05.12.1946
Sameinað þing: 15. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 203 í D-deild Alþingistíðinda. (4946)

270. mál, bílvegur um Holtamannaafrétt og Sprengisand

Eiríkur Einarsson:

Herra forseti. Oft er það svo hér á hæstv. Alþ., þegar rætt er um svona mál viðkomandi samgöngumálum í einhverju héraði, að þá rísi nágrannarnir á fætur og segi: Ja, það er nú eins gott að leggja þessa samgöngubót mín megin. Þetta þekkjum við allir og vitum, hvað það þýðir. Eftir því ætti ég þá sem fulltrúi Árnesinga að segja: Því er ekki eins gott að athuga veginn norður yfir óbyggðirnar vestar?

Rangæingaleiðin norður í Bárðardal er nú að uppgötvast, og eins og í grg. þáltill, er gefið í skyn, er aðalþröskuldurinn á þeirri leið Tungnaá. Nú segi ég, þó að ég sé eins breyskur og aðrir menn að vilja heldur láta samgöngubætur koma mín megin, þá vil ég taka það fram, að Rangæingaleiðin er meir en svo athugunarverð. Hún er breiðari, jafnari og þurrlendari en ef farið væri vestar og hentug bifreiðum, þó að á henni sé sá farartálmi að vísu enn, sem er Tungnaá. En þegar Þjórsá verður endurbrúuð, væri athugandi, hvort ekki mætti nota gömlu brúna af Þjórsá á Tungnaá. Í þessu sambandi vil ég leggja áherzlu á, að Sunnlendingar og Norðlendingar eiga rétt á því að fá þarna góðar samgöngubætur, og það er ekki annað, sem farið er fram á í þessu máli, en það, sem að beztu manna yfirsýn þykir réttast, hvað sem metnaði manna fyrir sín héruð líður. Ég held því, að Rangæingar búi yfir réttlátri og sanngjarnri kröfu, ekki aðeins hvað snertir samgöngubætur milli landsfjórðunga, heldur að því er snertir samgöngubætur að sínu afréttarlandi. — Ég sé, að stuðullinn er farinn að hreyfast í hendi hæstv. forseta. Það minnir mig á, að inni á fjalllöndum Rangæinga hreyfir sauðféð sig á öðrum árbakkanum víð Tungnaá ár eftir ár og áratug eftir áratug, en fær ekki yfir komizt, af því að það vantar bát eða brú, og ferst kannske að síðustu í ánni, þegar það er búið að bíða tvo til þrjá daga sílað á árbakkanum. Og þessa þarf að gæta; þegar þessi þáltill. er afgreidd á Alþingi.