10.12.1946
Sameinað þing: 16. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 194 í D-deild Alþingistíðinda. (4929)

269. mál, héraðabönn

Flm. (Hannibal Valdimarsson):

Ég hafði vonazt eftir, að hæstv. forseti mundi láta sér nægja að tvítaka það, að hér hefði enginn maður flutt ræðu fullur síðan í haust, og bjóst við, að hann mundi láta bíða að segja það í þriðja sinn, þangað til haninn galaði. — Ég ætla ekki að fara út í þetta, en æskilegt væri, að forseti bæri sannleikanum, en ekki lyginni, vitni úr forsetastóli.

Ég tel það hafa meira að segja, ef þm. flytja ræðu drukknir, heldur en ef alþýðumaður sést drukkinn. Þó eru þeir teknir og fluttir í fangahúsið. Það er ekki samboðið löggjafanum að sinna starfi sínu í sama ástandi og menn eru teknir fastir fyrir og settir í tukthús. Ég vil benda á það, að eins og þm. eiga ekki að mæta drukknir, eins þykir mér það ósamboðið kennara að mæta drukkinn í kennslustund og ósamboðið presti að mæta drukkinn í stólinn. Þetta sýnir það, að ábyrgðin er á fyrirmönnunum, á þinginu. Þetta hafa þeir ekki athugað sjálfir, og framkoma þess forseta, sem vill ekki bera sannleikanum vitni, sýnir, að þm. gera sér ekki ljósa þá margföldu ábyrgð, sem á fyrirmönnum þjóðarinnar hvílir, ef hér á að skapast heilbrigt almenningsálit.