31.10.1946
Sameinað þing: 4. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 149 í D-deild Alþingistíðinda. (4854)

21. mál, verðjöfnunarsjóður

Fjmrh. (Pétur Magnússon):

Ég mun ekki setja mig á móti því, að málið komist til síðari umr. og til fjvn. Hins vegar er ekki allt undir því komið, að n. geti orðið við þeirri ósk að afgreiða till. án tafar, og ég býst líka við, að n. komist að þeirri niðurstöðu, að það sé ekki hægt að afgreiða þáltill. svo fljótt.

Það er rétt hjá hv. þm. N-M., að kjötsalan innanlands hefur orðið nokkru minni en verðlagsn. hefur áætlað, og þess vegna eru nokkrar birgðir af fyrra árs kjöti óseldar. En ég veit hins vegar ekki betur en n. sé búin að ráðstafa þessu kjöti að mestu eða öllu leyti þannig, að kjötverzlanir í bænum séu búnar að kaupa það til vinnslu, og ég ætla, að verðið sé það sama og heildsöluverðið var til 20. sept. s.l. Hv. þm. N-M. sagði, að verðjöfnunarsjóð vantaði um 3 millj. kr. til þess að geta verðbætt að fullu kjötframleiðslu ársins 1945, en ég ætla, að þar sé um minni upphæð að ræða. Hv. þm. sagði enn fremur, að bændur ættu ekki sök á þessum mistökum, en ég vil nú ekki viðurkenna, að þarna sé um nein mistök að ræða önnur en þau, að kjötsalan innanlands hefur orðið nokkru minni en verðlagsn. áætlaði. Það er aldrei hægt að segja nákvæmlega fyrir fram, hve mikil kjötneyzla verður í landinu á hverjum tíma. Hitt má telja meiri mistök, eins og átti sér stað 1944, þegar Reykjavík og aðrir kaupstaðir voru kjötlausir allt sumarið, eða frá því í júní og þar til um haustið. Það voru mistök, sem ekki mega endurtaka sig, og það var tjón bæði fyrir neytendur og framleiðendur, og slíkt ástand má ekki endurtaka sig. Þá minntist hv. þm. N-M. á, að það hefði mátt selja kjötið út fyrir meira en fengist fyrir það nú. Á árinu 1945 voru engin tilboð um kjötsölu, sem fært þótti að taka, fram yfir það, sem selt var þá. Það má því segja, að bætzt hafi við geymslukostnaður á þetta kjöt, en það er þá líka það eina.

Ég hef ekki heyrt talað um það fyrr en nú að færa verðjöfnunargjaldið milli ára, a.m.k. hefur verðlagsn. ekki talað um neinar slíkar fyrirætlanir. Hinu má gera ráð fyrir, að þær kjötbirgðir, sem til eru frá árinu 1945, muni leiða til þess, að meira verði flutt út af framleiðslu ársins 1946 en ella hefði orðið. Það má vera, að þetta komi ekki algerlega rétt niður, að svo miklu leyti sem kjötframleiðendur eru ekki hinir sömu frá ári til árs, en það mun vera erfitt að fullnægja þessu út í yztu æsar, að ekki verði einhver munur frá ári til árs hvað þetta snertir.

Ég er því samþykkur, að þetta mál verði athugað og því verði vísað til fjvn., en ég vil beina þeim tilmælum til hennar, að hún afgreiði ekki málið án þess að ganga úr skugga um, hvernig útkoma ársins verður, hvað þetta snertir. Ég geri mér vonir um, að hún verði ekki neitt í líkingu við það, sem hv, þm. N-M. vildi vera láta.