08.11.1946
Sameinað þing: 8. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 168 í D-deild Alþingistíðinda. (4900)

266. mál, áfengisskömmtun

Flm. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. — Ég vænti þess, að þessi till., sem hér liggur fyrir til umr., um skömmtun áfengis, sem við hv. þm. A-Sk. berum hér fram, varði ekki talin ófyrirsynju fram komin.

Ég tel, að ekki sé ástæða fyrir mig að láta langa framsögu fylgja þessu máli. Ég veit, að öllum hugsandi mönnum er mikið áhyggjuefni, hversu áfengisneyzla þjóðarinnar fer ört vaxandi nú á síðustu árum og hversu hún er orðin geigvænlega mikil. Árið 1940 er talið, að áfengisneyzlan hér á landi sé 11/2 lítri að meðaltali á hvern íbúa, en 1945 er talið, að áfengisneyzlan sé komin upp í meira en 5 lítra á hvert mannsbarn.

Ég hygg, að hv. alþm. sé meira og minna kunnugt um afleiðingar þessa mikla drykkjuskapar og menn skilji, að enn meiri hætta blasir við, ef hann heldur áfram að örvast. Æska landsins er af völdum áfengis í mikilli hættu stödd, og þær fórnir, sem hin starfandi kynslóð færir Bakkusi, eru of miklar, svo miklar, að hver maður hlýtur að rísa upp til mótmæla og andstöðu.

Það er ekkert vit í því kasta út milljónatugum fyrir vín á hverju ári. Hitt er þó verra, að í kjölfar ofdrykkjunnar flýtur óhjákvæmilega alls konar eymd og örbirgð. Við tölum um, að við viljum flýta sem mest alls konar atvinnuþróun, til þess að þjóðin geti búið við betri kjör á komandi tímum. Við stefnum að því að taka á okkur mikinn kostnað vegna aukinnar fræðslu, og við verðum að taka á okkur þungar byrðar til þess að auka alls konar heilsuvernd og almannatryggingar og hvers konar aðrar þjóðfélagslegar umbætur. En því megum við samt ekki gleyma, að ef þessar umbætur eiga að ná til allra borgara þjóðfélagsins og ef þær eiga að ná tilgangi sínum, þá verðum við jafnframt að stuðla að því a.ð fækka þeim vínbikurum, sem árlega er ýtt að hverjum manni.

Okkur setur hljóða, þegar við heyrum um voveiflegt manntjón á sjó eða landi, og við viljum svo gjarnan auka öryggið, svo að slíkt megi sem sjaldnast fyrir koma. En eru ekki einlægt menn og konur að farast í ofdrykkjuflóðinu, sem gengur yfir landið? Og ber okkur þá ekki líka að reyna að skapa öryggi, til þess að minna verði af slíkri ógæfu en nú er?

Það má telja vafalaust, að öruggasta vörnin gegn áfengisbölinu sé algert áfengisbann, bann, sem er stutt ófluglega. Af ýmsum ástæðum munu ekki vera fyrir hendi þau skilyrði, sem þurfa að vera til þess, að bannið nái tilgangi sínum. Ég ætla því, að skynsamlega undirbúin skömmtun áfengis sé kannske sú leið, sem við getum farið nú í þessu efni. Það er til gamalt máltæki, sem segir: Fyrr er fullt en flói út af. Ég geri ráð fyrir, að þeir menn, sem vilja hafa rétt til að neyta áfengis, hljóti að viðurkenna, að fyrr sé kostur vínneyzlu en að drukknir séu 26 litrar víns á hverja 5 manna fjölskyldu í landinu. Það verður að ætla, að hófleg skömmtun, sem samvizkusamlega er fram fylgt, ætti stórkostlega að draga úr óhóflegri áfengisneyzlu. Við verðum líka að ætla, að skömmtunin hljóti mjög að stuðla að því, að tilgangi 13. gr. áfengisl. verði náð, þeim, að enginn innan 21 árs fái rétt til að kaupa áfengi.

Við tillögumenn gerum ráð fyrir, að út séu gefnar áfengisbækur, sem allir 21 árs og eldri hafi rétt til að fá. Við gerum ráð fyrir, að enginn geti fengið afgreitt áfengi út á bók nema bókareigandi sjálfur, hann verði sjálfur að framvísa bók sinni og hverri bók fylgi mynd af eiganda, svo að áfengissalan geti sannprófað, að kaupandi hafi rétt til þeirrar bókar, sem hann vísar fram. Þar sem engin áfengissala er, mætti hugsa sér fyrirkomulagið á þann veg, að bókunum sé framvísað til hlutaðeigandi yfirvalds staðarins, sýslumanns eða hreppstjóra, og hann gefi vottorð um, að hlutaðeigandi maður hafi rétt til ákveðinna áfengiskaupa, og þetta vottorð yrði svo sent til þeirrar áfengisútsölu, sem hann skiptir við. Það verður að ætla, að það sé rétt fyrirkomulag, að því áfengismagni, sem hverjum manni er ætlað til ársins, sé skipt jafnt niður í mánaðarskammta og í hverri áfengisbók væri örk, sem skipt væri í reiti og á hverjum reit, sem prentaður væri fyrir hvern mánuð, stæði, hve mikið magn áfengis mætti fá út. á hann. Þessir reitir væru svo rifnir úr hlutaðeigandi áfengisbók og afhentir, þegar kaupin eiga sér stað. Á eftir væri svo hægt að sannprófa, hvort hlutaðeigandi áfengissala hefur löglega látið af hendi það áfengi, sem hún hefur fengið til sölu. Við gerum enn fremur ráð fyrir, að undir vissum kringumstæðum sé hægt að svipta mann rétti til áfengisbókar um lengri eða skemmri tíma, ef maðurinn hefur hagað sér ósæmilega undir áhrifum víns.

Við gerum ráð fyrir, að þessi skömmtun verði hafin um næstu áramót. Við búumst við, að ef þessi till. fær samþ. Alþingis, sem við vonum, þá sé nægur tími til stefnu til þess að gera þann undirbúning, sem nauðsynlegur er, sem aðallega verður þá fólginn í því að semja reglugerð um þessa hluti og gefa út áfengisbækur.

Ég sé ekki ástæðu til að láta þessari till. fylgja fleiri orð. Ég vænti þess, að till. verði að lokinni þessari umr. vísað til síðari umr. og allshn.