10.01.1947
Sameinað þing: 22. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 157 í D-deild Alþingistíðinda. (4867)

22. mál, ullarkaup ríkissjóðs

Fjmrh. (Pétur Magnússon):

Herra forseti. — Ég neita því ekki, að mér kemur það nokkuð einkennilega fyrir sjónir, hve fast þetta mál er nú sótt hér. Á árunum 1943–1945 var engin ull seld. Þó voru þá ekki gerðar neinar kröfur til þess, að ríkið greiddi ullina. Árið 1946 gerist það svo, að talsverð ull selst fyrir hagkvæmt verð, og nokkuð af ullinni seldist fyrir ágætt verð. Þessi sala leiðir til þess samkvæmt upplýsingum frá fulltrúum Sambands íslenzkra samvinnufélaga og Garðari Gíslasyni, sem eru mestu ullarútflytjendurnir, að unnt er um þessi áramót að gera upp ullina fyrir árin 1943 og 1944, og er þá árið 1945 eitt óuppgert. Og nú fyrir skömmu hefur verið gerður samningur við Pólland um sölu á 300 smálestum ullar. En það er aðallega 1. og 2. flokkur, sem Pólverjar vilja kaupa, svo að ekki er unnt að fullnægja þeim samningi, en ef það væru þeir flokkar, sem eftir væru óseldir af ull landsmanna, þá væri lítið eftir af ullinni frá 1943–1945, þegar búið væri að fullnægja Póllandssamningnum. Hins vegar hefur ullareigendum, sem nú eiga þessa flokka (1. og 2. flokk), verið gefinn kostur á að ganga inn í Póllandssamninginn, og er það tilboð ullarframleiðendum til hagsbóta, þar eð þeir fá hagkvæmt verð fyrir þá ull árið 1946. Auk þess hefur verið um það talað milli ríkisstj. annars vegar og Sambands íslenzkra samvinnufélaga og Garðars Gíslasonar hins vegar, að athugaðir verði möguleikar á sölu þeirrar ullar, sem enn er óseld. Mér er kunnugt um, að reynt hefur verið að selja hana í Ameríku. Enn þá hefur ekki tekizt að útvega tilboð í hana, er þyki nógu hagstætt, en einhverjar vonir munu standa til þess, að úr því geti rætzt. Ég verð því að segja, úr því að búið er að selja ullina frá 1943 og 1944, að ég hef ekki trú á, að mikill kurr mundi koma upp meðal ullarframleiðenda, þótt það drægist fram á mitt þetta ár að gera upp árið 1945, sérstaklega þegar þess er gætt, að vegna Póllandssamningsins hefur ullarsalan fyrir 1946 verið gerð upp að miklu leyti.

Það hefur verið spurzt fyrir um það hér, hvort hægt mundi að snara út andvirði þeirrar ullar, sem enn er óseld. Því er fljótsvarað. Það er ekki hægt nema með lántöku. Núna um áramótin skuldaði ríkissjóður allar þær fjárhæðir, sem lagðar hafa verið út vegna bátabygginga innanlands á s.l. ári, eða á 9. milljón króna. Að öðru leyti var reikningur ríkissjóðs sléttur, en einhver örlítil inneign þó. Eftir áramótin hefur orðið að greiða það mikið út, að yfirdráttur á reikningi ríkissjóðs er nú nálægt 5 milljónum króna. Það er máske ekki ólíklegt, að unnt væri að útvega bráðabirgðalán til að greiða ullina. Annað mál er það, hvort þm. telja knýjandi nauðsyn bera til þess eða ekki. Út frá því, sem ég hef nú sagt, mundi ég gera það að till. minni, að þetta mál væri látið bíða, a.m.k. fyrst um sinn. Ég efast um, að nokkur þm. sé svo bjartsýnn, að hann búist við, að þessu þingi ljúki fyrr en eftir tvo til þrjá mánuði. Og ég held, að naumast yrði þjóðarbrestur, þótt málinu væri frestað um sinn, meðan verið væri að sjá, hvað kæmi út úr þeim tilraunum, sem nú eru gerðar til að selja það, sem enn þá er óselt af ullinni. Ef ný ríkisstj., sem væntanlega kemur hér innan skamms, kæmist að nýrri niðurstöðu í málinu, væri alltaf hægt að taka það upp að nýju. Mér sýnist þetta nú vera skynsamlegasta lausnin, í stað þess að knýja ríkisstj. til lántöku nú. Hún hefur í mörg horn að líta, eins og nú er í pottinn búið á mörgum sviðum, og ef til vill yrði annað talið meira aðkallandi en þetta.