22.10.1946
Sameinað þing: 3. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 147 í D-deild Alþingistíðinda. (4850)

9. mál, endurgreiðsla aðflutningsgjalda af vélbátum

Flm. (Eysteinn Jónsson):

Við hv. þm. Borgf. höfum leyft okkur að leggja fram þessa þáltill. Þannig er ástatt, að samkvæmt núgildandi tolllögum er talsvert innflutningsgjald af bátum. Geri ég ráð fyrir, að það sé hugsað sem stuðningur fyrir íslenzka bátasmíði. En nú hefur hvort tveggja gerzt, að íslenzkar bátasmíðastöðvar hafa nóg að gera og inn eru fluttir margir vélbátar frá öðrum löndum. Þessir vélbátar, sem inn eru fluttir, eru ódýrari en þeir, sem eru smíðaðir í landinu, en samt munu menn eiga erfitt með að koma greiðslu andvirðisins í kring. Nú í sumar var erfið síldarvertíð, og mun það hafa komið sér illa fyrir þá, sem fá þessa báta. Það sýnist því ekki skynsamlegt, þegar svona stendur á, að innheimta þessi gjöld. Okkur flm. sýnist því, að rétt sé að gera þessa undanþágu og láta falla niður að innheimta þessi gjöld, sem hafa ekki enn verið innheimt, og endurgreiða þau, sem innheimt hafa verið frá stríðslokum.

Ég þarf ekki að færa fram neinar ástæður fyrir þessu. Það mundi draga þó nokkuð hvern og einn, að þessi gjöld væru felld niður. Það má líka segja, að hér sé um nokkurt fjármagn að ræða fyrir ríkissjóð, en það er þó ekki svo verulegt í því mikla fjármagni, sem ríkissjóður hefur nú með höndum.

Við flm. erum reiðubúnir að láta þá n., sem fær þetta mál til athugunar, fá allar þær upplýsingar, sem við höfum um þetta.

Ég leyfi mér svo að óska þess, að till. verði vísað til fjvn. Mér sýnist eðlilegt, að till. fari þangað, en ekki til allshn.