16.01.1947
Sameinað þing: 23. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 211 í D-deild Alþingistíðinda. (4971)

332. mál, lögræði

Flm. (Hannibal Valdimarsson):

Mér var með öllu ókunnugt, þegar ég flutti þessa till. í haust, að hæstv. dómsmrh. hefði falið Þórði Eyjólfssyni endurskoðun þessara l., og mér er gleðiefni, að slík endurskoðun skuli vera látin fara fram af ágætum sérfræðingi í lögum. Ég er þó ekki viss um, að sú endurskoðun fullnægi alveg þeim tilgangi, sem fyrir mér vakti, sem var sá, að beita þessum l. á þann hátt, sem við ætti, þegar um væri að ræða nauðsyn þess að ráðstafa andlega eða líkamlega vanheilu fólki gegn vilja þess. Ég legg til, að n, verði skipuð þremur sérfræðingum, einn þarf að sjálfsögðu að vera sérfróður í lögum, en fyrir mér vakir, að einnig þyrfti að hafa hönd í bagga sérfræðingur í heilbrigðismálum, og hefði ég talið eðlilegt, að landlæknir eða einhver læknir, sem hann benti á, yrði nm. í slíkri n., sem hér er lagt til, að skinuð verði. Ég hafði jafnvel talið æskilegt, að sérfræðingur í taugasjúkdómum, t.d. Helgi Tómasson á Kleppi, hefði átt sæti í þessari n., ef skipuð yrði, vegna þess að hér er um að ræða lagasetningu, sem oft kæmi til með að snerta andlega og líkamlega sjúkt fólk.

Hæstv. dómsmrh. segir, að endurskoðunin hafi verið falin Þórði Eyjólfssyni, að nokkru leyti með tilliti til þess, sem um gæti í þessari till. Skilst mér af þeim ummælum, að ekki hafi verið lögð rík áherzla á við hann að framkvæma endurskoðunina með tilliti til þeirra hluta, sem hér er lögð sérstök áherzla á. Ég held því, að n. ætti að athuga, hvort ekki eigi að skipa n. manna til þess að eiga hlut að þessari endurskoðun, og þar sem vitanlegt er, að rannsókn Þórðar Eyjólfssonar yrði hinn ágætasti grundvöllur fyrir slíka n., þá þyrfti sennilega ekki að gera því á fæturna, að lagalegu hliðina þyrfti að umbæta, heldur aðeins hitt, að rannsaka, hvort nægilega vel og vandlega sé séð fyrir hinu heilbrigðilega sjónarmiði, sem fyrir mér vakti ekki hvað sízt með flutningi till. En þegar álit Þórðar Eyjólfssonar liggur fyrir, þá sést, hvort hann hefur haft heilbrigðisérfræðinga í ráðum með sér, og ef svo er ekki, þá tel ég, að á einhvern hátt, með nefndarskipun eða á annan hátt, verði að sjá fyrir þeirri hlið málsins jafnvel og hinni lagalegu.