12.12.1946
Sameinað þing: 17. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 204 í D-deild Alþingistíðinda. (4957)

271. mál, dýrtíðarvarnir

Flm. (Jónas Jónsson):

Ég var nýlega staddur á mannfundi, þar sem var margt manna. Talað var um framfaramál. Þá kom þar fram ungur maður, ættaður norðan úr landi, en búsettur hér í bænum og sagði: „Það er ákaflega fallegt að hugsa um þessar framfarir, en það er einn hlutur, sem er nauðsynlegri, Nú er svo ástatt í landinu, að enginn atvinnuvegur ber sig, ekki landbúnaður, ekki iðnaður og ekki sjávarútvegur. Meðan ástandið er þannig, er ekki til neins að ræða um það, hvað eigi að gera af framförum. Við verðum fyrst að ráða fram úr því að fá atvinnuvegina til að bera sig.“

till., sem ég ber hér fram, er ein af þeim mörgu uppástungum um það, hvernig á að gera atvinnulífið aftur starfhæft. Hér á Alþ. þarf ekki að rökstyðja það, að þessa er mikil þörf. Hæstv. atvmrh. er nýbúinn að leggja fram frv. varðandi útveginn, þar sem hann gerir ráð fyrir ríkisábyrgð á rekstri hans. Og ég sé í einu útbreiddasta blaði bæjarins, að þessi ábyrgð er talin nema um 50 millj. kr. Um þetta get ég ekki sagt, en ég veit, að hinn vísi ráðh. ber ekki fram frv. um ríkisábyrgð, ef vá væri ekki fyrir dyrum í þessu efni. Þetta kemur einnig mjög vel heim við klausu, sem stóð í einu stórblaðanna fyrir nokkrum dögum. Þar segir ritstjórinn: Í Noregi segjast fiskimenn þurfa að fá 30–40 aura fyrir hvert kg af nýjum fiski, hér þurfa þeir 60–70 aura.

Sýnir þetta ekki ljóslega, hvers konar dýrtíð er á Íslandi? Það er smáræði, sem nágrannaþjóðir okkar þurfa að fá fyrir fiskinn á móts við okkur. En út úr þessu er ekki nema ein leið. Við verðum að lækka tilkostnaðinn í landinu, þangað til hann verður kominn það niður, að við verðum samkeppnisfærir. Þeirri leið, sem ég bendi hér á, mætti kannske breyta. En hún er um það, að við eigum að lækka allt hjá okkur, sem er of hátt, niður í það, sem er hjá nágrannaþjóðum okkar. Þótt það nægi kannske nú, að landssjóður gangi í ábyrgð fyrir alla framleiðslu landsins og tapi á því, þá er ekki hægt að gera það oft, og við stöndum ekki betur að vígi næst, heldur yrði þá aðeins búið að eyða fjármunum til einskis. Sannleikurinn er sá, að þjóðin veit ekki um það, hvernig ástatt er í raun og veru, veit ekki, hvað hættan er mikil. Ég hef stungið upp á því, að aflað væri gagna, er sýndu glögglega framleiðslukostnaðinn í Englandi og Skandinavíu, hvað menn fá í laun, hvað kaupið er og hvað dýrtíðin væri mikil, einnig hvað húsaleigan væri og skattarnir, miðað við vissar tekjur. Þá sæi þjóðin í skuggsjá, hvernig hún er stödd. Nú er það svo, að einn lítri af mjólk í Svíþjóð kostar 50 aura. Við vitum, hvað mjólkin kostar hjá okkur. Þetta er aðeins einn liðurinn í þeim hlutföllum, sem eru nú milli kaupsins og kostnaðarins hér á landi og annars staðar. Ég verð að segja það, þótt ég sé þm. fyrir landbúnaðarkjördæmi, að ég sé enga leið til þess, að bændur á Íslandi geti til lengdar fengið þrisvar sinnum meira fyrir mjólk, sem þeir framleiða, heldur en bændur í nágrannalöndunum. Við höfum engan þann töfragrip í höndum okkar, sem gerir það að verkum, að við getum haldið okkar framleiðslu í miklu hærra verði en nágrannar okkar, Svíar. Þetta er heldur þvert á móti, þar sem Svíar eru rík þjóð með mikla og margþætta framleiðslu. En samt treysta þeir sér ekki til að hleypa dýrtíðinni upp meira en þetta.

Nú er það svo, að þótt þessi till. yrði samþ. og stjórnin, hver sem hún nú verður, gerði ekki annað en að afla sér upplýsinga þessara og leggja þær fyrir landsfólkið, svo að við sæjum, hvernig grundvöllurinn væri undir daglegri eyðslu þeirra þjóða, sem við eigum skipti við, þá hefði mikið áunnizt.

Það getur vel verið, að sú leið, sem ég hef stungið upp á, þyki ekki heppileg, en aftur á móti náist samkomulag milli stétta og félaga og sumpart með löggjöf um það, að eyðslu okkar skuli þrýst niður í samræmi við það, sem gerist hjá þeim þjóðum, sem við eigum skipti við. Ef til vill getur till. þessi leitt til þess, að farnar verði aðrar leiðir, sem þættu betri.

Ég held, að ástæðan til þess, að ég tók mig til og lagði þessa till. fram, sé sú, að ég var um daginn að tala við pakkhúsmann hér í bænum, en hann hafði áður verið bóndi uppi í sveit. Hann sagði: „Hvers vegna segið þið í þinginu ekkert orð af viti um það, sem allt veltur á, dýrtíðina?“ Ég hugsaði mér, að bezt væri að hrinda ámælinu og koma með eina litla till. um þetta mál. Það gæti þó ef til vill orðið til þess, að fram kæmu miklu betri till., því að þetta er rétt, við höfum ekkert lagt fram af viti í þessu máli, þótt dýrtíðin sé að drepa okkur alla. Og hún er að drepa sjálfstæði okkar og gera okkur að leiguliðum, enda horfa sumir þeir útlendingar, sem skipti við okkur eiga, á okkur og undrast yfir því, að svo ágæt þjóð sem Íslendingar eru skuli hafa svo gaman af að reikna í svona háum tölum. Þetta er ekki í samræmi við neitt hjá öðru fólki.

Ég sé svo ekki ástæðu til að halda lengri fyrirlestur um þetta. Ég er að létta á samvizku minni, svo að ekki sé hægt að segja, að enginn maður leggi fram till. um það, hvernig eigi að klifra niður stigann, því að það er nauðsynlegt.