15.11.1946
Sameinað þing: 12. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 176 í D-deild Alþingistíðinda. (4908)

213. mál, menntaskólinn í Reykjavík ( till.JJ)

Flm. (Jónas Jónsson):

Það er vonum seinna, að þetta mál, sem hér um ræðir, hefur verið lagt fyrir hv. Alþ., sem sé það, hvort Menntaskólinn í Reykjavík eigi að vera áfram í sínu gamla húsnæði eða byggja nýtt hús yfir hann á öðrum stað í bænum. Hæstv. menntmrh. hefur aldrei lagt þetta mál fyrir hið háa Alþ., en hann hefur hins vegar notað heimild, sem var til, um að veita allt að millj. kr. til húsabygginga handa menntaskólanum, til að kaupa lóð milli Laugarness og Klepps fyrir allt að 300 þús. kr. undir væntanlegan menntaskóla. Er þetta með öllu óhafandi, að svona sé framkvæmt, án þess að Alþ. hafi áður fjallað um það.

Í skólanum eru nú um 450 nemendur, og mun þess ósennilega langt að bíða, að þeir komist upp í 1000, og geta allir séð, hvílíkt bákn skólinn verður að vera til að rúma allan þann fjölda og hafa nægilegt af lestrarsölum, rannsóknarstofum og öðru, sem til heyrir, en það yrði hann að gera, ef gamli skólinn yrði lagður niður.

En þegar til átti að taka, þurfti bærinn á lóðinni að halda fyrir útgerðarmenn, og dró ráðh. sig þá að sjálfsögðu til baka. En nú hafa menn hans helzt komið auga á stað í Öskjuhlíðinni, þar sem Golfskálinn er, undir menntaskóla, og hafa jafnvel verið gerð frumdrög að teikningum af væntanlegu húsi, sem þar stæði.

Með þeim nemendafjölda, sem í skólanum verður, mun það óhjákvæmilegt, að mjög margir aukakennarar starfi við hann. Stæði skólinn þar, sem hæstv. menntmrh. hefur hugað honum stað, yrðu ýmsir þessara manna að taka strætisvagn tvisvar til þess að komast í skólann, þ.e.a.s. menn, sem búa í Austur- og Vesturbænum, yrðu fyrst að fara á Lækjartorg og svo þaðan í skólann. Yrði þetta mikil tímaeyðsla, og er mér kunnugt um það, þar sem ég var erlendis, að prófessorum var mjög illa við að þurfa að fara klukkutíma ferð með járnbraut eða meira til að komast til kennslu. Það mun og kosta bæinn mjög mikla upphæð á ári, ef nemendur þurfa alltaf að nota strætisvagna til að fara í og úr skóla En þannig er undirbúningurinn hjá hæstv. ráðh. um allt þetta mál. Hann hefur ekki látið hvarfla að sér að láta hv. Alþ. fylgjast með því. Ég býst við, að meira en helmingur hv. alþm. séu nemendur úr þessum skóla, og er ósennilegt, að þeir beri eigi þann ræktarhug til hans, að þeim sé eigi sama um, hvað af húsinu verður. Þá má og minna á það, að þetta er eina gamla, opinbera byggingin í bænum auk dómkirkjunnar. Þar sat Alþ. alla þingtíð Jóns Sigurðssonar. Nú á að leyfa hverjum sem er að braska með þessa byggingu. Hefur heyrzt, að nota ætti hana fyrir þingmannaheimili eða forsetaskrifstofu eða fyrir hæstarétt. eða sem sagt fleygja henni í hvern sem vill. Ef slíkt og því líkt nær fram að ganga, verður það óafmáanlegur blettur á íslenzkri menningu.

Nú er það mála sannast, og munu allir viðurkenna það, að við skólann þarf að bæta með tilliti til þess gífurlega nemendafjölda, sem stefnt er að. En bak við skólahúsið er stór lóð með allmörgum húsum, en flest þeirra eru gömul timburhús, að undanteknum einum allstórum sal, sem K.F.U.M. á, en ég held mér sé óhætt að fullyrða, að því félagi sé ekki fast í hendi með hann og það sé nú að leita fyrir sér með annað húsnæði. Mundi þá mega nota þennan sal sem lestrarsal.

Ef til vill þyrfti smábreytingar að gera á orðalagi till., þar sem talað er um eignarnám á lóðum og húsum. Málið fer væntanlega til hv. fjvn., og getur hún þá gert þær breyt., er nauðsynlegar kunna að vera.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða um þetta, en legg til, að umr. verði frestað um málið, þar til að það hefur verið athugað í n.

Ég legg svo til, að málinu verði vísað til fjvn.