05.12.1946
Sameinað þing: 15. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 202 í D-deild Alþingistíðinda. (4945)

270. mál, bílvegur um Holtamannaafrétt og Sprengisand

Flm. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér, ásamt hv. þm. S-Þ., að flytja till. til þál. á þskj. nr. 128, um athugun á leiðinni um Holtamannaafrétt og Sprengisand. — Það er kunnugt, að mikið er ferðazt milli Suðurlands og Norðurlands, Leiðin um Borgarfjörð, Holtavörðuheiði og Húnavatnssýslur og áfram til Akureyrar er um 460 km., en leiðin um Holtamannaafrétt og Sprengisand til Akureyrar er 340 km., hvort tveggja talið frá Reykjavík. Þarna munar því um 120 km. á þessum vegalengdum. En á þessum leiðum munar vitanlega miklu meiru á milli Suðurlands og Norðurlands, ef leiðinni milli Suðurlands og Reykjavíkur er sleppt.

Það er vitanlegt, eins og fólk ferðast mikið milli landsfjórðunga, að mikill sparnaður mundi vera í því, bæði viðkomandi benzíneyðslu og sliti á vélum farartækja o.fl., ef hægt væri að fara þessa leið á milli Suðurlands og Norðurlands um Sprengisand yfir sumarmánuðina.

Þessi þáltill. fer ekki fram á annað en að það sé athugað, hvort tiltækilegt sé kostnaðarins vegna að gera leiðina færa bifreiðum á þessari áminnztu leið yfir sumarmánuðina. Ég þekki mikinn hluta þessarar leiðar af eigin raun, og mér sýnist, að það sé ákaflega lítið, sem þarf að gera, til þess að þessi leið sé fær bifreiðum yfir sumarmánuðina Víðast hvar á þessari leið eru harðir sandar og vegurinn sjálfgerður. En það eru torfærur á leiðinni, aðallega ein, Tungnaá, og yrði vitanlega að brúa hana, til þess að hægt væri að fara þessa leið á bifreiðum. — En það liggur nú fyrir, að gamla brúin verði tekin af Þjórsá, og ég get látið mér detta í hug, að tiltækilegt væri að flytja þá brú á Tungnaá og nota hana þar, því þó að Þjórsárbrúin, sem nú er, nægi ekki fyrir þá miklu þungaflutninga, sem alltaf verða að fara yfir Þjórsá, þá gæti hún nægt yfir Tungnaá, því að tiltölulega mjög lítill þungaflutningur yrði yfir Tungnaá, og þó að Þjórsárbrúin sé of löng á Tungnaá, mætti stytta hana. Ætla mætti, að þessi leið um Holtamannaafrétt og Sprengisand yrði ekki fyrir þungaflutninga, heldur ferðafólk. Brúarstæði á Tungnaá er ágætt: — Önnur torfæra er á þessari leið, Fjórðungakvísl, sem er fremur lítið vatnsfall og á mörgum tímum árs afar lítil, þannig að oft mun vera hægt að fara með bifreiðar yfir hana. En það koma vitanlega oft. vextir í kvíslina, svo að óhjákvæmilegt er að brúa hana. En þar dygði aðeins lítil brú, sem ekki þyrfti að kosta mikið.

Við flm. ætlumst til þess, að vegamálastjóri verði látinn gera athugun á þessu, sem í þáltill. felst, eða verkfræðingar hans, og geri ég ráð fyrir, að sú athugun þyrfti ekki að hafa ýkja mikinn kostnað í för með sér. Ég geri ráð fyrir, að ef verkfræðingur, sem þetta gerði, færi með jeppabifreið, gæti hann komizt alla leið á þeim bíl með því að fá hjálp til þess að ferja bifreiðina yfir Tungnaá. En þar er svo stór bátur, að hægt væri að ferja þar jeppabifreið yfir á þeim báti.

Ég ætla ekki að orðlengja þetta frekar, en vonast til, að hæstv. Alþ. geti fallizt ~á að samþykkja till. um að láta þessa athugun fara fram. Óska ég, að till. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. allshn.