05.11.1946
Sameinað þing: 7. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 167 í D-deild Alþingistíðinda. (4893)

328. mál, húsnæði handa rektor menntaskólans í Reykjavík

Fjmrh. (Pétur Magnússon):

Mér skilst, að hv. flm. sé þess fýsandi, að gert sé við húsið Amtmannsstíg 1, en á því tel ég mörg tormerki. Það er mjög sennilegt, að á þessum slóðum verði í framtíðinni byggðar margar opinberar byggingar, svo framarlega sem ríkissjóður hefur getu til slíks.

Af allri nauðsyn varð ríkisstj. að láta lagfæra hús til íbúðar fyrir einn embættismann ríkisins, en það er alltaf afar kostnaðarsamt að gera við þessi gömlu hús. Ég veit nú ekki fyrir víst, hve mikið mundi kosta að gera við áður nefnt hús, en það yrði sjálfsagt hátt upp í 100 þús. kr. Ég álít, að ekki yrði viðlit að gera við gamla landlæknishúsið, því að það mundi kosta nærri jafnmikið og nýtt hús, og það væri vissulega óskemmtileg meðferð á ríkisfé að leggja í mikinn kostnað til viðgerðar á gömlum húsum, sem yrðu svo ef til vill rifin innan skamms. Þessi viðgerð tæki auk þess langan tíma, en málið þarfnast skjótrar úrlausnar. Mér virðist ekki nema um tvennt að gera, annaðhvort að reyna að fá leiguíbúð til bráðabirgða eða þá að kaupa hús í þessu skyni.