05.11.1946
Sameinað þing: 7. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 166 í D-deild Alþingistíðinda. (4892)

328. mál, húsnæði handa rektor menntaskólans í Reykjavík

Flm. (Jónas Jónsson):

Ég var þess fullviss, að fjmrh. hafði ekki haft beina forgöngu um að byggja rektor út úr menntaskólanum, en ég beindi máli mínu til hans, af því að hann einn var viðstaddur af ráðh. og af því að hann einn af ráðh. hefur reynt að bæta úr þessum vandræðum. Mér þótti skýrsla hans í málinu glögg og sennileg, en af henni má sjá, að menntmrh. varð að láta rektor flytja burt úr skólahúsinu, þótt hann hins vegar hefði ekki neitt annað húsnæði að bjóða, og sannast nú það, sem ég hef áður sagt, að nú er búið að fylla skólann svo af nemendum, að til vandræða horfir um húsnæði. Ég get tekið annað dæmi. Utan Reykjavíkur var byggður gagnfræðaskóli einn, sem kostaði yfir millj. kr. Nú er nauðsyn á að stækka skólann um helming. Þannig er það nú að taka á móti gjöfum þeim, sem hæstv. menntmrh. veitir.

Nú vil ég víkja að því, að það er naumast von til, að rektor vilji hús inni á Kleppsholti, þar eð líkindi fara minnkandi fyrir því, að nýr skóli verði byggður þar. Ég vildi mega skjóta því til hæstv. menntmrh., að útvegurinn í Reykjavík, ef hann á að hafa nokkurt heimili, þá verðar hann að taka þennan stað til sinna þarfa. Þessi staðreynd gerir það sennilegt, að skóli verði aldrei reistur þarna, heldur verði hann byggður á gömlu lóðinni. Rektor hefur látið það uppi, að hann vildi fullt svo gjarnan búa rétt hjá skólanum eins og í honum.

Á Alþ. voru einhverju sinni veittar 100 þús. kr., en það taldist þá nægilegt, til viðgerðar á gamla landlæknishúsinu. Rektor vildi gjarnan, að gert væri. við þetta hús. En þegar ég bar upp till. þessa í fjvn., þá reis upp hv. þm. Borgf. og kom því til leiðar, að stjórninni var veitt heimild til þessa, en Einar Arnórsson, sem þá var ráðh., vildi ekki framkvæma þetta, og þannig féll málið niður. Þótt það sé ekki hlutverk mitt að ráðleggja hæstv. menntmrh., þá legg ég til, að þetta hús verði lagað til íbúðar fyrir rektor, en auðvitað tekur það langan tíma og kostar mikið fé. En til bráðabirgða verði reynt að fá leigða íbúð handa rektor.

Að lokum vil ég leggja til, að málinu verði vísað til hv. fjvn.