22.10.1946
Sameinað þing: 3. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 144 í D-deild Alþingistíðinda. (4846)

4. mál, flugvellir í Reykjavík og Keflavík

Flm. (Jónas Jónsson):

Það hefur nú mikið verið rætt um flugvelli undanfarið hér á Alþ., og skal ég ekki endurtaka neitt af því, sem þá var sagt. En í sambandi við þann samning, sem samþ. hefur verið við Bandaríkin, að þau telja nauðsynlegt að leggja mikið fé fram á næstu árum til að nota flugvöllinn og gera hann starfhæfan til þeirra nota, sem þau vilja hafa af honum í sambandi við hernám Þýzkalands, þá er nauðsynlegt, að um þennan flugvöll verði gerðir nánari samningar en orðið er, annaðhvort við utanrrh. eða flugmrh. eða báða. Og það, sem farið er fram á með þessari till., er að efla hag landsins frekar en orðið er með því að koma ár sinni svo fyrir borð, að við þurfum ekki að leggja í kostnað, sem leiðir af því að stækka flugvöllinn hér í Reykjavík, heldur beri að stefna að því að haga svo samningum við stjórn Bandaríkjanna um stækkun og endurbætur á flugvellinum við Keflavík, að þar verði þegar hentug aðstaða fyrir allt flug, sem Íslendingar taka þátt í, innanlands og til útlanda. Með þessu er stefnt að því að spara ríkissjóði Íslands stórkostleg útgjöld, sem vofa yfir honum af flugvellinum hér í Reykjavík. En auk þess yrði þetta til þess að frelsa Reykjavík undan þeirri hættu, sem sífellt hefur vofað yfir og vofir máske yfir enn, loftárásarhættunni. Ég er ekki svo kunnugur því né heldur neinn þm., að þeir geti fullyrt um það, hvað vakir fyrir núverandi ríkisstj. í þessum efnum. Það liggur í hlutarins eðli, og þarf ekki um það að semja sérstaklega, að allt okkar flug getur orðið starfrækt á Keflavíkurflugvellinum eins og stendur og að endurbætur, sem þarf að gera á vellinum, koma okkur ekki til útgjalda að svo stöddu, meðan Bandaríkjamenn hafa aðalafnot af vellinum. Um þetta vildi ég heyra frá hæstv. utanrrh. og flugmrh.

Þá kem ég að hinu atriðinu, kostnaðinum við völlinn hér. Ég hygg, að í þeim sviptingum, sem urðu hér á Alþ. um flugvallarmálið, hafi það komið í ljós, að jafnvel innan ríkisstj. séu skiptar skoðanir um það, hvað kostnaðurinn verði af vellinum hér í Reykjavík. Ég hygg, að hæstv. utanrrh. hafi nefnt nokkuð háar tölur í sambandi við rekstur flugvallarins hér, sem mundi falla á landið, og tel, að flugmrh. hafi nefnt mjög lágar tölur. Ég tel mikið bilið milli þessara upphæða, og þetta held ég stafi af því, að ríkisstj. sé í heild enn ekki búin að gera sér grein fyrir því, hvað mikinn kostnað er um að ræða. Við þm. stöndum verr að vígi um þetta, höfum ekki aðgang að reikningum þar að lútandi. En það, sem okkur virðist, sem athugum flugvöllinn daglega, er þetta, að flugvöllurinn er mjög lítið notaður fyrir okkar innlenda flug, en ekkert til útlanda, og koma því frá útlöndum litlar tekjur frá vellinum. Það er því sýnt nú þegar, að ef Reykjavíkurflugvöllurinn verður eingöngu notaður fyrir innlent flug, þá verður það stórkostlegt tekjuhallafyrirtæki, svo að það mundi á venjulegum tímum ómögulegt fyrir ríkissjóð að rísa undir því. Og þar við bætist, eins og allir vita, að þessi völlur er byggður á linu mýrlendi. Þessi aðstaða með flugvöllinn hefur orðið enn verri fyrir Íslendinga fyrir það, að Íslendingar hafa ekki kunnáttumenn til að starfrækja völlinn þannig, að það gætu komið hingað útlendar flugvélar, og hefur reynslan orðið sú, að þó að flugmrh. hafi oftar en einu sinni látið drýgindalega yfir því, að nú væru Íslendingar búnir að taka við vellinum, þá er þessum málum ekki betur komið en svo, að meginið af því starfi, sem gert hefur verið á flugvellinum, er framkvæmt af útlendingum, enskum mönnum, sem íslenzka stjórnin virðist hafa beðið að hjálpa til í þessum efnum fyrst um sinn. Nú vildi ég heyra, af því að það er mál, sem alla varðar, hvernig er um þessa menn, hver borgar þeim. Ef Íslendingar greiða ekki þetta fé, þá er það velvild af Breta hálfu að hjálpa okkur í þessum efnum, en það er þá að minnsta kosti hjálp, sem tæplega getur staðið til lengdar, þannig að Íslendingar gætu varla sætt sig við að biðja um þessa hjálp fyrir ekki neitt og enn síður tekið að sér völlinn, þar sem þá vantar kunnáttumenn og fé til að reka hann. En nú hefur það bætzt við, að flugmrh. og nokkrir af flokksbræðrum hans — ég vil þó undanskilja þann þm. þess flokks, sem hefur verið talinn forustumaður flokksins í bæjarstjórninni og snúizt hefur á móti flokknum í þessu máli og farið höndum orðum um flokksbræður sína fyrir flugvallarmálin hér — hafa í heild ekki aðeins staðið fast á því, að flugvöllurinn yrði ekki lagður niður, heldur vilja þeir láta stækka hann stórlega og vilja í því sambandi láta rífa niður a.m.k. 60 hús hér í bænum. Þetta er merkilegt, þar sem þessi sami flokkur telur sig standa framarlega í baráttunni móti húsnæðisleysinu. Má því kalla léttúð að rífa niður, þó að ekki sé nema 60 hús, til þess að stækka þennan flugvöll. En það er komið í ljós af viðræðum og skýrslum, sem flugmálastjóri hefur gefið, að það mundi kosta tugi milljóna að gera þennan völl starfhæfan, og hefur það einnig komið í ljós hjá þessum manni, að það væri ekki um það að ræða, að Íslendingar gætu haft þetta á hendi hjálparlaust. Nú er það satt að segja furðuleg afstaða hjá flokki þeim, sem ráðh. telst til, að vilja ekki lofa annarri þjóð að nota Keflavíkurflugvöllinn í 5 ár, en ætla svo að fá hjá einhverju stórveldi, og þá sennilega Bandaríkjunum, þann stuðning, sem hann telur þurfa til þess að gera við Reykjavíkurflugvöllinn. Þetta stafar af því, að hlutaðeigendur hafa ekki áttað sig á málinu. Þeir vilja taka völlinn, vita, að Íslendingar hafa ekki peninga, vilja fá peninga frá útlöndum, en banda hendinni móti þeim peningum, sem eiga að koma til góða í 51/2 ár. Og nú hefur það skeð, að forráðamenn Sósfl. í bæjarstjórn Reykjavíkur hafa yfirgefið ráðh. sinn í þessum efnum og afneitað algerlega stefnu hans þar sér til mikillar sæmdar. Nú er samt sem áður ekki allt búið enn í þessum efnum, og það er það, að þessi krafa Sósfl. um að gera þennan völl enn stærri en hann er hefur skapað gífurlegt andóf hér í bænum, þannig að slíks eru fá dæmi, og hefur verið stofnaður hér félagsskapur, sem hefur fengið því áorkað, að bæjarstjórn Reykjavíkur hefur neitað að verða við tilmælum flugmrh. um stækkun á flugvellinum. En það er áreiðanlegt, að Reykjavík lætur ekki þar staðar numið, því að sá sigur, sem búið er að vinna í þessu máli, er smásigur til að forða Reykjavíkurbæ frá þeirri hættu, sem flugvöllurinn hefur sett bæinn í. Það var ekki hægt að hugsa sér meiri árásarhættu en í Reykjavík á stríðstímanum, þó að svo heppilega vildi til, að Þjóðverjar notuðu sér það ekki. Hitageymar Reykjavíkur eru í röð kringum flugvöllinn, enn fremur bæði aðalsjúkrahús bæjarins, háskólinn, að öllum líkindum með handritasafni Íslands, og fornminjasafnið. En auk þess má segja, að höfuðborgin öll girði um flugvöllinn og sé öll í hættu af sprengjum, sem falla þar. Ef sprengja kæmi í hitageymana, þá mundi sjóðandi vatnið falla yfir flugvöllinn, og ekki gott að segja, hvað mikið af fólki yrði fyrir því. Ef sprengja kæmi í Shell-geymana, mundi það vafalaust hjálpa til að gera Reykjavík að engu.

Það er þess vegna áreiðanlegt, að því betur sem menn athuga þetta mál, því fjarstæðukenndari verður sú skoðun, sem hefur komið fram hjá flugmrh. og hans flokki í þessu máli. Það eru engar líkur til, að Reykvíkingar muni nokkurn tíma sætta sig við að hafa flugvöll í bænum. Og hvað sem segja má um útlitið í heiminum nú, þá er það að minnsta kosti stórum verra en útlitið var fyrst eftir, að fyrra stríðinu lauk, og það er eins og sumir vitrir menn úti í heimi búist við því, að styrjöld geti skollið á þá og þegar. ........ [Vantar kafla frá innanþingsskrifara (Má Jóh.) ].