nú í þriðja skiptið, eftir að fullvíst var, að málið kæmi inn á þingið, þá sendi viðskiptaráð mér bréf, þar sem segir, að enn sé vanreiknað um 1000 kr., til þess að uppfyllt séu þau ákvæði, sem hér er getið um. Ég vil í þessu sambandi benda á, að einnig þessi reikningsfærsla viðskiptaráðs er ekki rétt, en það er ekki tilefni til að ræða um það hér, og mun ég ræða það við viðskiptaráð á sínum tíma. En ég vil benda á það, að þeirri reglu er enn haldið við þessi viðskipti, sem gilt hefur, og sé ég því ekki, að hér sé gerð nein breyt. á í því efni. Það er ekki tekið fullt tillit til þess, sem lofað er í nál. Það er ekki tekið tillit til þess að bæta að fullu við námskostnaðinn, eins og hér er álitið, að eigi að gera, og sízt af öllu er tekið tillit til hækkandi aukakostnaðar, sem hefur orðið við veru námsmanna í útlöndum.

Ég hafði vænzt þess, að allshn. hefði gefið mér tækifæri til þess að mæta á fundi með form. viðskiptaráðs til þess að sanna með hans eigin gögnum, að hann mælir annað til viðskiptavina en til n. Ég mun hins vegar sætta mig við afgreiðslu málsins vegna þess, að ég hef fengið í hendurnar gögn, sem mér þykja vera nægileg til þess að sækja rétt þessara manna í hendur viðskiptaráðs, því að ég tel þetta fullkomið loforð frá viðskiptaráði um það, að það muni afgreiða þessi mál eins og lagt er til í nál. Ef þetta er réttur skilningur hjá mér, þá mun ég sætta mig við afgreiðslu þessa máls á þann veg, sem hv. allshn. leggur til.