08.11.1946
Sameinað þing: 8. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 175 í D-deild Alþingistíðinda. (4903)

266. mál, áfengisskömmtun

Flm. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. — Mál þetta hefur nú verið rætt og reifað nokkuð, en mér hefur ekki skilizt, hvaða úrlausn menn telja heppilegasta, en má vera, að það sé bann.

En mér er spurn. Var nokkuð gert til þess að láta skömmtunina fara sómasamlega úr hendi á sínum tíma? Ég hygg, að svo hafi ekki verið, og því sé engan veginn að marka þann árangur, sem með skömmtuninni náðist, og óhætt sé að vænta góðs af till. þeirri, sem ég flyt ásamt hv. þm. A-Sk. Við bendum þar m.a. á, að gefa ætti út áfengisbækur á svipaðan hátt og orlofs- eða vegabréfsbækur. Þegar áfengisbók væri tekin í notkun, ætti mynd af eiganda að vera fest í hana. Enginn ætti þá að geta fengið áfengi út á bókina annar en sá rétti eigandi, sem yrði þá að fara sjálfur með hana í áfengisbúðina. Einnig bendum við á, að enginn skyldi fá áfengisbók og þar með heimild til þess að kaupa áfengi yngri en 21 árs gamall, enda er það í samræmi við fyrirmæli 13. gr. áfengislaganna. Með því væri tryggt, að unglingar gætu ekki keypt áfengi.

Þá er það ýmislegt fleira, sem við bendum á og til bóta mætti verða, en mér virðist mótstaða hæstv. fjmrh. næsta undarleg, og lítur helzt út fyrir, að hann hafi litla löngun til að viðurkenna það, sem þó liggur í augum uppi, að verði að gera, sem sagt stemma stigu við ofdrykkjunni í landinu. Hins vegar mælir hann mjög með því, að reist verði hæli fyrir ofdrykkjumennina, og er í sjálfu sér ekkert við það að athuga, en það er aðeins ekki mergur þessa máls.

Ég get ekki tekið undir það né kallað það frambærileg rök að halda því fram, að hægt sé að koma í veg fyrir misbrúkun áfengis með því að beita valdi. Ég tel mig ekki hafa ástæðu til þess að svara ræðu hv. 6. þm. Reykv., en ég er sammála honum um það, að hið bráðasta þurfi að draga úr áfengisbölinu. Hann virðist ekki hafa trú á till. okkar, en heldur mjög fram héraðabanni. Ég verð að segja það, að á því hef ég litla trú, því alltaf mætti flytja áfengi frá öðrum héruðum, þar sem bann gilti ekki, og það yrði mjög erfitt, ef ekki algerlega ókleift, að stemma stigu við leynisölu og margvíslegu smygli. Það ber víst öllum saman um, að þetta mikla vandamál þarfnist skjótrar og ákveðinnar úrlausnar, og ég tel, að ríkisstj. beri að taka sér til aðstoðar fróða menn í þessum efnum.