08.11.1946
Sameinað þing: 8. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 173 í D-deild Alþingistíðinda. (4902)

266. mál, áfengisskömmtun

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. — Ræða hæstv. fjmrh. gefur tilefni til þess að ræða þetta mál á nokkru víðari grundvelli en þáltill. á þskj. 70 gefur beint tilefni til. Hæstv. ráðh. greindi þetta stóra vandamál, sem við köllum áfengismálin, í tvo meginþætti. Hann talaði annars vegar um vandamál þeirra einstaklinga, sem falla fyrir áfenginu, og hins vegar um hið almenna vandamál, fjársóun og önnur þau vandræði, sem hljótast af Bakkusi almennt. Í tilefni af því, sem ráðh. sagði um fyrri liðinn, vildi ég taka þetta fram: Ráðh. lét þau orð falla í sambandi við tilraun, sem hér hefði verið gerð, að hún hefði farið í nokkrum handaskolum. Má vera, að þessum orðum megi finna einhvern stað, en ég tel þó, að þau séu á nokkuð hæpnum rökum reist. Saga þessa máls er, sem kunnugt er, að fyrir nokkrum árum gekkst Stórstúka Íslands fyrir því að koma upp vísi að heilsuhæli fyrir drykkjumenn í Kumbaravogi. Síðar tók ríkið við þessari stofnun samkv. l. frá Alþ., og s.l. ár var hún flutt að Kaldaðarnesi og gamla íbúðarhúsið endurnýjað í því skyni, að þar mætti vera sjúkrahús fyrir þessa menn. Þar er pláss fyrir 17 menn. Læknir stofnunarinnar var Alfreð Gíslason. Þessi stofnun fylltist strax og raunar áður en húsið var byggt. Hvert rúm var skipað, og því er ekki að leyna, að þeir, sem þangað völdust, voru einkum þeir, sem harðast höfðu orðið úti í viðskiptunum við Bakkus. Því er heldur ekki að leyna, að nokkur vandræði höfðu komið í ljós í sambandi við dvöl þessara manna, en ekki held ég, að það hafi verið um nein önnur vandræði að ræða en gengur og gerist í slíkum stofnunum annars staðar. Þau vandræði eru alls staðar, því að þetta eru sjúkir menn, eins og hæstv. fjmrh. réttilega komst að orði, þar sem sjúkleikinn er með sérstökum hætti, þannig að oft er erfitt að gera það fyrir þá, sem þeim er fyrir beztu. Síðasta vor var sú breyt. gerð á, með samkomulagi við hæstv. félmrh., forstöðunefnd hælisins og aðra, sem ráða þessum málum, að stofnun þessi að Kaldaðarnesi var sameinuð rekstri ríkisspítalanna og fenginn sem yfirlæknir dr. Helgi Tómasson. Dr. Helgi taldi rétt að reka þessa stofnun á nokkuð öðrum grundvelli en fyrirrennari hans hafði gert. Hann hélt fram því sjónarmiði, að þörfin fyrir svona hæli væri svo gífurlega mikil, að lítill hluti þeirra manna, sem þyrftu slíkrar meðhöndlunar með, gæti komizt að, meðan ekki væri um nema 17 rúm að ræða. Og þá taldi hann, að velja bæri á milli þeirra manna, sem verst væru farnir og þyrftu langa vist, til þess að von væri um árangur - sumir ævilangt —, og hinna, sem beinlínis von væri um, að gætu fengið bata á tiltölulega skömmum tíma. Samkv. þessu sagði yfirlæknirinn þeim mönnum, sem voru á hælinu þá, að ef þeir væru óánægðir með vistina og vildu ekki fúslega hlíta öllum fyrirmælum læknanna, þá væri þeim frjálst að fara þaðan og ekki um það fengizt, heldur yrði notaður sá réttur, sem felst í l. um drykkjumannahæli. Niðurstaðan varð sú, að mennirnir, sem þar voru, hurfu af hælinu, og dr. Helgi hefur hugsað sér, að þangað kæmu svo menn, sem væru á því stigi, að þeir þyrftu ekki langa vist til þess að fá nokkurn bata, þannig að hann vildi taka þessa sjúklinga fyrst til athugunar á Kleppi og flytja þá austur eftir, þegar hann væri búinn að gera á þeim nauðsynlegar athuganir og þá byrjunarlækningu, sem hann teldi nauðsynlega. Nú er eftir að athuga, að einmitt þeir menn, sem læknis þyrftu við á þessu sviði, eru flestir svo haldnir, að þeir telja sig ekki þurfa þess, og reynslan hefur því orðið sú, að þetta hefur gengið hægt. Eru aðeins fáir, sem hafa komið þar austur, síðan þessi breyt. var gerð, því að þegar læknirinn á Kleppi hefur talað um það við þessa menn, að þeir ættu að leita sér þarna hælis, hafa þeir ekki viljað hlíta því, og hefur því orðið smátt um, að menn færu þangað. Nokkrir menn eru þar þó. En ég vildi gera grein fyrir því, að öll þessi mál hafa síðustu ár verið rædd mjög mikið innan Stórstúku Íslands, við dr. Helga Tómasson, landlækni og tvo af dómurum hæstaréttar. Þess hefur verið farið á leit við dómara hæstaréttar, að þeir athuguðu, hvaða breyt. væru nauðsynlegar á löggjöfinni, til þess að hægt væri að reka hér hæli með sem beztum árangri, og ég get sagt, að nú fyrir nokkru síðan hefur dómsmrh. falið einum hæstaréttardómaranum, Þórði Eyjólfssyni, að gera frv. til. l. varðandi það efni. En það, sem vakað hefur fyrir þeim læknum og okkur öðrum, sem um þessi mál höfum fjallað, hefur verið í höfuðatriðum það, sem nú skal greina.

Komið yrði upp sérstakri Kleppsspítaladeild fyrir þá, sem reyndust svo mikið drukknir, að taka yrði þá úr umferð. Það segir sig sjálft, að það er engin meðferð á mönnum að hrúga þeim saman dauðadrukknum í fangahúskjallara og lítil líkindi til þess, að það yrði til að draga úr böli þeirra. Þá, sem taka þyrfti úr umferð, ætti því að flytja beint á þessa deild, og þar færi síðan fram á þeim rannsókn. Því er og haldið fram með fullum rökum sérfróðra manna, að ekki sé einungis þörf á einu slíku hæli, heldur fleirum.

Ég vildi með þessum orðum mínum vekja athygli hv. Alþ. á þessu aðkallandi nauðsynjamáli, og ég trúi ekki öðru en að öllum þingheimi sé ljós sú brýna þörf, sem hér er um að ræða. Ég skal svo láta þetta nægja um þessa hlið málsins, en víkja lítillega að annarri hlið þess, sem ekki aðeins varðar einstaklinga, heldur alla þjóðina, en það er hin gífurlega fjársóun og hörmungar, sem af áfenginu stafa. Ég ræði ekki svo mál þessi, að ég lýsi ekki yfir þeirri skoðun minni, að bann sé bezta úrlausnin, þótt mér hins vegar dyljist ekki öll þau vandkvæði, sem á því eru. En til þess að bann gæti náð fullum árangri, þyrfti þjóðarvilja, þjóðin þyrfti að velja það og vilja sjálf. Ég efast um, að sá þjóðarvilji sé nú fyrir hendi, en það þarf að skapa hann. Almenningsálitið verður að breytast.

Á Alþ. voru fyrir nokkrum árum sett l. um héraðabönn. Hæstv. núv. ríkisstj. hefur ekki séð sér fært að framkvæma l. þessi þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir, og ég vil minna á það, að s.l. sumar sendu ýmsir kaupstaðir landsins áskoranir um að fá innleitt bann á þeim stöðum, og voru till. þessar studdar af bindindisþingi. Hv. Alþ. hefur látið þetta sem vind um eyru þjóta og ekki gert neitt til bóta.

Innan skamms mun koma fram till. hér á Alþ. um héraðabönn. En svo að ég víki nokkuð að þeim, þá tel ég þau að mörgu leyti heppilega úrlausn, eins og málum er nú komið. Með þeim gætu þau héruð, sem vildu, komið á banni hjá sér, og væri það strax mikil bót frá því ófremdarástandi, sem hvarvetna ríkir nú í áfengismálum þjóðarinnar.

Ég hygg, að milli mín og flm. till. sé ekki mikill skoðanamunur í þessu máli, en ég tel vafasamt, að till. nái tilgangi sínum. Skömmtunin gafst engan veginn vel, og í öðrum löndum, þar sem þetta kerfi er haft, t.d. í Svíþjóð, þá er það mjög umdeilt.

Ég tel líklegt, að till. komi til n. þeirrar, sem ég á sæti í, og fæ ég þá tækifæri til að ræða hana nánar.

Ég get ekki látið hjá líða að fara hér nokkrum orðum um ræðu hæstv. fjmrh., hvað snertir lokun áfengisverzlunarinnar á Siglufirði s.l. sumar. Við höfum að vísu hvor sína heimildarmenn um ástandið á Siglufirði, og kann það að valda nokkru um skoðanamun okkar á ástandinu þar, en mér var tjáð, að ástandið í áfengismálunum þar hefði verið allt annað og betra eftir lokunina og að það sé flestra álit, að svo hefði verið.

Ég tel, að nauðsynlegt sé að setja nokkra löggjöf um meðferð ofdrykkjumanna. Þeir eru sjúklingar, sem þarfnast hælis- eða sjúkrahúsvistar.

Öllum er ljós sú drykkjuskaparóöld, sem herjað hefur landið að undanförnu, og það þarf því hinar skjótustu ráðstafanir til þess að stemma stigu við henni. Ég hygg, að ráðlegt væri að leita álits alþjóðar í þessu efni og láta hana greiða atkv. um, hvort hún vildi heldur héraðabönn eða algert bann.