24.05.1947
Sameinað þing: 59. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 198 í D-deild Alþingistíðinda. (4941)

269. mál, héraðabönn

Sigurður Kristjánsson [frh.]:

Herra forseti. — Maður verður að taka upp þráðinn, þar sem hann var síðast. Ég hafði minnzt á það í upphafi ræðu minnar, að ég teldi, að það væri ekki á rökum byggt ýmislegt, sem er hér í grg. þessarar till., og ég vil nú koma aftur að því máli.

Ég geri ráð fyrir því, að það séu ekki skiptar skoðanir um það, að æskilegt væri, að Íslendingar kynnu að fara með vín, ef þeir á annað borð neyta þess. Um hitt eru frekar skiptar skoðanir, hvort hægt sé að koma í veg fyrir, að nokkrir áfengir drykkir fáist í þessu landi. Það er undarlegt, að það skuli geta verið ágreiningur um þetta, því að það er búið að gera mjög ákveðnar till. í þessa átt, ekki aðeins hér á Íslandi, heldur og í öðrum löndum og meðal þeirra þjóða, sem meiri tök hafa á því að hafa betri skipan á málum sínum en við Íslendingar, sem höfum ákaflega mikla strandlengju og mikla landvíðáttu, en ákaflega fáa menn til þess að gæta að því, að l. og reglum sé framfylgt. En þessi skoðanamunur verður sjálfsagt aldrei brúaður. Þeir, sem alltaf eru að fitja upp á þessu banni, — þá brestur annaðhvort dug eða getu til þess að geta dæmt um þessa hluti, — virðist þó vera auðvelt að fella dóm um það, hvers vegna vínnautn Íslendinga er meira áberandi nú en hún var áður en bannið komst á. Virðist vera auðvelt að gera sér grein fyrir því, að ástæðurnar eru aðallega tvær. Fyrst og fremst sú, að menn hafa miklu meiri fjárráð nú en íslenzka þjóðin nokkurn tíma hafði áður, og auðvitað er þetta ástæðan fyrir því, að menn leyfa sér marga hluti, sem þeir gátu ekki leyft sér áður, bæði um kaup áfengra drykkja og annað. Hin ástæðan er auðvitað sú, að það virðist vera keppikefli íslenzku þjóðarinnar að veita viðnám gegn hömlum og banni, sem hún viðurkennir ekki að sé á viti eða á rétti byggt. Við verðum að gæta þess, að íslenzka þjóðin er nýbúin að slíta af sér hlekkina, hún hefur verið undirokuð þjóð, og það er ekki nema eðlilegt, að þegar hún er búin að slíta af sér þessi bönd, þá verði dans hennar nokkuð klunnalegur á stundum, en þeir menn, sem sífellt eru með þessar bannumþenkingar, vita ekki um þessa hluti, og þess vegna ætla ég ekki að fjölyrða um það.

Ég gat þess í upphafi ræðu minnar, að það væri ekki rétt, sem hv. frsm. sagði í ræðu sinni, að Íslendingar neyttu meira áfengis en aðrar þjóðir, en hitt held ég, að mönnum sé alveg ljóst, að Íslendingar fara miklu verr með áfengi en gerist hjá öðrum þjóðum. Þetta liggur að nokkru leyti í því, sem ég sagði áðan, að skapferli Íslendinga mun vera þannig, að þeir eru nokkuð taumlausir, en höfuðástæðan liggur í þeirri skipun, sem er á útlátum áfengis og þeim eilífu tilraunum, sem gerðar eru til þess að segja Íslendingum fyrir verkum í þessum sökum. Við vitum um þessar tilraunir, sem íslenzka þjóðin hefur gert að áeggjan haftamannanna. Við vitum, að eftir bannið var vínnautn Íslendinga komin í ósiðlegra horf en nokkru sinni áður. Við vitum, að þá spratt hér upp sérstök stétt manna, sem voru smyglarar, og þetta var árangur af erfiði bannmanna. Síðan kom bruggið. Menn fóru að koma ölvaðir í kaupstað, í staðinn fyrir að áður komu menn ölvaðir úr kaupstað. Þá voru framleiðslustöðvarnar aðallega í sveitunum, og menn komu í kaupstaðinn til að selja áfengi. Nú hafa, eins og kunnugt er, verið sett mikil höft í þessum efnum, sem hvetja menn til að neyta áfengis. Nú má enginn maður kaupa minna áfengi í einu en eina flösku, og menn mega ekki ráða, hvar þeir neyta áfengis, þeim eru lokaðar allar dyr. Það er eins og einn maður sagði, að íslenzka ríkið selur mönnum brennivín, en bannar mönnum að drekka það annars staðar en á götunni. — [Fundarhlé.]

Þegar fundarhlé var gert og ég varð að fresta ræðu minni, hafði ég minnzt á áhrif þeirra hafta, sem skoðanabræður flm. þessarar till. hafa komið á. Ég hafði minnzt á vínsmyglið, er fylgdi banninu, síðan á bruggið, er banninu var aflétt, og ætti það ófremdarástand að vera lærdómsríkt fyrir þá, sem vilja koma í veg fyrir, að þjóðin hrindi af sér þeirri ómenningu, sem þessir menn hafa leitt yfir hana. Eftir að banninu var aflétt, var tekin upp skömmtun með áfengisbókum, og sú öld varð bæði áberandi og minnisstæð. Þá voru launsalar um byggðir og smöluðu fólki til að láta það taka út á áfengisbækur sínar, og það var ákaflega fríð fylkingin hér í Reykjavík úti fyrir vínbúðinni og tilkomumikil sýning. Mest bar þar á launsölunum, sem ýmist héldu í fórnardýr sín eða kölluðu í þau, líkt og þeir væru að draga fé sitt í dilka, og hrópin og köllin kváðu við eins og í fjárréttum. Þetta var eins og fyrr árangurinn af aðgerðum hinna spöku manna, sem þykjast geta sagt þjóðinni fyrir verkum í þessum efnum. Þegar þetta fargan var orðið regluleg þjóðarskömm, var því loks aflétt, en áfengi var aðeins selt í einni búð í bænum, og svo mikil var þyrpingin þá í Skúlagötunni, að naumast mátti um hana aka. Og ekki mátti afhenda þetta nema í skítugasta húsi bæjarins, og þeir, sem sóttu sitt vín, áttu á hættu að lenda í stimpingum í þvögunni og máttu eiga þar vísa ásókn helztu róna bæjarins, sem þvældust þarna um til að sníkja. Og allt var þetta árangur af aðgerðum skoðanabræðra flm. þessarar till. Einn ráðh. tók sig þá til og reyndi að dreifa þessum söfnuði með því að láta opna annan útsölustað. Við það hvarf þessi ómenning að mestu leyti, og sennilega væri allt í lagi, ef útsölustaðirnir væru fleiri.

Einn árangurinn af starfsemi hinna sjálfkjörnu bindindispostula er sá, að vínsala er aðeins á einum veitingastað í bænum, Hótel Borg, svo að ef fólk vill skemmta sér og kaupa flösku á kaffihúsum eða böllum, þá er það ekki hægt, nema það fari á Hótel Borg, og engin leið er að fá að dreifa vínsölustöðunum. Það er raunar ekki svo að skilja, að viss vínsala sé ekki á öðrum samkomustöðum í bænum. Það standa svona þrír eða fjórir bílar úti fyrir dyrum annarra samkomuhúsa, þegar samkomur er þar haldnar. Þetta er allt gert fyrir launsalana. Og þarna ná menn sér í vín á okurverði og drekka það í skúmaskotum og kömrum eða álíka stöðum. Þar er þambað af stútnum í mesta fáti og látum, og síðan er rambað þaðan út, er menn eru búnir að tæma sinn bikar. Einn gengur öskrandi um göturnar. Annar kastar snjó, ef hann er að fá, og kastar honum af handahófi í glugga yfir höfðum sofandi fólks, þar sem kona er kannske innifyrir með veikt barn. Sá þriðji leikur sér t.d. að því að snúa koparhandföng af hurðum, rekur síðan upp ógurlegt Indíánaöskur o.s.frv. Þessir menn eða þessi maður er í raun og veru umboðsmaður þeirra, sem telja þessi útlát á víni vænlegust til að styrkja þjóðmenningu Íslands. Það mætti tala langt mál um þetta, en þess þarf ekki, það er fyrir allra augum og eyrum.

Flm. þessarar till. taka það fram í grg., að Stórstúka Íslands hafi fyrir síðustu alþingiskosningar sent öllum frambjóðendum fyrirspurnir um það, hvort þeir vildu stuðla að því, að héraðabönnin kæmu til framkvæmda, og í öðru lagi, hvort þeir vildu stuðla að algeru áfengisbanni. Enn fremur segir þar, að 50 frambjóðendur hafi svarað þessum fyrirspurnum, 48 þeirra játandi, en 2 hafi verið eitthvað órólegir og stiklað til og frá eins og bjarndýrin, sem Ibsen talar um, að kennt hafi verið að dansa með því að hita undir þeim járn. Þegar þau fundu hitann undir fótum sér, fóru þau að dansa. Þessir tveir menn hafa dansað einna lakast, þegar kjósendaóttinn steig upp í iljar frambjóðendunum og kom þeim til að dansa. Þessi er boðskapur skoðanabræðra flm. fyrir hverjar kosningar, sífelldar hótanir til manna. Það liggur beinlínis fyrir að gera ráðstafanir til að vernda þm. fyrir slíkri áleitni. Þessir menn ætla að reyna að setja hnífinn á hálsinn, og margir hafa guggnað, en ég segi fyrir mitt leyti, að ég hef aldrei anzað þessum orðsendingum. Ég þarf ekki að spyrja þessa menn að því, hvaða skoðun ég á að hafa.

Við heyrðum nú rök hinna 50 við 1. umr. þessa máls. Þá féllu mörg einkennileg orð hér í þinginu hjá talsmönnum bindindisins og siðgæðisins. Þeim þótti viðeigandi að segja þm. svo til syndanna og brigzla þeim og tala svo ósæmilega, að hér féllu þau orð, að ég hef ekki heyrt slík brigzlyrði hér á Alþ. fyrr, sem þm. vita, að voru og eru ósannindi. Forsetar þingsins voru allir lýstir lygarar, og svo þykjast þessir menn geta sagt mér fyrir, hvernig ég eigi að hegða mér. En það er ekki von á góðu, er menn dansa eftir pípu annarra, sem þeir eru hræddir við.

Lýðræðisskipulag verður aðeins borið uppi af menntaðri þjóð, þó að fátt sé að vísu svo gott, að gallalaust sé. Við teljum, að það eigi að þroska menn upp í að bera uppi þetta fyrirkomulag, en það verður ekki gert með því að hræða lífið úr þm. Menn skiptast í flokka um mál og stefnur, og það á svo að vera, og þær stefnur eiga að koma fram fyrir almenning og vinna sínum málstað fylgi. Menn bjóða sig fram fyrir hönd ýmissa flokka, og þeir menn hafa ákveðnar þjóðmálaskoðanir. En til eru þeir menn, sem hafa ekki þær skoðanir né neinar lífsskoðanir, sumpart vegna sljóleika, en sumpart vegna þess, að þeir fylgja aðeins þeim, sem þeir hafa eitthvað upp úr. Það eru þessir menn, sem frambjóðendurnir keppa um, þeir lausu á vellinum, sem annaðhvort hafa engar skoðanir eða eru til kaups. Þessir menn ráða svo kannske skoðun þm. Það er leitt til þess að vita, að menn, sem telja má lélegasta hluta þjóðfélagsins, skuli eiga að ráða mestu um skoðanir og framkomu þm. Mér dettur ekki í hug, að allir, sem svöruðu fyrirspurnum stórstúkunnar játandi, séu þeirrar skoðunar, en þeir hafa glæpzt til þess, af því að hópar manna í félögum og þess háttar hafa hótað þeim, og svo hafa þeir yfirgefið skoðun sína.

Ég var einu sinni á fundi hjá bannagent, sem kostaður var af sálsjúkum félagsskap á Norðurlöndum til að agitera fyrir banni í Ameríku. Hann lýsti aðferðunum vel, ógnunum um, að menn yrðu ekki kosnir, ef þeir fylgdu ekki banninu, og því um líkt. Og með okkar fyrirkomulagi er líka alltaf verið að dorga og dorga eftir lélegasta hluta fólksins, en skemmtilegt er það ekki fyrir þingmannsefni að hafa skipti á sannfæringu sinni og atkv. manna, sem ekkert vit hafa á þjóðmálum og þeim málum, sem efst eru á baugi. Þó að þetta efni sé ótæmandi, víl ég nú fara að stytta mál mitt. En varðandi héraðabönnin þá er það eðlilegt, eins og ég hef sagt áður, að menn ráði því sjálfir á hverjum stað, hvort þeir vilja hafa þar opna vínsölu eða ekki. En menn mega ekki loka augunum fyrir afleiðingunum. Segjum, að einn kaupstaður samþykkti héraðsbann hjá sér. Dettur nokkrum í hug, að þar yrði ekki vínútsala eftir sem áður? Jú, það yrði matur fyrir launsalana og knæpur þeirra, En munurinn yrði sá, að í stað þess, að maður gæti drukkið vín sitt frjáls úr kristalsglösum á veitingahúsum og haldið hóflega drukkinn heim til sín, þá færi hann nú æpandi og organdi heim í skjóli haftanna, og í stað þess að kaupa vín sitt í vistlegri búð, þá yrði maður að fara í launkofa með það. Sölu væri breytt í ólöglega sölu og frjálsri hófdrykkju í drykkjuskap. Þetta mál þarf að meðhöndlast af meiri víðsýni en þeirra, sem haldnir eru þeirri sálsýki, sem bannið leiddi af sér. Svo mikið er víst.

Ég legg svo til, að till. verði vísað til ríkisstj.