16.01.1947
Sameinað þing: 23. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 214 í D-deild Alþingistíðinda. (4980)

274. mál, millilandasiglingar strandferðaskipa

Flm. (Jónas Jónsson):

Þessi till. lýtur að þeirri breyt., sem nú er í aðsigi á siglingum okkar í sambandi við hinn mikla skipastól, sem er verið að koma upp. Það er svo komið, að eftir skamma stund verða fullsmíðaðir í Englandi tveir strandbátar fyrir íslenzka ríkið, eitt skip var komið áður og eitt álíka gott kemur í haust. Þá er sennilega svo vel um búið frá hálfu mannfélagsins, að ekki sé hægt að gera ráð fyrir, að bæta þurfi við stærri skipum. Flóabáta mun þó þurfa á ýmsum stöðum, en við erum, þegar þessi skip eru komin, svo vel staddir með skipakost, að miklar líkur eru til, að skáka megi öðru stærra skipinu eitthvað frá á vissum tímum og undir vissum kringumstæðum, og að því lýtur till. mín, að farið verði að undirbúa, að svo megi gera til léttis fyrir ríkissjóð og til góðs fyrir þjóðina. Það má nærri geta, að það hefur mikinn kostnað í för með sér að hafa 4 strandferðaskip í gangi allt árið auk hinna nauðsynlegu flóabáta, og má gera ráð fyrir, að af þessu hljótist allmikill tilkostnaður og tekjuhalli, sem að vísu er ekki um að sakast, en þó ástæða til að hafa sem minnstan. Eins og ég tek fram í grg., ætti að nægja að hafa á útmánuðum, frá miðjum marz til aprílloka, þrjú skip til strandsiglinga, því að á þeim tíma er lítið um ferðir sjómanna, verkafólks eða skólanemenda. Sama máli gegnir um tímabilið frá byrjun júlímánaðar og fram í miðjan september. Væri þá mjög heppilegt að geta haft atvinnu fyrir annað stærra skipið, og hef ég lagt til, að það yrði athugað, hvort ekki væri hyggilegt að senda skipið árlega með íslenzkt ferðafólk til merkustu staða við. Miðjarðarhaf. Hygg ég, að þetta gætu orðið mjög ánægjulegar ferðir fyrir íslenzkt fólk, að fara til nokkurra helztu staða við Miðjarðarhaf um 6 vikna tíma, og mætti gera ráð fyrir, að þetta yrði lítill kostnaður fyrir landið, því að þetta yrði á íslenzkum heimilum, fólkið byggi í skipunum og borðaði í skipunum allan tímann. Að vísu þyrfti nokkurn farareyri handa gestunum, en það mundi ekki nema neinu, samanborið við það, þegar t.d. 100 menn fara til Norðurlanda, því að þá verður að borga allt, skipakost, flugvélar o.s.frv. Ég álít því, að þetta mundi verða skaðlaust fyrir landið heima fyrir og mundi verða eins og ávextirnir, mundi verða til þess að bæta þjóðlífið, manna þjóðina, að lofa mörgum þeim mönnum, sem þrá að sjá suðræn aldini, að verða þeirrar ánægju aðnjótandi, þó að ekki væri nema mánaðartíma einu sinni á ævinni, og skoða hið margvíslega, sem þar er hægt að sjá. Það má vera, að sumum finnist þetta óhóf, því að stundum hefur ríkt fólk komið hingað með stórum skipum og staðið hér stutt við. Það má vera, að einhverjir kalli þetta óhóf, en menn langar í þetta óhóf. Það eru fleiri en ríka fólkið, sem langar að fara þessar ferðir, og megi fara þessar ferðir þannig, að aðrir en ríkir menn geti farið þær, sé ég ekki annað en að þeir eigi einnig rétt til að verða þeirrar skemmtunar aðnjótandi.

Þá hef ég einnig lagt til, að hafin verði athugun á því, hvort ekki væri heppilegt að hafa annað skipið í förum reglulega sumarlangt milli Reykjavíkur og Glasgow, þar sem líkur eru til, að þann tíma hafi skipin yfirleitt mjög lítið að gera, að því er snertir flutninga með ströndum fram, því að ef 7–10 daga dvöl á Íslandi yrði hóflega dýr, mundi hægt að fá hingað frá Englandi stöðugan ferðamannastraum, meðan sumarleyfin standa. Nú mætti kannske aftur spyrja, hvort við getum tekið á móti nokkrum ferðamönnum, hvort dýrtíðin er ekki svo mikil, að ekkert fólk vilji koma.. Ef svo verður, er ekki hægt að leggja út á þessa leið, því að það er ekki ástæða til að flytja inn ferðafólk hingað, ef það getur ekki skapað okkur atvinnu og tekjur fyrir landið. Var gerð nokkur tilraun með þetta fyrir stríð með elztu Esju, og varð mjög mikil aðsókn að þessu af duglegu skrifstofufólki, sem vildi nota frí sitt með því að koma hingað, og lítur út fyrir, að sé stöðug eftirspurn eftir því að komast hingað, en við höfum haft slíkan útbúnað, að við höfum lítt getað tekið á móti gestum. Þar sem Alþ. hefur í fyrra lagt til, að byggt verði stórt hótel, er miðist við, að hingað komi erlendir gestir, verð ég að segja, að þessi till. byggist á því, að það sé eftirsóknarverður atvinnuvegur að fá erlenda gesti hingað. Og því hef ég óskað eftir, að þetta verði athugað, og vildi leggja til við hæstv. forseta, að málinu verði vísað til allshn., þegar umr. er lokið hér í dag.