10.12.1946
Sameinað þing: 16. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 187 í D-deild Alþingistíðinda. (4920)

269. mál, héraðabönn

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Í ræðu hv. 1. flm. þessarar till. var dálítið einkennilega að orði komizt, a.m.k. fannst mér það, ef ég hef heyrt rétt það, sem þessi hv. þm. í sinni stúkuræðu var að segja. Ég skildi þennan hv. þm. þannig, að hann segði, að Alþ. Íslendinga væri versta hreiðrið, hvað snerti áfengisneyzlu í landinu. Ja, ég veit nú satt að segja ekki, hvað öðrum hv. þm. sýnist. En ég verð að segja það, eftir að ég er búinn að vera hér sem þm. í rúma tvo tugi ára og hef kynnzt hv. alþm. svona upp og niður, bæði þeim hv. núverandi þm. og einnig mörgum, sem ekki eru hér nú, að hafi ég heyrt þetta rétt, þá sé hér mjög mikið ofmælt. Og ég tel, að þessi hv. þm., sem er nú nýkominn hér á þing, hann þurfi að rökstyðja og sanna slík ummæli, ef hann leyfir sér að halda því fram í alvöru, sem mér virtist hann gera um þetta, því að þegar talað er um Alþ. Íslendinga, þá er með því vitanlega átt við alþm. upp og ofan. Ég á eftir að heyra það sannað af munni þessa hv. þm. og með rökum, að það sé hægt að segja það um alþm. yfirleitt, að stofnun sú, sem þeir byggja upp, hæstv. Alþ., sé gróðrarstía áfengisneyzlu í landinu, eins og mér virtist þessi hv. þm. vilja halda fram. Að því tilskildu, að hv. síðasti ræðumaður hafi meint þetta, krefst ég þess, að hér séu færðar fram þessar sannanir og þau vitni, að óræk séu. Ég vil ekki fyrir mitt leyti sem alþm. taka við svona hroðalegum sleggjudómi frá nýkomnum hv. þm., þó að munnhákur sé. Það er ekki heldur neinn styrkur í því fyrir bindindismálin í landinu, að boðberar bindindisins, hvort sem er utan þings eða innan, hagi orðum sínum þannig, þegar þeir flytja mál bindindisins á landi hér, að þeir sælist eftir því að meiða annaðhvort einstaka menn eða stóran hóp manna. Að vísu munu flestir vera svo þroskaðir að láta ekki málefnin gjalda slíkra ofláta, sem trana sér fram í það að hafa málfærslu á hendi. En hitt er rétt, að það er svo í hverju máli óneitanlega, að málfærslan hefur nokkur áhrif.

Nú munu flestir þess fullvissir, að mikil þörf sé á að draga úr áfengisneyzlu í landinu. En það þarf að gera með skynsamlegum ráðstöfunum og á þann hátt, að ekki sé fleygt fram svo hroðalegum ádeilum, að jafnvel það skyggi á erindið, sem verið er að flytja. Ég fer þess vegna fram á það við þennan virðulega hv. flm. þessa máls, að hann færi nokkur full rök fyrir þessari fullyrðingu sinni og þeirri sök, sem hann hér hefur lýst á hendur Alþ. og þar með á hendur öllum þeim, sem á Alþ. sitja. Minna má það ekki vera, þegar svona orðum er kastað hér fram og enginn fyrirvari á því hafður að neinu leyti. — Ég bíð svo átekta að heyra þau vitni, sem þessi hv. þm. færir til þess að sanna það, að alþm. yfirleitt séu mestu drykkjumenn landsins og þar af leiðandi, að Alþ. sé versta gróðrarstía áfengisneyzlu í landinu.